Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021
Tækin okkar stór og smá
12.2.2021 | 00:03
Eitt af því fyrsta sem ég lærði í kúrsinum ,,Samskipti manns og tölvu" í tölvunarfræðinni var að vera ekkert að persónugera tölvuvædd heimilistæki. Að því sögðu þá vil ég bara taka það fram að við Ari eigum óvenju mikið af mjög viljasterkum og sjálfstæðum heimilistækjum. Uppþvottavélin okkar (sem ég hleypti inn á heimilið þegar við skiptum út bráðabirgðaeldhúsinnréttingunni eftir næstum 30 ár) ákvað snemma kvölds í kvöld að nú væri komið nóg af stuttum og orkusparandi uppþvotti og stillti sig á rúma fimm klukkutíma. Mér sýnist að hún hafi skilað þokkalegu verki.
Hef áður nefnt nokkra góða karaktera, lengi vel var Jónas ryksuguróbott einn af sínu tagi, svo kom Jóhann, sem átti að vera miklu flinkari (rata heim til dæmis) en er soddan kveif að hann þolir mun minna álag en Jónas. Jóhannes skúrari er vannýttur af praktískum ástæðum. Tvær frekar gamlar fartölvur lifa enn með eigin dyntum, önnur þeirra heitir örugglega Mac the Knife, hef ekki ákveðið hvor, kannski þessi sem er að verða níu vetra. Njósnakerfið okkar uppi í sumarbústað sér meðal annars um að segja okkur að það sé ásættanlega hlýtt þar á veturna, en óþarflega þurrt loft. Myndin hér að neðan er hins vegar af uppsetningu annarrar njósnavélar. Þær heita ekki neitt, þá væru þær ekki njósnavélar.
En þá er það játning dagsins, elsku besta Tchibo-kaffivélin, þessi sem ég stillti mig um að kaupa í næstum heilt ár, en keypti svo 7 klukkutímum áður en ég flutti frá Hamborg, hefur orðið covid að bráð. Þegar ég fann ekki réttu kaffihylkin á netinu (síðustu 3 birgjar mínir hafa allir hætt störfum) þá var ég vön að fara bara til Þýskalands og kaupa mér lager, allt upp í hálfar ferðatöskur. Hratt gengur á þetta góss núna í covid og ekki fyrirsjáanlegt að ég komist til Þýskalands í bráð að kaupa meira. Hef sætt mig við margt, til dæmis að skipta um tegund hylkja í miðri á, en nú er svo komið að öll ábyrg viðskiptasambönd sem ég hef byggt upp til að þóknast minni ágætu Tchibo (hún er reyndar rosalegur ,,besserwisser") eru brostin. Og hvað gerir kona þá? Malar kaffi og hellir uppá? Já, hef gert það, pressukönnur skila skástum árangri, en sú eina ásættanlega á heimilinu hangir meira með ónefndri uppþvottavél en mér. Og nú er komið að svikastundinni, á morgun á ég von á póstsendingu með lítilli Nespresso-vél, mjólkurflóara og kaffihylkjunum sem Gurrí mælir með. Fékk mér eintak í rauðum lit í stíl við drottninguna Tchibo og nú er spennandi að sjá hvernig heimilishaldið þróast. Ef mér sýnist stríð í uppsiglingu set ég bara skapgóðu þvottavélina á stuttu stillinguna og læt hana syngja: Bjössi á mjólkurbílnum, sem er svona nálægt því að vera stefið sem hún notar til að láta mig vita að hún er búin að þvo þvottastykkin okkar.
Svo fór allt að gerast svo hratt ...
11.2.2021 | 23:42
Þegar ég loks þorði að upplýsa að glæpasagan mín, Mannavillt, mundi koma út núna í ársbyrjun 2021, þá lofaði ég að láta vita af henni þegar nær drægi. Svo gerðist þetta: Þannig týndist tíminn, og nú er komið fram í febrúar, sex vikur síðan bókin kom út og bæði á undan og eftir þeim merkisviðburði hefur margt gerst í tilverunni. Meiri hlutinn tengist einmitt glæpasögunni minni. Mikil viðbrögð, viðtöl, heimsóknir, áritanir (á covid tímum eru þær heima eða prívat á kaffihúsum) og alls konar skilaboð sem mér finnst vænt um. Núna þegar ég ætlaði að blogga um eitthvað allt annað, rak ég augun í þetta fyrirheit og í stuttu máli: Þetta hefur gengið lygilega vel.