Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023
Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!
16.11.2023 | 23:33
Sagði vatnslitahópnum mínum í dag að ég væri búin að segja upp og væri að fara á eftirlaun (í annað sinn á ævinni reyndar). Datt þá ekki uppúr einum prímus mótor í hópnum: ,,Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!"
Mér þótti frekar vænt um þessa athugasemd, því þessi hópur hefur fylgst nokkuð glöggt með því hvað vatnslitaiðkunin hefur sífellt tekið meiri tíma og orku hjá mér, og á stundum líka skilað árangri. Myndin sem fylgir þessari færslu er frá því í dag og ég er sátt við ákvörðunina.
Þurfti samt á því að halda að taka smá rispu í viðbót til að næra tölvunördinn í mér, og þessi tvö ár sem ég verð búin að vera hjá Controlant þegar ég endanlega hætti, hafa mætt þeirri þörf. Þess ber að geta að sá sem fagnaði því að ég færi að gera eitthvað af viti er sérlega jákvæður í garð fyrirtækisins sem ég er (enn) hjá og á þar góðan vin eða vini.
Mér þótti líka vænt um það þegar ein úr hópnum sýndi mér hvað hún er að hlusta á í Storytel, en það er fyrsta glæpasagan mín, Mannavillt. Það er talsvert farið að rukka mig um glæpasögu nr. 3, svo ég reyni bara mitt besta, hún var langt komin fyrir 2 árum, en ögn skemmra komin nú. Er samt vön að klára það sem ég byrja á.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook
Virðing
11.11.2023 | 16:28
Það er ekki hægt annað en fyllast óttablandinni virðingu þegar stærstur hluti þjóðarinnar stendur frammi fyrir því að náttúruöflin margslungnu minna á sig. Á vissan hátt eru það forréttindi að búa í landi þar sem magnaðir kraftar ríkja, þótt vissulega sé það líka skelfilegt á stundum.
Þá er ekki síður hægt annað en finna fyrir virðingu fyrir því ótrúlega æðrulausa fólki sem hefur búið í hrikalegu návígi við þessi ógnaröfl og hefur nú þokast út í óvissu sem enginn getur létt af því eins og sakir standa.
Í sumar þegar ég var á heimleið eftir góðan tíma með syni mínum og við vatnslitaiðkun, lífið áhyggjulaust, flugum við yfir Vestmannaeyjar í þann mund sem goslokahátíðin stóð yfir og síðan yfir margsundurbrotið Reykjanesið. Nokkrum dögum síðar fór að skjálfa og síðan að gjósa og nú skelfur aftur og gæti gosið.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook
Lestin brunar, hraðar, hraðar, húmið ljósrák sker
4.11.2023 | 22:41
Fátt elska ég meira en góða lestarferð. Kenni Jóni Helgasyni ekki beinlínis um angurværðina sem grípur mig stundum á langri ferð um lestarteina, en ljóðið hans, Lestin brunar, er lestur sem ég mæli með við hvern sem er og allar túlkanir eru leyfðar, líka sú sem Jón sjálfur gaf upp með réttu eða röngu. Síðasta lestarferðin mín var engin undantekning frá kunnuglegri lestarupplifun.
Norpaði á brautarstöð óþarflega lengi, það hefur gerst ótal sinnum áður, lestir hafa þá einstöku náðargáfu að eiga það til að geta seinkað býsna hressilega. Í þetta sinn hélt að ég væri snjöll að velja aðal rigningardaginn í Skotlands/Englandsferðinni minni til þess að sitja í lest í rúma fjóra tíma (reyndin varð meira en fimm tímar). Á löngum lestarferðum er það oftar en ekki birtan sem breytist gegnum ferðina, ljósrákir skera húmið bæði út um lestargluggann og einnig í augum þeirra sem horfa á lestina bruna framhjá sér.
Hver einasta lestarferð getur snúist upp í ævintýri, sum þeirra hef ég rakið hér í bloggi og víðar, ævintýri sem seint gleymast, aðrar eru eftirminnilegri vegna útsýnisins og þá þarf ekkert að heimta gott veður. Ætla að leyfa ykkur að njóta með mér nokkurra mynda úr lestarferð síðastliðinn sunnudag, þar sem leiðin lá frá Edinborg til Lundúna. Meðan aðrir horfðu á símann sinn eða sváfu, horfði ég hugfangin út um gluggann mestalla ferðina og tímdi ekki nema endrum og sinnum að munda símann til myndatöku. Eins og laxveiðimennirnir segja: Þið hefðuð átt að sjá þessa(r) sem sluppu. Hlustaði þó á tónlistina frá tónleikum kvöldsins á undan síðari hluta leiðarinnar og útilokaði þá sumt af því sem samferðafólkið vildi segja vinum sínum og vandamönnum, en alls ekki mér.
Mér var nær að kalla sýninguna mína: Þekkt og ,,óþekkt"
4.11.2023 | 00:44
Þegar ég vakna í fyrramálið, laugardagsmorgun 4.11. 2023, nálægt hádegi, bruna ég á bókasafnið í Garðabæ til að festa örfáar óþekkar myndir. Þessar snælduvitlausustu, sem láta sér ekki nægja kennaratyggjó til að tryggja að þær verði ekki of hornskakkar á sýningunni minni. Sýningaropnun er alltaf spennandi, munu jarðskjálftar næturinnar ná að fella myndir af veggjum í nótt? Síga einhverjar hengjur niður eftir girninu og niður á gólf? Mér er það reyndar enn í fersku minni þegar fyrsta (og versta) jarðskjálftahrinan í okkar 200 ára Reykjaneseldum sem eru nýhafnir, hófst. Þá var nefnilega nýbúið að setja upp, í Hönnunarsafninu á Garðatorgi, gullfallega keramiksýningu sem spannaði upphaf og þróun keramiklistar. En þessi snillingar þar létu það ekki slá sig út af laginu. Leirnum var haganlega komið fyrir á beði í fallegum kössum.
En ég var að kvarta undan óþekku myndunum mínum, samt er eitt af þremur þemum hennar einmitt ÓÞEKKT, það er að segja að vera óþekk(ur). Hin tvö eru hversdagslegri, eitthvað sem við þekkjum (sem sagt þekkt) og eitthvað sem við þekkjum ekki (sem sagt óþekkt). Óþekktin í heiti sýningarinnar er margs konar, ég er nefnilega gjörn á að brjóta ýmsar reglur og það teygir sig yfir í myndlistina, hvort sem um er að ræða meðferð vatnslita (sem annarra lita), myndbyggingu, pensilskrift, upphengingu eða eitthvað annað. Stefni reyndar að því að herða mig enn á því sviði. Svolítil mis-falin óþekkt er í sumum náttúrumyndunum mínum (get bent þeim sem kíkja á sýninguna á dæmi) en hinn helmingur myndanna, sem er helgaður konum, er samt aðal óþekktin. Eflaust hafa einhverjar þeirra verið einstaklega ,,þægar og góðar" en miklu fleiri sem ég veit að hafa og treysti til að hafa sýnt af sér frábæra óþekkt. Segi ekki meira en að ein þeirra er draugur og önnur útilegukona.
Kláraði að setja upp sýninguna í kvöld, mæti með níðsterkt límband til að leysa linkulegt kennaratyggjó af hólmi þar sem það á við, einhverjar veitingar í töskunni og ef ykkur langar að skreppa á sýningu á bókasafnið í Garðabæ milli kl. 13:30 og 15 þá býst ég við að taka vel á móti ykkur, svo lengi sem þið ekki sýnið neina óþekkt. Hún er frátekin fyrir sýninguna sjálfa.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook