Stattu við þetta Bjarni!

Ein athyglisverðasta yfirlýsing helgarinnar kom frá bankastjóra, Bjarna Ármannssyni, þess efnis að hann væri jákvæður fyrir því að aflétta launaleynd. Nú hefur hann þokkaleg mannaforráð svo ég vona bara að hann stígi næsta skref og geri þetta á hinum stóra vinnustað sem hann stendur fyrir. Áhrif þeirrar aðgerðar yrði að mínu mati alveg gríðarleg. Ekki sársaukalaus, en áhrifarík. Vissulega munu menn koma og segja, þá fer bara launamisréttið niður fyrir borðið, með alls konar sporslum sem aðeins kæmu til karla. Ekki hafa áhyggjur, sporslurnar eru þarna nú þegar og reyndar held ég að afnám launaleyndar gæti alveg náð til þeirra líka. Flott sagt og enn glæsilegra ef þetta verður gert. 

Elska landið, verra með veðrið

Fórum aðeins upp í Borgarfjörð um helgina og gat ekki hætt að dást að fegurð landsins og náttúrunnar. Hins vegar hefur ástar/haturssamband mitt við veðrið ekkert skánað, aðallega nettur fjandskapur við kulda, trekk, rok, slyddu og hálku. Mér er ekki illa við snjó ef það er ekki of mikið rok og kuldi og ég elska 25 stiga hita á Þingvöllum eða Borgarfirði, sem ég hef oft upplifað einkum í ágústbyrjun. Rok og rigning getur meira að segja verið í lagi ef hlýtt er í veðri, en því miður er ekki of mikið um slíkt. 

Nú er að vanda alveg ágætis kuldaspá fyrir ,,sumardaginn fyrsta" sem er auðvitað geggjað fyrirbæri, og ekki er síðri þjóðtrúin um að það viti á gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman (!). Þetta er auðvitað með merkilegri markaðssetningarfrösum Íslandssögunnar. Hver fann þetta eiginlega upp?

En svo koma svona fallegir dagar eins og sunnudagurinn og út um bíl- og sumarbústaðarglugga og maður gleymir öllu. Við erum æði rík af orðum sem lýsa ekki bara veðri heldur líka samfélagsástandi, gluggaveður, grjótfok og uppáhaldið mitt: Skrifstofufárviðri, sem á við þessa örfáu virkilega góðu sumardaga sem við fáum.

Þessi hugleiðing sem hömruð inn á tölvuna í tilefni sumarkomunnar og fallega sunnudagsins sem er nýliðinn og ég vona að Ari segi ekki eins og hann sagði um árið: Vona að þetta verði snjólétt sumar, því það var einmitt árið sem Jónsmessuhretið kom og nágrannar okkar urðu veðurtepptir í tjaldi í Víkurskarði og komust ekki til byggða á sumardekkjunum, sama árið og tengdapabbi lýsti hestaferð um Kaldadal þannig að allir hefðu hallað sér fram í vindinn eins og þeir væru á mótorhjólum og enginn hefði komist af baki (nema kannski einu sinni) vegna veðurs þótt þeir þyrftu að létta af sér. Og þetta sumar tók Gunna vinkona fyrir norðan myndir af fénu sínu vaðandi snjó upp á kvið, sem betur fór voru lömbin orðin meira en mánaðargömul.

Í einhverjum annál sagði eitthvað á þessa leið: Þetta ár kom sumarið ekki. Og þegar maður les slíkt skammast maður sín auðvitað fyrir nöldrið, ég vildi ekki búa í torfbæ (þeir geta orðið furðu kaldir) eða vera háð því að rölta út til að gefa skepnum án góðra og hlýrra vetrarklæða, eins og mig grunar að formæður okkar og -feður hafi þurft að gera. En það er heldur ekki gott að gera illt verra með því að ógna því bláþráðarjafnvægi sem veðrátta heimsins er nú þegar í. Þannig að í guðanna bænum, við verðum að hætta að taka frekari sjens á veðráttunni, ef við ætlum að geta notið náttúrunnar öðru vísi en út um gluggann. Þess vegna er svo nauðsynlegt að vera hæfilega grænn og ekki of hrifinn af vondu veðri. Hvernig sem veðrið mun þróast með auknum áhrifum gróðurhúsaloftslagsins þá er eitt alla vega víst, það skánar ekki. Danirnir sem klæddust havaískyrtum og fóru í gríngöngu hér um árið og spreyjuðu úr úðabrúsum til að heimta aukinn hita með gróðurhúsaveðráttunni vour bara að djóka! og þeir vissu það.


Sprungið á þriðja hjólinu

Grunar að ég hafi verið frekar jákvæð gagnvart Íslandshreyfingunni. Tek það til baka, því mér líst bara ekkert á það sem kemur frá hreyfingunni, því miður. Hafði alltaf séð hana fyrir mér sem þriðja hjólið undir vagninum í góðri stjórn, en bæði fylgið og sumar athugasemdirnar sem hafa komið frá þessu herbúðum hafa gert mig alveg afhuga þeirri hugmynd. Skil ekki alveg hvað hefur gerst, eða kannski var ég bara svona græn ;-) 

Drungi og draumalíf í Egilshöll

Ég átti erindi í Egilshöll í dag. Ekki til að taka þátt í krataþingi, heldur var ég að fara á skauta, nokkuð sem ég hef ekki gert í 25 ár og ekki af neinu viti í 40 ár. Þar sem ég rölti í lopapeysunni minni gegnum krataflákana, með skauta um öxl (ekki bara til að skera mig úr kratahópnum) þá fann ég fyrir þunga og drungalegnri stemmningu og fannst hópurinn frekar gleðisnauður. Mjög ólíkt því sem ég fann fyrir í upphafi kosningabaráttunnar í forvali VG þegar allt var hreinlega að springa úr fjöri og sköpunarkrafti, og þá vorum við ekki komin í nema svona 15-17% í skoðanakönnunum. Ég vona, kratanna vegna, að ég hafi bara hitt illa á. Reyndar heyrði ég í útvarpinu á bakaleið að það hefði verið jafnréttisfundur í hádeginu, líklega stóð hann enn þegar mig bar að garði, og kannski var meira fjör þar.

Hins vegar var alger draumur að komast á skauta eftir 25 ára fjarveru úr þeim heimi. Ég naut þeirra forréttinda að alast upp við Bessastaðatjörn frá 12 ára aldri og þar var oft mjög gott skautasvell og hægt að skauta nánast óhindrað svo langt sem augað eygði. Nú eru veður rysjóttari og gott að vita Alsæl á skautumaf þessum tveimur stöðum þar sem hægt er að komast á skauta óháð veðri. Ég hef oft horft öfundaraugum á skautasvellin í New York, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn, á fallegum torgum þar, en þetta er bara fínt þarna í Egilshöll. Fyrst staulaðist ég meðfram handriðinu alveg undrandi á því hvað svellið var sleipt. Harðneitaði þó að taka göngugrind. Svo fór maður að færast í aukana, sleppa sér, en fékk samt smá bakslag þegar Kjartan vinnufélagi minn greip í mig og keyrði áfram, úff, rosalega brá mér, og er þó ekki viðbrigðin. Hótaði að henda mér í svellið og láta öllum illum látum ef hann gerði þetta aftur! Hann lét Geira vinnufélaga okkar um að grípa mig næst, en ýtti sjálfur á Geira, og í það skiptið lifði ég af. Henti mér ekki í svellið og lét ekki öllum illum látum, og olli þar með nokkrum vonbrigðum. Svo loksins þegar ég fór að finna jafnvægið var erfitt að hætta. Eina sem stoppaði mann af var þreyta í ökklunum, sem gerði vart við sig af óvana og stífari skautum en ég var vön hér í eina tíð. Eflaust eru þessir betri fyrir skrokkinn. Skemmtinefnd INNN, þar sem ég vinn(n) á heiður skilinn fyrir framtakið. Hér eru tveir fulltrúar úr þeirri nefnd, Arnar og Hrefna, mikið indælis fólk. Svo skreppum við á árshátíð í kvöld, á Borginni, sæl og glöð eftir skautana, og kannski á Óliver á eftir. Hver veit?

Hrefna rokkaðiArnar var flottur


Og víkur þá sögunni aftur að stjórnmálum ...

Eftir páskafrí er tími til kominn að setja sig í gírinn fyrir lokaslaginn í kosningabaráttunni. Óli er eini heimilismeðlimurinn sem er á fullu með þetta vorið, í hinum og þessum pólitískum stjórnum og hagsmunafélögum og vel virkur í því öllu. Mér finnst önnur kynslóðin frá okkur vera að lofa ansi góðu, Hanna búin að vera vel virk hér heima á nesinu og í skátunum og Stebbi frændi nýkominn í baráttuna, eftir frækilega frammistöðu í Hafnarfjarðarkosningunum, sem ég held að þegar fram líða stundir verði mun meira stefnumarkandi en fólk gerði sér grein fyrir í fyrstu, bæði varðandi aðferðarfræði í beinu lýðræði og ekki síður vegna þess hvers eðlis baráttan var. Það er vel orðið tímabært að fara að skoða betur hvernig ákvarðanir í stefnumarkandi málum eru teknar.

Það er óneitanlega hressandi að koma heim og sjá að VG er enn á þessu fína flugi, þrátt fyrir hrakspár og ákveðna óskhyggju á þá leið að Íslandshreyfingin steli bara fylgi af okkur VG-ingum. Vera má að einhverju sé stolið en jafnframt hélt ég að hreyfingin myndi ná smá fótfestu fyrir þá sem mega ekki heyra vinstri en eru grænir, já þeir eru til ;-) - mig langar reyndar mikið að vita hvenær það var sem Salome Þorkelsdóttir las næstum alla bókina (ef ekki alla) Raddir vorsins þagna, í efri deild á alþingi í málþófi sem Sjálfstæðismenn héldu þá uppi. Skyldu þeir hafa verið að vinna gegn stofun umhverfisráðuneytis - sem var upphaflega frumkvæði Kvennalistans þegar umhverfismál voru í 7-8 ráðuneytum (þetta var enn einn kaflinn í ,,þetta sagði ég þér"). Alla vega, minnir að það hafi verið hin fínasta bók, svo ég vona að Salome hafi verið í einhverju verðugra verkefni þegar hún stóð í þessu málþófi, sem hún sagði mér sjálf frá, pínulítið feimin en aðallega stolt.

Íslandshreyfingin mun úr þessu ekki ná flugi, það er ljóst. Ég hélt að það væri kannski ákveðinn fælingarmáttur Jakobs Frímanns, sem virðist vera staðreynd hvar í flokki sem hann er. Mér er hins vegar sagt að ástæðan sé mun margslungnari og jafnvel Ómar, sem hefur margt mjög vel gert á undanförnum árum, hafi ekki komið nógu vel út í umræðunni. Margrét, sem ég enn og aftur ítreka að hefði gert Frjálslynda flokknum mikið gagn, hefði hún verið sett á þar, hefur greinilega heldur ekki náð eyrum þjóðarinnar, enda kannski ekki í réttum málaflokkum. Þannig að vilji grænir ná virkilegum slagkrafti eiga þeir aðeins einn valkost, velja vinstri og vera grænir!


Söngvakeppnir rokka

Búin að vera að fylgjast með þessum tveimur aðalsöngkeppnum landsins samtímis, norrænum Eurovision undirbúningsþætti (hvað var þessi að hugsa sem gaf Eiríki ,,bara" 4 stig?) og svo Jógvan X-factor sigurvegara, þar sem ég á eiginmann með meirapróf á fjarstýringar. Mjög gaman, mikið rosalega erum við og Færeyingar heppin að eiga svona flotta rokkara, Magni innifalinn. Eiríkur lofar endurkomu rauða hársins og Jógvan er svo mikill rokkari, þrátt fyrir krúttlegt útlit, að hann er vel að sigrinum kominn. Reyndar fékk ég þetta fína sms til New Mexico: Jógvan vann! Því miður sagði þetta systrum mínum lítið og Annie ekki neitt. Hins vegar var Nína ábyggilega orðin fræg í háskólanum sínum þegar hún var að kjósa Magna í sumar - mig grunar að háskólakennarar geri ekki mikið af slíku í Bandaríkjunum, en hún var ekki að hika við það ;-)

Frumbyggjar

Þegar ég var lítil þá vildi ég alltaf vera indjáninn í kúreka og indjánaleikjunum, enda með fléttu(r) og dökk yfirlitum. En ekki bara það, það var bara svo töff eitthvað. Svo er maður búinn að sjá flutt af meðvituðum Hollywood og ekki Hollywoodmyndum þar sem taumur indjána er dreginn, ólíkt því sem gerðist í Roy Roggers (við töluðum aldrei um Rogers) myndunum, þar sem aðallega voru kúrekar, góðu með hvíta hatta og vondu með svarta. En alla vega, þá hefur verið vaxandi skilningur á málum frumbyggja um allan heim, og það er flott.

Þegar ég fór til Ástralíu fyrir 13 árum þá voru frumbyggjarnir nýbúnir að harma landnám hvítingjanna þar í álfu og báðu um að fá að endurheimta menningu sína sæmilega óáreittir. Menningu sem er mjög spennandi, rétt eins og indjánamenningin sem ég er að byrja að fá smá smjörþef af. Nína systir er nefnilega æði vel tengd við indjánasvæðin í Ameríku, auk þess ein fárra hvítra sem hefur kennt kúrsa í indjánabókmenntum. Þegar hún bjó í Wyoming var hún í mikilli nánd við indjánamenningu, fór með mér á svæði þeirra í Arizona meðan hún bjó það, og þegar við vorum í Úlfaldaklettur á leið í fjöllin við Santa FeSanta Fe um daginn þá hittum við vini hennar, bæði af indjánaættum og sem vinna með indjánum. Bæði í tengslum við menningu þeirra og einnig þau vandamál sem komið hafa upp við misvelheppnaðar tilraunir við að deila landinu með innflytjendum víða að úr heiminum. Reyndar þarf ég endilega að finna við tækifæri mynd sem ég prentaði út einu sinni af tveimur indjánum sem sitja upp á hæð og horfa yfir Manhattan. Annar segir við hinn: Ekkert af þessu hefði gerst ef við hefðum haft strangari innflytjendalöggjöf!

Við hittum nokkra núna í túrnum, keyptum list og listmuni af þeim, en þar er hvað öðru fallegra. Ég er hugfangin af því sem ég sá og heyrði. Keypti mér diska með indjánatónlist, mjög heillandi tónlist, en áður féll ég kylliflöt fyrir tónlist Ástralíufrumbyggja. Reyndar rifjast það upp fyrir mér þegar Nína systir hafði vit á að toga mig með sér á frumbyggjatónleika í Salnum í Kópavogi fyrir tveimur árum eða svo. Debbie, sjálfmenntuð listakona sem málar og sker í dúk sýndi okkur brot úr sögunni á veitingahúsi þar sem fullt af vinum Nínu og vinkvenna hennar borðuðu með okkur og svo heimsóttum við hana og vinkonu hennar og skoðuðum myndirnar hennar. Elísabetu langaði mest í stórt málverk, en við létum okkur nægja smærri og flytjanlegri myndir á fáránlega góðu verði. En allt er ódýrara í Ameríku. Mér er þó eiginlega minnisstæðastur hljóðlátur maður í verslun í Santa Fe, sem ég heimsótti í tvígang.  Keypti af honum þrjú lítil veggteppi og fékk hann til að velja fyrir mig perlusaumaða buddu til að setja um hálsinn. Systur mínar segja að ég hafi neytt hann til þess, en hann gerði það ábyggilega með gleði og yfirvegun, því á henni er björn fyrir okkur Björnssonana. Vissi ekkert í hvað ég átti að nota hana í, en auðvitað smellpassar linsuhulstrið í þetta. Og það kemur sér vel núna þegar ég er búin að vera með aðra linsuna í fríi. Tók mynd af indjánamarkaðnum í Santa Fe, úr fjarlægð og án áreitis, því maður má ekki taka myndir af indjánum, nema í hæsta lagi eins og þessa. Yfirlit yfir indjánamarkaðinn í Santa FeAllt sem selt er á indjánamarkaðinum í Santa Fe er unnið af indjánunum sjálfum eða fjölskyldumeðlimum og þarna fékk maður tækifæri til að spjalla við yndislega listamenn, fallegt og lífsreynt fólk, sem hafði gaman af að útskýra verk sín. Annie frænka keypti rosalega flottan hring sem er hægt að snúa eftir árstíðum, og Elísabet fékk sér eftir nokkra umhugsun hliðstæðan. Ekki smá flott, en ég fékk mér heilsuskartgrip (sem er auðvitað glæsilegur líka) með onyx og sólargeislum, ekki hægt að útskýra. En alla vega, það er gaman að vera þarna. Mig langar aftur til Santa Fe. Salvör var að kommentera um spilavítin, já þau eru þarna og urmull af þeim. Ég hef ekki komið inní þau og séð smókingklædda indjána, og ég viðurkenni að ég yrði eflaust frekar sorgmædd við þá sjón. Hins vegar var bara gaman að sjá þá með kúrekahattana sína, það var ekkert nema flott. Það er mjög umdeilt hvernig áhrif spilavítanna eru á samfélag indjánanna. Sumir fagna því fé sem kemur inn og segja það fara til samfélagsins, aðrir vilja meina að þetta sé bara neikvætt og jafnvel að peningarnir skili sér ekki. Jæja, eitt enn, hér er hún Debbie, hún er af Navahó ættum, og fín myndlistarkona.

Listakonan Debbie skýrir verk sín

 

 

 

 


Brot úr ferðasögu

Útsofin og uppfull af skemmtilegum minningum úr páskaferðinni til Nínu systur í New Mexico, þar sem hún og Annie frænka tóku yndislega á móti okkur Elísabetu. Fyrst smá skýring á geltandi (eða var það hneggjandi, undarlegt hljóð alla vega) flugþjóninum. Hann tók á móti okkur í flugi 1111 frá Albuquerque til Chicago og okkur leist ekki svo vel á hann þegar hann kynnti flugfreyjuna sem stóð við hliðina á honum sem fyrrverandi eiginkonu sína. Hálf hallærislegt, alla vega við fyrstu kynni. En þegar hún sagði að hann væri fyrrverandi m.a. af því hann færi ekki einu sinni rétt með nafnið hennar, þá fór okkur að gruna að þetta væri allt eitt stólpagrín. Næst var tekið á loft, sæmilega bratt enda fullt af fjöllum fyrir, og þá sagði sá káti: "Here comes the peanuts." Við áttum von á röltandi flugliðum með hnetupoka, en ónei, niður brekkuna milli sætanna runnu ótal hnetupokar. Brekkan var brött því flugvélin var í þessu bratta flugtaki, og hneturnar hurfu fljótt í hendurnar á áköfum farþegum. Restinni var útdeilt með hefðbundnari aðferðum. Svo hélt sprellið áfram og í lok ferðarinnar, þegar lent var frekar harkalega, þá heyrðist í flugþjóninum, whoops! og svo hneggjaði hann svolítið og gelti smávegis og ég verð að játa það að það var bara ekki annað hægt en að hlæja með honum, enda lá allt liðið í vélinni í hlátri. Mér er sagt að svona fíflalæti séu góð fyrir flughrædda.

Á flugvellinum (Midway) í Chicago eru þessir frábæru ruggustólar, að vísu umsetnir, en ég lauma þessari hugmynd hér með að forsvarsfólki Leifsstöðvar.

Ruggustólar í flugstöð

Ruggustólar eru mikið þarfaþing. Enn hef ég ekki hrundið gömlu hugmyndinni minni um ruggustólastofu í framkvæmd, en hún er ekki dauð. Fyrir framan húsið hennar Nínu í Portales - sem er nánast það eina sem er fallegt þar í bæ (fyrir utan páskasnjóinn - nú er kominn 24 stiga hiti þar) - er ruggustóll líka og ennfremur róla. Þetta er svo notalegt, en vegna roks er varla hægt að hugsa þetta til enda hér heima. Hins vegar getur hvesst í Austur New Mexico, því í nágrannabænum Clovis voru nýlega margir hvirfilbyljir og við sáum ummerkin glögglega, hálf hús, rifin þök og tré og klesstir mjólkurtankar. Náði ekki mynd en þetta er eflaust uppflettanlegt á netinu. Hér er hins vegar stemmninginsmynd frá Nínu. Meira í kvöld eða um helgina, allt eftir stuði.

Húsið hennar Nínu


Ferðasagan í myndum - og ekki orð um geggjaða flugþjóninn

Of andlaus eftir svefnlítið næturflug til að skrifa mikið. Henti þess í stað inn allmörgum myndum úr ferð okkar Elísabetar til Nínu systur okkar og Anniear systurdóttur í New Mexico. Meira úr ferðinni seinna, reyni að gleyma ekki geltandi flugþjóninum og hnetunum, né ruggustólunum á Chicago flugvelli.

Gleðilega páska úr Ameríkufjörinu

Þá er ferðin til Santa Fe loksins að hefjast, hér er enn morgunn, og við höfum það ofsalega gott hér í snjónum í Portales, en nú eru vegir orðnir auðir og hægt að fara til Santa Fe enn ofar í fjöllin. Gleðilega páska öll heima, og góðar kveðjur frá öllum hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband