Bloggfærslur mánaðarins, maí 2024

Ég hlakka svo til ...

Mér finnst tilveran yfirleitt mjög skemmtileg, oft það sem ég er að gera þá stundina, gleymi mér í skemmtilegum minningum og það sem ég er veikust fyrir, að hlakka til. Vera má að til sé einhver fín greining á persónuleikaröskun tilhlökkunarfíkla, en ekki þekki ég heiti yfir svoleiðis lagað. 

Núna er ég á einum slíkum tímamótum, á leið út í eftirlaunalífið í þriðja sinn á ævinni, alla vega í sumar, og ég hlakka svo til. Það æxlaðist reyndar þannig að seinast þegar ég fór á eftirlaun varði það bara í 6-7 vikur og inn í þann tíma komu jólin. Svo var ég óvænt komin aftur út á vinnumarkaðinn, nema þegar ég var upptekin við annað, aðallega ferðalög. Það var skemmtileg U-beygja, nógu skemmtileg til að ég gæti freistast aftur í einhverja launavinnu í haust, en núna er ekkert framundan nema eftirlaunalífið. Nenni ekki að blanda mér í umræðuna ,,ég hef aldrei haft eins mikið að gera og eftir að ég fór á eftirlaun" með fullri virðingu og algerri þátttöku í slíku. Var vissulega á eftirlaunum á aldrinum 65-69 ára en ég neyddist þá upprunalega til að segja föstu vinnunni minni lausri vegna annríkis. En núna sé ég tímana framundan sem tilhlökkunarefni vegna smáatriða sem skipta mig býsna miklu máli. 

Ég hlakka svo til að geta fengið mér gott kaffi latté á hvaða tíma sólarhrings sem er, án þess að þurfa að kenna því um ef ég skyldi sofa ,,of lengi" frameftir. Heima eða á kaffihúsum, hvort tveggja gott. Hef reyndar ekki orðið andvaka vegna kaffidrykkju nema þegar ég var í módelteikningu í Myndlistarskólanum í Reykjavík og fékk mér kaffi í öllum hléum frá kl. 19:30 til 22:30. Módelið þurfti 10 mínútna pásu eftir hverja 20 mínútna stöðu og við hin kaffi. Móðuramma mín drakk alltaf kaffi á kvöldin til að sofna betur og það var ekki koffínlaust. Hún var afskaplega virk (og skemmtileg) kona og hefði kannski verið sett á rítalín ef hún hefði fæðst 100 árum seinna.

Ég hlakka líka til að snúa sólarhringnum í ótal hringi ... allt eftir því hvað ég verð að gera hverju sinni. Geta haldið áfram með mynd sem ég er að vinna að fram eftir nóttu þegar ég vil, flakkað um heiminn án þess að finna nokkurn tíma fyrir þotuþreytu út af tímamismuni, það er ánægjulegur fylgifiskur óreglulegra svefnvenja. Sofið eins og ég vil án þess að þurfa að stilla vekjaraklukku, nema ég sé búin að ákveða að gera eitthvað tímaháð daginn eftir, en slíku held ég í algeru lágmarki.

Ég hlakka líka til að sjá hvaða óvæntu vendingar lífið mun hafa í för með sér, ef það á annað borð heldur áfram að koma mér á óvart. 

Ég hlakka líka til að finna út hver mín viðbrögð verða næst þegar hnippt verður aftur í mig og ég plötuð til að taka að mér eitthvert verkefni. Verð ég tilbúin í ,,eina lotu enn" eða er þetta bara orðið gott, fimm dagar í 72 ára afmælið? Hef alltaf verið gríðarlega heppin með vinnufélaga og fínustu fagnaðarfundir þegar ég hitti þá aftur eftir eitthvert hlé. Ófá skiptin sem ég hef kíkt við á gömlum vinnustöðum. Eins ófélagslynd og ég er að eðlisfari, þá getur blessað fólkið sem ég hef verið að vinna með bara ekkert að því gert að vera svona yndislegt eins og það hefur oftast verið.  

 

 


Bonaire, B-ið í ABC-eyjaklasanum - utan fellibyljasvæðis karabíska hafsins

Bonaire er yndisleg eyja. Ef þið hafið ekki heyrt um hana áður, þá eruð þið síður en svo ein á báti og alveg áreiðanlega ekki forfallnir kafarar. Mér skilst að eyjan sé heimsfræg í heimi þeirra, enda leitun að eins ósnortinni kórallaveröld og einmitt hér. Merkilegt nokk, þetta er í annað sinn sem við Ari minn leitum á slóðir sem eru vinsælar meðal kafara, þótt við séum engan veginn í þeim hópi. Hinn staðurinn var Hurghada í Egyptalandi, við Rauða hafið. Þessi orð setti ég á blað þegar ég var á þessari fallegu eyju í síðustu viku.

Bonaire er hérað í Hollandi, en í ,,innanlandsflugi” frá Amsterdam tekur 9-12 tíma að komast hingað. Nágrannaeyjarnar, Aruba og Curacao eru þekktari. Þær eru nú sjálfstæð ríki í ríkjasambandi við Holland, en Bonaire kaus að halda stöðu sinni sem hérað í Hollandi, enn sem komið er alla vega. Spánverjar komu hér fyrstir Evrópumanna um 1499 en hálfri annarri öld síðar höfðu Hollendingar lagt eyjarnar undir sig og sín viðskipti. Fyrir voru hér Caquetio indjánar og nafn Bonaire er ættað úr þeirra máli, merkir einmitt lágt land (eins konar Niðurlönd) en málið telst nú horfið. 

Er lítið fyrir að þylja upp almennan fróðleik, hvort sem hann er á allra færi eða ekki, en hér er meira um ABC-eyjarnar fyrir forvitna:

https://www.worldatlas.com/articles/what-are-the-abc-islands.html

Fallegu, misbleiku flamingóarnir

Mörg dýra- og önnur náttúruverndarsvæði eru á Bonaire, sum frá því fólk hafði almennt ekki uppgötvað náttúruvernd að gagni. Mig langaði alla vega til að sjá bleika flamingóa, og tvö svæði, annað í norðri og hitt í suðri, eru helguð þeim, nóg af plássi fyrir þá flottu fugla. Sá fyrsti sem við sáum (var bent á) var reyndar alls ekkert bleikur, en svo sáum við öll litbrigði bleika litarins þegar sunnar dró og daginn eftir í norðri.

2024-05-28_18-55-21

Dýralíf er fjölskrúðugt, pelíkanarnir eru rosalegir húmoristar, hvort sem þeir eru meðvitaðir um það eða ekki, eðlur flottar, bæði gekkóárnir litli og stóri hér á sundlaugarsvæðinu við húsið okkar og allir hinir, sem lögðu á flótta á Klein Bonaire þegar igúana-eðlan mætti milli lappanna á okkur í öllu sínu veldi. Annars eru geiturnar út um allt flinkar að klifra í trjám, enda gerist geitaosturinn ekki betri, af fjórum kvöldverðum á veitingahúsum hér (sem eru hvert öðru frábærara) fékk ég mér geitaostsrétti á þremur. Skipulagðar ferðir á geita(osta)-sveitabæi eru meðal þess sem hægt er að taka þátt í þótt við höfum ekki valið það. Asnarnir eru á takmarkaðri svæðum, en nóg af þeim líka.

Hve mörg þrep eru í 1000 þrepa stiganum?

Ef þið haldið að þið þekkið ýkjumeistarann, hugsið ykkur vel um. Vinsæll köfunarstaður á Bonaire heitir 1000 þrepa stiginn, stigi sem liggur niður að köfunarstaðnum eftir snarbröttum kalksteinsklettum. Hann er 67 þrep.

Vegir liggja alls ekki til allra átta

Bonaire er alls ekki stór eyja (288 km2), en vegakerfið engu að síður mjög takmarkað, sagt er að það taki um fjóra klukkutíma að fara áttuna sem vegirnir gróflega mynda. Ástand vega hátt í að vera samkeppnisfært við sum svæði á Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu. Það tekur því ekki að vera með neinar almenningssamgöngur og fólki er eindregið ráðið frá því að vera á skellinöðrum eða golfbílum (sem ég veit núna að eru vinsælir hér í karabíska hafinu). Til þess eru vegir bæði of þröngir og holóttir og mikil hætta á að skellinöðrur renni til í asnaskítnum á vegunum. 

Í miðbænum er eflaust fínt að vera bíllaus og fara í skipulagðar ferðir ef fólk langar út fyrir bæjarmörkin, en annars eru bílaleigubílar vinsælastir. Bílakosturinn á eyjunni er einfaldlega góður og umferð alls ekki svo mikil. Suðurhluti eyjarinnar er all-villtur nema saltvinnslusvæðin (og þó, þau líka) en norðrið er grónara og settlegra, nema kannski barinn okkar í Rincon, næststærsta bænum á eyjunni, næstum 1500 manna. Þar er ekki eins mikill höfuðborgarbragur og í Kralendijk, 3000 manna borginni, en þaðan er myndin.

unnamed (4)

Salt

Auðlind Bonaire er salt. Hér hefur saltvinnsla verið mikil í nokkrar aldir og sú saga á sér sínar dökku hliðar, þar sem þrælar bjuggu í hræðilegum kytrum og erfiðu við saltvinnslu. Nú er sú saga (vonandi) liðin og alla vega eru hollensk gildi í fyrirrúmi á þessari fallegu eyju, sem er kostur mannréttindalega séð, skyldum við ætla, þrátt fyrir nýja ríkisstjórni í Hollandi. 

Það er ævintýralegt að fara framhjá saltvinnslunni sem nú er suðvestan til á eyjunni, með knallbleikt lón á aðra hönd og fagurlega blágrænt hafið á hina höndina.

2024-05-28_18-57-11

Lang-næstbesta vatn í heimi

Kranavatnið er dásamlegt á Bonaire. Þegar við vorum á leiðinni í siglingu áttum við, ég og stelpan í afgreiðslunni, huggulegt samtal um hvort væri betra, náttúrulega vatnið á Íslandi eða hreinsaði og filteraði sjórinn sem rennur úr krönum bonaire-inga. Ég held því hiklaust fram að hið síðarnefnda sé lang-næstbesta vatn í heimi (á eftir okkar, auðvitað). 

Veðrið

Bonaire er nálægt miðbaug og hitastig stöðugt 27-32 gráður árið um kring, ekki mikill munur dags og nætur en í heitri hitabeltissólinni er hitinn þó æði mikill. Blessað rokið sem er eitt aðalsmerki Bonaire, bætir þar verulega úr skák og loftkæling er mikið notuð og hnökralaus, bæði viftur og vindblásandi kassarnir sem ferðalangar þekkja. Öldurnar sem rokið reddar freista vatnaíþróttafólks verulega og skiljanlega og umferðarþröng við Sebastian veitingasvæðið á suðausturströndinni skemmileg á að horfa. Enginn rotaðist meðan við vorum þar. Þar er líka besta kaffið sem ég fékk í ferðinni (latte machiato). Það sem þykir þó merkilegast hér um slóðir eru ótal frábærir köfunarstaðir og fegurðin neðansjávar er víst enn meiri en sú sem er ofan hans.

Loks er hér svolítið um ABC-eyjarnar og muninn á þeim í boði Lonley Planet. Sessunautur okkar í fluginu til baka til Amsterdam bætti því við að Bonaire væri lang notalegust og íbúarnir einstaklega gestrisnir, það get ég staðfest. Enda motto eyjaskeggja sagt (á ensku, sem allir tala): Once a visitor, always a friend. Aruba aftur á móti lang-ameríkaníseruðust. 

https://www.lonelyplanet.com/articles/what-abc-island-should-i-visit

 

 


Maður og kona

Ætlaði ekki að blanda mér í heitasta málefnið þessa stundina, fyrir utan forsetakosningarnar kannski. Það er fyrirbærið: Maður og kona. Hef verið mjög sátt við að geta talist til þessara tveggja tegunda af nokkrum sem til eru af þeirri sort sem ráðskast með þennan heim. Á langri starfsævi hef ég aðallega notað fjögur starfsheiti: Blaðamaður, þingkona, sagnfræðingur og tölvunarfræðingur. 

Hef líka verið virk í kvennabaráttu sem meðal annars benti á að ,,konur væru líka menn" og framhaldinu sem lagði meiri áherslu á ,,kvennamenningu" þegar það þótti bara ágætt að vera kölluð kona.

Mér finnst yfirleitt best ef fólki er einfaldlega treyst til að nota tungumálið (fallega) og það hefur alls ekki truflað mig að taka mér í munn að ,,konu finnist nú betra að gera þetta eða hitt" ef ég á við sjálfa mig, stundum segi ég eins og í söngnum: ,,Maður getur nú ..." en aðallega er ég hætt við að vera hrædd við að segja: Mér finnst og ég get. 

Mig langar hins vegar að benda á eitt dæmi, slag sem ég stóð í um og uppúr 1990 og aðrar á undan mér, og það var að fá þessu orðalagi í almennum hengingarlögum breytt, þannig að í stað þess að 194. greinin hefjist eins og hún gerir nú, yrði orðalagið: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við MANNESKJU með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun ... ". 

2024-05-07_15-03-31

Ef þið haldið að annars staðar í lögunum sé fjallað um þennan sama glæp gegn konum, sem eru langstærsti hópur fórnarlamba nauðgana, þá er það misskilningur. Þetta eru orðalagið sem enn er notað um það ef konu er nauðgað (skv. uppflettingu í lagasafni, ég var að vona að þetta hefði breyst, þætti verulega gott ef þessi uppfletting væri skökk), rétt eins og ef karlmanni er nauðgað eða þeim sem skilgreina sig á annan hátt.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband