Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

Að eltast við lög ...

Engar lagaflækjur hér, bara fækjustigið sem eitt sinn fylgdi því að eltast við uppáhaldslögin. Tónlistarfíklar eins og ég hafa oft þurft að hafa fyrir því að finna réttu plöturnar, listamennina, lögin. Seinasti peningurinn farið í plötu í staðinn fyrir strætófar, vinylplötur lifað af ýmsa flutninga og óendanlegur tími farið í að ,,taka upp" á gamla skrapatólið, mónósegulbandið mitt. Það voru ekki allir tilbúnir að lána dýrmætar plötur út af heimilunum, og ef fjallið kemur ekki til Múhameðs kemur Múhameð til fjallsins með meðalstóra segulbandstækið sitt, á strætó náttúrulega. Og sumt fannst ekki fyrr en eftir furðulegar tilraunir, HMV og Virgin á Oxford Street höfðu á að skipa merkilega glöggum giskurum. Hvernig er til dæmis að finna barnapíulagið hennar Bjarkar (Short Term Affair, með Tony Ferrino, mæli með stúdíóútgáfunni) og vita ekkert nema smálegt úr textanum. Hvernig á manni að detta í hug að þetta lag leynist á plötu með enskum söngskemmtikrafti sem er ekki beint á vinsældarlistunum þegar hér er komið sögu?

lotte

En nú er allt sem orðið nýtt, ærnar, kýr og smalinn, og Lotte Lenya, sem syngur lög mannsins síns, Kurt Weil, við ljóð Berthold Brecht, best af öllum. Á unglingsárum gróf ég upp plötur með henni á ameríska bókasafninu (of all places), seinna eignaðist ég safnið á vinylplötum, einhvers staðar á ég slíkan spilara en þarf að redda mér magnara, eða ekki. Þetta er allt að finna á YouTube. Og í kvöld hef ég bara notið þess að grafa upp allt sem mig langar að heyra og meira til. Meira að segja Napoleon XIV er kominn mestallur á YouTube, svo nú er hægt að hlusta á Photogenic Schitzophrenic you. 

Vel að merkja, ég á eftir að finna ,,réttu" útgáfuna af ungverskri rapsódíu nr. 2 eftir Lizst, held það sé Stanley Black sem stjórnar.

 


Útúrdúrar og ferðirnar sem voru misvel farnar (auk hamlandi hagsýni)

Vinkona mín elskar París. Engu að síður endaði hún með því að búa í tíu ár í London, sem er aftur á móti uppáhaldsborgin mín til langs tíma. 

Frá ung-táningsárum var ég alltaf á leiðinni til London, að skoða Carnaby Street, Chelsea og Bítlana. Það var áður en ég snerist til Stones-trúar. Viskuna mína fékk ég mest úr gömlum Vikum þar sem blaðamennirnir vissu nákvæmlega hvað heillaði þrettán ára unglinga á þeim tímum, þessa sem mættu á Kinks og Herman‘s Hermits í Austurbæjarbíói.

Screen Shot 2015-07-14 at 17.58.13

En leiðin til London var ekki greiðfær á þessum tímum. Fermingarferðin mín lá til Skotlands og þar fékk ég öll flottu bítlafötin mín, sem ég hafði engan veginn efni á að kaupa mér þegar ég bjó fjórum árum síðar í London og annars staðar í Englandi um hálfs árs skeið. Sumarkaupið þegar ég var fimmtán ára átti að fara í Lundúnaferð, en af því ég var ung og blönk, en furðu hagsýn, þá fann ég út að ferð með Gullfossi til Edinborgar og Kaupmannahafnar, með sex daga stoppi þar, var miklu hagstæðari. Þar átti ég ótrúlega skemmtilegan tíma með Sirrý úr Keflavík, sem var dóttir eins úr áhöfninni. Við stunduðum La Carusel og dönsuðum fram á morgun við speisaða tónlist Summer of Love. Á daginn fórum við í Tívolí, enda bara 15 ára.

 

tivoli

Ég var alltaf á leiðinni til London. Sumarið sem ég var sextán var ég í fjóra mánuði í Osló og vann í Studentbyen. Það var vegna þess að Guðný vinkona mín bjó þar. Yndislegt sumar, ég næstum flutti inn á listasafn borgarinnar og kynnist Rondo, sem var mikill og góður skemmtistaður á merkilegum söguslóðum borgarinnar. Og þar dansaði ég við þyngra rokk fram á rauðan morgun, enda orðin sextán. En ég var auðvitað á leiðinni til London. 

Svo þegar ég var átján ára komst ég loks til London. Fyrstu kynnin af borginni voru meðan ég bjó og vann enn á ströndinni, í Bognor Regis, en fór með Matta vini mínum á Pink Floyd tónleika í Hyde Park. Alls var ég í hálft ár í Englandi í þetta skiptið og stundaði ýmis störf í London, aldrei átti ég erindi eða fjárráð fyrir Carnaby Street eða Chelsea en kynntist Kilburn og Bloomsbury þess í stað, Keypti mér kjól á Portobello Road daginn áður en ég fór heim, flottan, síðan, brúnan hippakjól sem ég notaði í mörg ár og hef ekki enn tímt að henda. 

pink

Það var ekki fyrr en á fertugsaldri að ég kom í fyrsta sinn til London án þess að vera skítblönk, en svosem ekkert rík heldur. Fór þá í fyrsta sinn í Harrods, en hafði löngu, löngu áður meðal annars haft þann starfa að velta fokdýrum marsípanávöxtum upp úr duftlit og sykri og stinga laufblöðum í þá, áður en þeir voru seldir á uppsprengdu verði í Harrods. Enn hagsýn, fór út með halva-box úr matvörudeildinni, annað ekki.  Og vinkonan sem er enn á leið til Parísar var dugleg að skjóta yfir mig skjólshúsi. 

Þegar ég ákvað fyrir fimmtán árum að mennta mig ögn alþjóðlegar en í sagnfræði og datt í tölvunarfræðina, þá blundaði alltaf í mér að þetta væri alþjóðlega hagnýt menntun, og kannski myndi ég einhvern tíma taka að mér verkefni eða vinnu um einhverra mánaða skeið – í London auðvitað. Og vissulega hafa tækifærin verið þar, líka, bara ekki réttu tækifærin. Rétt fyrir jólin 2013 hafnaði ég starfi í Hammersmith í London. Ástæðan: Ekki nógu vel borgað miðað við hvað það kostaði að búa í London. Og um daginn varð ég að segja nei við 6 mánaða samningi í Vestur-London af sömu ástæðu. Það er svo skrambi dýrt að lifa í London, verð bara að viðurkenna það. 

En ég hef dansað fram á rauðan morgun með tölvunördum bæði í Kaupmannahöfn á ástralska barnum þar sem Friends lagið hljómaði svo oft og á Mandaley í Hamborg við teknótónlist. Svo alþjóðlega menntunin býður upp á ýmis ævintýri. En ég hef aldrei dansað fram á rauðan morgun í London. 

Og svo líður mér bara ljómandi vel í Hamborg, þar sem ég hef verið í hartnær sjö mánuði. Og kannski er bara kominn tími til að koma sér aftur heim, sérhver ferð heim togar mig meira í þá áttina. Get alltaf haldið áfram að skoða þau verkefni sem bjóðast í London, en mig grunar að ég verði komin á eftirlaun þegar ég fer aftur þangað til einhvers konar dvalar, enda er ekkert svo voðalega langt í þau. 

Og einmitt af því ég er orðin þetta gömul þá rifjast upp fyrir mér að kannski voru skandinavísku og þýsku áhrifin á unglingsárunum meiri en ég hélt. Ég átti fleiri leikaramyndir með hinni þýsku Conny Frobess en Birgittu Bardott (nokkra tugi af hvorri) sá allar Conny og Péturs myndirnar í Tónabíói, var áskrifandi af Bravo, þýska bítlablaðinu og Vi Unge, því danska. Hlustaði á Sven Ingvars meðan ég var nógu ung til að þora og gott ef ég man ekki enn Vi gratulerer, norsku útgáfuna af Cliff-laginu Congratulations. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband