Snjór í sumarveðri og kuldaskræfur frá Íslandi

Hér í New Mexico hefur verið sumarveður að undanförnu, öll tré í fullum blóma og apríkósutrén slá fallegu kirsuberjatrjánum næstum við í fegurð. En hmmm, hér erum við systurnar samankomnar um páskana og úti er snjór og frost. Ferðinni til Santa Fe hefur verið frestað um dag vegna hálku. Við höfum það hins vegar yndislegt á heimili Nínu systur okkar hér í Portales. Hér var fjöldi vina hennar og Anniear systurdóttur okkar í gærkvöldi, rosalega skemmtilegt fólk. Öllum finnst mjög fyndið hvað íslensku systurnar eru miklar kuldaskræfur ;-) en hér kunna ALLIR brandarann um að Ísland ætti að heita Grænland og öfugt.

Hér spyr fólkið eins og á Íslandi: How do you like Portales? En þá er líka búist við því að við svörum: Hriklalega ljót, þvi öllum hér finnst Portales mjög ljótur bær. Þetta er 12 þúsund manna háskólabær og Nína var búin að vara okkur við að bærinn væri með afbrigðum ljótur, og satt að segja er ég ekki frá því eftir smá rúnta hér, að hún hafi rétt fyrir sér. Allir brosa hringinn þegar maður segir varlega: Mér finnst háskólasvæðið fínt og húsið hjá Nínu! Og svo er bara talað um ljótleika bæjarins. Skrýtið! En við höfum það afskaplega gott hér í í flatneskjunni og hlökkum til að komast til hinnar gullfallegu borgar Santa Fe þar sem okkar bíður indjánapartí.


Skemmtilega sakleysislegt komment - um blakmót lesbía

Einhverri mannvitsbrekkunni datt víst í hug að það þyrfti að fara að banna blakmót lesbía hér á Íslandi á sömu forsendum og klámráðstefnan var blásin af. Einhvejr hræðsla um að þær færu að stunda ,,iðju" sína utan vallar. Ég hef ekki séð þessar athugasemdir, en ég las alveg yndislega sakleysislegt svar Kristínar Sævarsdóttir við þessum fordómum í Blaðinu áðan: ,,Eru þeir svona hræddir við að við förum með boltann út á götu?"

Á vængjum meðalmennskunnar

Stundum langar mig bara að lifa rólegu og viðburðasnauðu lífi (held ég), svífa átakalaust á vængjum meðalmennskunnar. En svo líður það hjá. Alla vega, er að fara til Ameríku á morgun, New York, Portales, Santa Fe og Albuquerque - here we come. Skýri þetta kannski betur með vængi meðalmennskunnar eftir páska, kannski, kannski ekki!

Og ég sem hélt þetta væri búið - í bili alla vega

Var aðeins of fljót að skrifa um sunnudaginn eftir kosningar. Gleymdi þessu með mánudaginn, þegar plottin byrja og sá fær stjórnarmyndunarumboðið sem ekki sigraði. Í þessu tilfelli hreinlega möguleikann á að fara eftir sínu höfði. Ef jákvæðir andstæðingar álvers hefðu tapað hefði áreiðanlega verið sagt eitthvað ef: 

a) ... þeir hefðu sagt: En við ætlum samt að hindra stækkun

b) ... af því við töpuðum þá ætlum við að gera alla aðra tortryggilega, meira að segja að fetta fingur út í nýaðflutta Hafnfirðinga.

En mér finnst eins og það þyki bara sjálfsagt að fyrst að kosningarnar fóru ekki eins og sumir kusu, eigi þeir SAMT að fá að ráða. Mér finnst það ekki sjálfsagt.  

 


mbl.is Stækkun álversins rúmast innan núverandi deiliskipulags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni af væntanlegri Ameríkuferð - smá tóndæmi

Í tilefni af væntanlegri Ameríkuferð mundi ég allt í einu eftir að ein af mínum uppáhaldshljómsveitum, Tiro d Gracia, er með alveg frábært lag sem heitir einfaldlega America. Fann það á YouTube: America.

Ekki bara græn ...

Af gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég er ekki bara græn, heldur líka vinstri. Græna slagsíðan hefur verið áberandi að undanförnu vegna ótal atburða í samfélaginu sem hafa gefið tilefni til. Baráttan í Hafnarfirði var ekki bara barátta fyrir hreinna umhverfi, heldur líka fyrir því að láta ekki auðmagn stórfyrirtækja ráða skoðunum manna í krafti fjármagns og þeirra taka sem þau hafa á umhverfi sínu, fyrirtækjum sem þjónusta þau og því ágæta fólki sem hjá þeim vinnur. 

En ég hef stundum sagt að ég væri meira vinstri en græn, ekki vegna þess að ég unni ekki umhverfinu, var alin upp sem eldheitur umhverfissinni og æskuminningarnar eru barátta fyrir verndun Þjórsárvera á sjöunda áratugnum. Hins vegar eru svo mörg réttlætismál sem hafa verið borin uppi af vinstra fólki, barátta fyrir meiri jöfnuði í samfélaginu, fyrir sjálfsögðum mannréttindum á borð við atvinnuleysistryggingar, hærri og jafnari laun, fyrir bættum hag aldraðra og öryrkja, meðan enginn hafði áhuga á slíku, sem sagnfræðingur get ég ekki annað en horft á söguilegt hlutverk okkar vinstra fólksins með ákveðinni ábyrgðartilfinningu. Í Kvennalistnum vorum við hver úr sinni áttinni, ég kom frá vinstri til liðs við konur alls staðar að úr samfélaginu, og þegar hreyfingunni minni var stýrt í einn pólitískan farveg kaus ég að fara til baka þangað sem ég hafði áður verið, munaðarlaus um hríð, en þegar VG var stofnað, þá var ég með, þetta var minn heimavöllur. Og þar er ég enn, bæði vinstri og græn.  

Og svo er ég auðvitað ansi bleik líka ...  


Enginn tími fyrir spennufall

Enginn tími hefur gefist til að fara í spennufall eftir æsispennandi kosningakvöld í gærkvöldi. Tvær fermingar í dag, sem betur fer bara ein veisla, Snædís og Sigga Lóa föðursystir hennar (já, alveg rétt) fermdust og haldin var glæsileg veisla í Vonarholti hjá tengdamömmu. Síðan var haldið í smá endurskipulagningu á heimilinu sem lyktaði með mikilli páskavæðingu, þar sem við vorum að eignast forkunnarfagran páskagulan sófa, sem mamma var að láta okkur fá  og í tilefni af því var auðvitað settur upp páskadúkur og páskaliljur í vasa á borðstofuborðið. Smá svipmynd úr símanum mínum:

 Páskar 2007

Ég þarf nefnilega að taka forskot á páskana (fengum okkur páskaegg nr. 1 í kvöld til að fá sinn málsháttinn hvert). Á miðvikudaginn fljúgum við Elísabet systir til Ameríku til Nínu systur, enda ekki seinna vænna að heimsækja hana, þar sem hún hyggur á heimflutning til Íslands. Hún átti góðar stundir við kennslu í Háskóla Íslands fyrir rúmum tveimur árum og langar heim. Við höfum trú á því að það sé þörf á konu með doktorspróf í amerískum bókmenntum, mikinn feminista, sem hefur m.a. kennt bókmenntir indjána við Háskóla Íslands og fleira spennandi. Það hlýtur að bíða hennar spennandi staða hér heima, en það verður að vera hér á höfuðborgarsvæðinu því við erum búin að vera nógu lengi aðskilin systkinin. Nenni ekki að útskýra það í þaula, það myndi taka ca. tvo hæðarmetra af bloggi. 

En alla vega páskar í Santa Fe, þar sem Nína er viss um að okkur þyki skemmtilegra þar en í Portales, litla háskólabænum þar sem hún býr. Hún gaf mér þvílíkt yndislega bók frá Santa Fe fyrir tveimur árum að ég bíð spennt. Svo skilst mér líka að þar séu falleg, bleik hús (þótt fleiri séu Santa Fe blá, eins og hurðirnar í sumarbústaðnum okkar). Fyrir þá sem ekki vita þá mun ég einn góðan veðurdag afhjúpa verkið mitt, bleik hús. Ykkur verður öllum boðið á opnunina. 


Sunnudagurinn eftir kosningar

Sunnudagurinn eftir kosningar er alltaf svolítið merkilegur dagur. Allt hfeur verið á fullu, hjá sumum verður spennufall, mígreinfólk verður að trappa sig hægt niður til að fá ekki mígrenikast, stundum er allt fullt af fundum, tiltekt, plotti, þegar við á þreifingum eða jafnvel stjórnarmyndunarviðræðum. Sé á moggavefnum að þeir sem voru í forsvari fyrir Sól í Straumi ætla að bera saman bækur sínar eftir kosningar, hvaða lærdóm má draga af baráttunni, hvað mætti gera öðru vísi, t.d. varðandi kosningar á kjördag. Það kemur mér eiginlega ekkert á óvart. Það er ekki hægt að hætta bara hérna, búið spil. Í gærkvöldi var fagnað verðskuldað og innilega, í dag er .... sunnudagurinn eftir kosningar! Og hann er alltaf spes, þótt ekki sé verið að mynda ríkisstjórn, bæjarstjórn eða neitt af því tagi, þetta er dagur vangaveltna og uppgjörs. 

Ein barátta að baki og önnur framundan

Þá er ein baráttan að baki og næsta framundan. Sú er ekki síður merkileg en álverskosningarnar, því ein ríkisstjórn getur tekið svo margar afdrifaríkar ákvarðanir, ekki síður en þá sem bæjarstjórnin í Hafnarfirði fól bæjarbúum að taka. Spár lofa góðu en ef til vill hrökkva einhverjir gamlir Framsóknarmenn aftur á básana sína áður en kosið verður, sú hefur oft verið raunin. Varla koma þeir frá VG, þannig að það sem máli skiptir er að sjá þau mynstur sem verða möguleg í stjórnarsamstarfi. Mig grunar að flækjustigið eftir kosningar muni koma á óvart. 

Sagði að þetta yrði tæpt - en þetta hafðist!

Óttaðist að þetta yrði tæpt en nú liggur niðurstaða fyrir og þetta hafðist! Aðrar kosningarnar í röð sé ég rosalegan hræðisluáróður og aðrar kosningar í röð er niðurstaðan ánægjuleg. Hvert einasta atkvæði telur, aldrei að gleyma því. Og takk, Hafnfirðingar, þið stóðust raunina. Takk Stebbi frændi og til hamingju, þú og félagar þínir hafa staðið ykkur vel!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband