Flottir tónleikar í Fríkirkjunni - suðurríkjablús og Burt Bacharach

Tónleikar til styrktar Vímulausri æsku í Fríkirkjunni í kvöld voru óskaplega fallegir. Efnisskráin að mestu lágstemmd, fjöldi trúbadora og annarra söngvaskálda fluttu frumsamda tónlist og aðra vel valda tóna. Fyrir okkur sem hrífumst auðveldlega með góðri tónlist voru sveiflurnar miklar milli tára og taktfasts klapps sem minnti mest á stemmningu sem frekar hefði mátt vænta í svörtum suðurríkjamessum. Atriðin voru hvert öðru frábærara en alla leiðina heim hljómaði ,,You gotta move" sem er gamall blús sem ég þekkti fyrirfram aðallega frá Rolling Stones (sem aldrei eru betri en í blúsinum) og svo Hallelujah frá Helga Val trúbador, lag sem ég hef alltaf elskað frá því ég heyrði það fyrst með Cohen. Helgi Valur átti fleira skylt með John Cale útgáfunni, en fyrst og fremst var þetta hans eigin útgáfa. Þessi lög hljómuðu í huganum af því ég þekkti þau fyrir, en svo voru líka minna þekkt lög innan um sem ég gæti alveg hugsað mér að fá á heilann, frumsamin og jafnvel frumflutt. Gæti vel hugsað mér að heyra alla tónleikana aftur til að njóta enn betur. 

Á baráttudegi kvenna verður mér hugsað til ...

... kvennanna í erfiðisvinnunni á sjúkrahúsunum sem þurfa að dröslast með þunga sjúklinga en fá ekki greiðslur eins og aðrir sem stunda erfiðisvinnu. Pouty

... fjölgunar kvenna í stjórnum, nefndum, ráðum og á þingi seinustu tvo áratugina. Man einhver þegar það voru bara þrjár konur á þingi? Já, það var fram til ársins 1983. Smile

... bakslags í fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum og pólitík. Crying

... hversu glæsilega konur og karlar um allan bæ eru að fagna þessum degi. Smile

... launabilsins milli karla og kvenna. Angry

... allra ungu stelpnanna sem eru að gera það gott á öllum sviðum samfélagsins. Wizard

... kynferðisofbeldis sem enn virðist ekki vera búið að uppræta. Angry

... allra strákanna og karlmannanna sem eru yfirlýstir, stoltir feministar. Smile

... þeirra kvenna sem þora ekki að leggja feminismanum lið. Sleeping

... VG og framrásar kvennabaráttunnar innan vébanda flokksins. Grin


Orðskýringar Önnu um ESB

Þið eruð örugglega ekki öll sammála mér. En skoðið, hugsið, og sjáið til hvort þetta er ekki einmitt rétt.

 

 

Þegar sagt er:

            Ég er Evrópusinni

... þá er raunverulega átt við:

            Ég er Evrópusambandssinni

 

Þegar sagt er:

            Ég vil að við skoðum með opnum hug: aðild að Evrópusambandinu/upptöku       Evrunnar/aðildarviðræður við ESB

... þá er raunverulega átt við:

            Ég vil að við göngum í Evrópusambandið

 

Þegar sagt er:

            Við getum haft (mikil) áhrif á stefnu Evrópusambandsins

... þá er raunverulega átt við:

            Ég er svo klár að ég get sannfært kallana í Brussel, alla vega um eitthvað sem fólkið heima kaupir.

 

Þegar sagt er:

            Við megum ekki eingangrast

... þá er raunverulega átt við:

            Ég vil ganga í Evrópusambandið


Þegar sagt er:

            Við getum alveg tekið upp Evruna án þess að ganga í Evrópusambandið

... þá er raunverulega átt við:

            Ef ég fæ fólk til að sannfærast um að við eigum að taka upp Evruna þá neyðumst við til að ganga í Evrópusambandið

 

Þegar sagt er:

           Mér finnst að við eigum að láta reyna á það hver langt við komumst í aðildarviðræðum við ESB

... þá er raunverulega átt við:

           Auðvitað veit ég að við förum ekki í aðildarviðræður með annað að markmiði en að ganga í Evrópusambandið, en það vita ekki allir og kannski er þetta eina ráðið sem dugar til að koma okkur inn

 

Við sem erum andstæð aðild að Evrópusambandinu kunnum ekki þessa felulist, kannski höfum við bara ekkert að fela. Ég hef til dæmis aldrei heyrt sagt: Ég vil að við skoðum með opnum hug að standa utan Evrópusambandsins. Hugsið málið. Kannski meira seinna, og allar viðbætur velkomnar.

 

 


Merkilegur titringur í gangi

Áhugavert að skoða viðbrögðin við þessari frétt, sem að mínu mati er frekar frétt vegna þeirra sem ekki eru með á þessu áliti. Afstaða þessara flokka hefur alltaf verið skýr og aðalástæða fyrir andstöðu við inngöngu sú sem fram kemur í fréttinni. Þótt nýr formaður Framsóknar hafni aðild á næstum árum virðist hann ekki geta hamið sitt lið. Afstaða Samfylkingarinnar er ljós, hún er á leið í ESB, nánast ein síns liðs heyrist mér stundum, eins og þegar stungið var upp á því á sínum tíma að veita Jóni Baldvin einstakingsaðild að ESB. Svo er bara spurningin hvort einhver er tilbúin að setja aðildarviðræður á svo háan stall í stjórnamyndunarviðræðum að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum eða VG. Ég held að þeir flokkar sem myndu taka slíka afstöðu væru sjálfkrafa að dæma sig úr leik í næstu ríkisstjórn, því hún verður vart mynduð án annars hvors þessara flokka, eða beggja.


mbl.is VG og Sjálfstæðisflokkur gegn ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan um hurðarhúnana og Ísland í stíl

Við Ari minn höfum verið að kljást við að innrétta háaloftið okkar, sem hafði safnað drasli í 26 ár, og hentum bróðurpartinum út þar og erum búin að innrétta þar þriggja herbergja vistarverur ásamt geymslukríli. Krakkarnir okkar (28 og 29 ára), sem báðir eru enn í skóla, eru að flytja úr skápunum sínum og í alvöru herbergi af því tilefni. Ýmislegt er ógert og núna þegar draumahurðirnar eru komnar á útsölu í Byko þá þurfti auðvitað að nálgast þær. Fékk þetta fína símtal þegar ég var að borga fyrir klippinguna mína áðan:

- Voruð þið búin að skoða hurðarhúna?

- Já, ég fór með  krökkunum að skoða milli jóla og nýárs, en þau eru ekki sammála.

- Eigum við þá ekki að bíða með það?

- Nei, mér finnst að þau eigi að fá að hafa mismunandi hurðarhúna! Það sést ekki einu sinni á milli herbergjanna [háaloftið er eins og húsið alltí vinkil].

- Mismunandi húna! Mér líst ekki á það.

- Nei, engum líst á það nema mér :-( 

Í heil 17 ár var ég með opið hús fyrir vini og vandamenn á sunnudagskvöldum og lengst af lagði ég mig fram að vera með mjög litskrúðuga bolla og ekki alla í sama lit. Einn var flöskugrænn og gulur að innan og diskurinn við þá kannski fjólublár. Einhvern tíma varð mér á að láta einhvern gestinn fá bolla og kökudisk aðeins of mikið í ,,stíl" og fékk þessa sármóðguðu athugasemd: ,,Af hverju fæ ég allt í stíl, er þér eitthvað illa við mig?" Seinna komst þetta misræmi í tísku um hríð, þannig að ef til vill á ég eftir að sjá heimili með hurðarhúna sem eru ekki í stíl, einhvern tíma í framtíðnni. Eða ekki ;-]


Í fullu samræmi við veruleikann

Ég er ekkert sérlega undrandi á þessari niðurstöðu varðandi stuðning við Vinstri græn. Þetta er nákvæmlega í takt við það sem ég hef verið að finna í kringum mig og ég held að stórglæsileg útkoma kvenna í forvali á höfuðborgarsvæðinu sýni vel að okkur er alvara, bæði konum og körlum í VG. Við ætlum að hrinda í framkvæmd gerbreytingu til meira jafnréttis ef við fáum afl til eftir kosningar. Er eftir einhverju að bíða?

mbl.is Konur í Samfylkingu og Framsókn á leið til vinstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónleikar á fimmtudaginn í Fríkirkjunni

Var að fá meldingu um spennandi tónleika á fimmtudaginn, svona fyrir þá sem vilja sjá aðra hlið á Páli Óskari en í X-factor, og miklu mun ljúfari. Það er reyndar fullt af góðu fólki sem ætlar að leggja góðu málefni lið, en tónleikarnir eru til styrktar Vímulausri æsku og Foreldrahúsinu.

Mér er málið æði mikið skylt þótt ég sé alveg hætt öllum stjórnarstörfum í samtökunum, en ég er búin að fylgjast með þessum samtökum síðan ég var lausapenni í blaðamennsku og vann blað fyrir samtökin næstum um 20 árum. Þetta eru öfgalaus samtök (með fjármálin á þurru og því miður allt of lítið af peningum) og þarna hafa foreldrar krakka sem lenda í vanda getað leitað aðstoðar á göngu sinni gegnum kerfið og litlu systkinin átt aðgang að styrktarhópum og uppbyggilegum námskeiðum, því oft eru þau í áhættu þegar allt snýst um fíkilinn. Krakkarnir sem komast upp úr farinu eiga síðan aðgang að stuðningi eftir á, sem lengst af hefur vantað. Það er áreiðanlega enginn til sem sættir sig við að til séu krakkar í samfélaginu sem við nennum ekki að berjast fyrir að fái að lifa betra lífi.

Eftir Byrgismálið er eins og þessi málaflokkur sé orðinn svolítið ósnertanlegur á nýjan leik, og það er auðvitað bara blekkingarleikur, því eftir sem áður eru margir í vanda, Vímulaus æska og Foreldahúsið hafa haft hlutverki að gegna gagnvart fjölskyldum fíkla og krökkunum sem eru að reyna að fóta sig aftur í samfélaginu. Þannig að ég ætla bara að hvetja alla sem komast að kíkja í Fríkirkjuna á fimmtudagkvöldið - hér er bréfið sem ég fékk og rétt að taka fram að það verða líka seldir miðar við innganginn meðan pláss leyfir alla vega:

VÍM 2007

 Fjölskyldutónleikar til styrktar Vímulausri æsku – Foreldrahúsi verða haldnirfimmtudaginn 8. mars nk. kl. 19:00-20:30 í Fríkirkjunni í Reykjavík. Eftirtaldir tónlistarmenn koma fram: Páll Óskar og Monika, Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson (úr Mezzoforte), dúettinn Picknick (Sigga Eyþórs og Steini úr Hjálmum), Hilmar Garðarsson trúbador, Halli Reynis trúbador, Elín Eyþórsdóttir og Helgi Valur Ásgeirsson trúbadorKynnir á tónleikunum verður Felix Bergsson leikari. Miðaverð er kr. 2.000 og er hægt að kaupa miða í Foreldrahúsi við Vonarstræti 4b í Reykjavík, símar: 511 6161 og 511 6163. Bæði er hægt að staðgreiða miða og greiða með greiðslukorti (debet og kredit).  Einnig er hægt að hringja og panta miða í síma og leggja þá inn pening beint á reikning sem við gefum upp við viðmælandann.  Tónleikarnir eru ætlaðir öllu fólki sem hefur gaman af lifandi tónlist og vill sýna hug sinn í verki til styrktar vímuvörnum meðal barna og unglinga. Styrktartónleikarnir eru skemmtun fyrir alla fjölskylduna og eru foreldrar hvattir til að mæta með unglingum sínum. Frítt fyrir börn 10 ára og yngri Nánari upplýsingar: www.vimulaus.is

 


Alltaf hægt að vona - en líklega lafir stjórnin út kjörtímabilið

Fréttaflutningur af árekstrum í stjórnarsamstarfinu er til þess fallinn að auka bjartsýni á að stutt sé til kosninga. Fréttaflutningur, ítreka ég, ekki endilega sá veruleiki sem þar liggur að baki. Framsókn mun eflaust hanga í stjórn eins og hundur á roði eins lengi og hægt er. Og varla verður séð að það þjóni hagsmunum Sjálfstæðismanna að flýta kosningum heldur. Samfylkingin ræður kannski engu, en varla dreymir hana um um að kosningar bresti á. Þannig að það er ábyggilega talið ,,pólitískt klókt" að hóta stjórnarslitum, skilgreina sig frá stóra flokknum, og vona svo það besta undir stjórn kosningaímyndarkónganna. Framsókn hefur yfirleitt verið frekar heppin með auglýsinga- og ímyndarstofur, til dæmis þegar Heiðar snyrtir klæddi Pál Pétursson upp í málmblá föt og Finn í sumarmosagræn jakkaföt. (Sumarmosinn er grágrænn en vetrarmosinn er skærgrænn, ég hef aldrei séð mosagrænan mosa Whistling ). Reyndar fataðist þeim aðeins þegar stóru andlitsmyndirnar af Halldóri og Finni voru út um alla borg, ætla ekki að rifja upp brandarann sem þá var sagður, en hver man ekki eftir ,,Klettinum í hafinu", og skiptir þá engu þótt einhverjir hafi kallað hann Kolbeinsey. Kletturinn í hafinu virkaði á marga, ekki satt?

Núna hljómar eins og ímyndarsmiðirnir hafi, rétt einu sinni, sagt: Sýnið ákveðni! Enda varla við öðru að búast, ekki fara þeir að segja: Sýnið linkind! En hvað svo sem veldur, þá er kominn ansi mikill kosningaskjálfti í stjórnmála- og fréttamenn og á hverjum morgni, áður en ég vakna almennilega, þá trúi ég því andartak að það verði kosið eftir 3-4 vikur. En svo vakna ég betur og veit að ég þarf að þrauka í næstum tíu vikur í viðbót. En ekki lengur, ekki lengur.


Húrra Sóley og tekst að þökuleggja hægri pólitíkina?

Umræðan um klám var að komast í hreinasta öngstræti hjá gestum Egils Helgasonar þegar Sóley Tómasdóttir hreinlega jarðaði allt ruglið í sumum hinna gestanna í þættinum og skildi mannskapinn eftir kjaftstopp. Egill hafði vit til að stoppa umræðuna þar, enda var ekki meira um málið að segja eftir áhrifaríka lýsingu Sóleyjar á nöprum veruleika þessa iðnaðar og fórnarlamba hans. Húrra Sóley.

Svo mætti Ómar til leiks. Hann boðar, eins og á bloggsíðunni sinni, framboð innan skamms. Nú á að leggja grænar þökur yfir hægri og miðsvæðin í pólitík, það er að segja ef það tekst. Ég óska Ómari og félögum alls góðs í þeirri viðleitni sinni og vona að hann beri gæfu til að sitja ekki uppi með of marga kverúlanta eða lið sem ekki fær byr hjá öðrum flokkum (lengur) og tek fram að ég er alls ekki að tala um Margréti Sverris og hennar fylgismenn, því það er að mínu mati hópur fólks sem í rauninni er hinn eiginlegi Frjálslyndi flokkur, þótt innkoma annarra lukkuriddara hafi hrakið þau úr flokknum. Forvitnilegt að sjá hvernig til tekst. Við fáum víst að vita það innan 10 daga.

 

 


Smá upprifjun frá Herferð gegn hungri

Ætli ég hafi ekki verið 13-14 ára þegar ég hljóp á milli bæja hér á Álftanesi og safnaði fyrir Herferð gegn hungri. Þá voru það börnin í Biafra sem við vorum að reyna að bjarga og síðan höfum við séð margar tilraunir hér á Vesturlöndum (Live Aid, Live 8 o.fl.) til að bjarga hungrinu í heiminum, lært margar lexíur, grátið mörgum söltum tárum og horfið svo aftur til leikja og starfa eins og gengur. Sumir hafa gerst þátttakendur í að reyna að hjálpa, sem einstaklingar í hjálparstarfi, og ég hef alltaf verið svolítið hugsandi eftir að hafa í tvígang tekið viðtal við Sigríði Guðmundsdóttur, eina okkar allra öflugust manneskju í hjálparstarfi fyrr og síðar. Fyrst fyrir blað sem gefið var út fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar og síðan fyrir bók sem hét Lífsreynsla, en sú frásögn hét ,,Ekki varð öllum bjargað". 

Þar sem ég er nú allt í einu farin að horfa á sjónvarp, þá datt ég inn í kvikmynd (Beyond Borders) sem byrjaði (með svona smá útúrdúr) í hjálparstarfi í Afríku og enn og aftur fékk maður þessa magnleysistilfinningu að ekki yrði öllum bjargað. En það var bara hollt að rifja upp þessa tilfinningu frá unglingsárunum í skugga Biafra stríðsins, fyrst var maður að reyna að safna peningum, svo að gera einhverjar áróðursmyndir (teikningar - man ekki hver stóð fyrir því átaki) og svo fjaraði þetta einhvern veginn út. Aftur vaknaði aftur með hverri aðgerð. Raunsætt séð veit ég ósköp vel að engin töfralausn er til, en það merkir ekki að maður eigi að gleyma þessum málum, af því þau eru erfið eða vonlítil. Sagt er að gleymskan sé það versta, gleymd stríð, gleymt neyðarástand. Held að þessi kvikmynd hafi verið gerð af góðum hug, þótt hún sé svolítið væmin á köflum.

Þegar við vorum að safna fyrir Herferð gegn hungri á sínum tíma sagði ráðskonan á Bessastöðum í gríni: Fransbrauð eða rúgbrauð? Ég varð hálf vandræðaleg yfir því að fara að hlæja, fyrir 13 ára stelpu var þetta auðvitað allt of mikið alvörumál til að grínast svona með það. Fyrsta kast af vondu samvisku Vesturlandanna og greinilega ekki vaxin upp úr því enn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband