Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
Jökulsárlón
25.7.2012 | 22:40
Einn af mínum uppáhaldsstöðum á Íslandi er Jökulsárlón. Það er einhver galdur við það og dramatísk örlagasaga liggur í loftinu, mun það verða áfram til eða ekki, á að reyna að viðhalda því? Í fyrra ætlaði ég að sýna systurdóttur minni, Anne, og fjölskyldu hennar lónið, en þá kom eldgos og ég þurfti að útskýra fyrir þessari hálfamerísku fjölskyldu að í fyrsta lagi væri ófært vegna öskublindu þangað austur (og ég nennti ekki að keyra norðurleiðina) og svo væri ísinn drulluskítugur. En eflaust hefur hann verið fallegur í þeim búningi eins og öðrum. Þess í stað sáu þau gosmökkinn og ætluðu varða að trúa sínum eigin augum þegar hann var að nálgast Reykjavík en við að koma ofan úr Borgarfirði.
Í sumar komst ég að lóninu, enn eina ferðina, og nú bar svo við að þrátt fyrir 15-20 stiga hita allt um kring voru aðeins 5 gráður við lónið, en blankalogn og alls ekki kalt. Á leiðinni yfir brúna sáum við ferðafélagarnir að rauk upp úr jörðinni, þannig að væntanlega hefur verið mun hlýrra fyrr um daginn og var þó varla komið nema rétt yfir hádegið. Ég hef séð lónið í logni og blíðu, sól og skýjuðu, siglt um það í þoku, sem var magnað, og í ágætu veðri. Aðrir fjölskyldumeðlimir þekkja lónið enn betur án þess að ég fari nánar út í þá sálma. Þótt krökkt sé af túristum við lónið seinni árin, þá þarf ekki að ganga langt til að vera ótrúlega einn í þessu undarlega umhverfi. Við erum ljónheppin, Íslendingar, að eiga þessa merkilegu náttúruperlu.
Viðbót kl. 23:24: Fann ágæta frétt af öskusvörtum jökum til samanburðar:
Smá misskilningur
23.7.2012 | 17:04
Seint í apríl hélt stúdentsárgangurinn 1972 frá Menntaskólanum í Reykjavík upp á 40 ára stúdentsafmælið sitt í Súlnasal Hótels Sögu. Þetta er stærsti árgangur sem útskrifast hefur úr framhaldsskóla á Íslandi fram til þessa, rétt liðlega 300 manns. Enn er fólk að rekast á skólafélaga sína á útskriftarafmælum og spyrja: ,,Varst þú með mér í skóla? Eða eins og einn virtur sveitarstjórnarmaður sagði (með þunga) við morgunverðarborðið í Valhöll eftir 30 ára stúdentsafmælið: ,,Þessi maður var aldrei með mér í skóla! Ójú, ég er búin að fletta því upp, hann var víst með okkur í skóla.
Það er alltaf ótrúlega skemmtilegt að hitta skólafélagana á fimm ára fresti, eins og fólk eins og ég gerir, þar sem ég er hvorki í saumaklúbb eða úr B-bekknum, en það fólk hittist oftar. Auðvitað fá alltaf einhverjir smá sjokk yfir öllu gamla fólkinu sem var með okkur í skóla, en að sama skapi er hægt að undrast og gleðjast yfir þeim sem hafa ,,bara ekkert breyst. En þetta er með skemmtilegustu skemmtunum, enda frábært fólk á skemmtilegum tímum í skólanum.
Held þó að ég hafi í fyrsta sinn núna á 40 ára stúdentsafmælinu áttað mig á því hvernig aðrir upplifa okkur og allt er það bara fyrst og fremst fyndið, en alveg stórskrýtið í leiðinni. Diskótekarinn, eflaust hin ljúfasta sál og vel meinandi, var illa haldinn af einhverjum misskilningi sem ekki réðst bót á allt kvöldið. Hann orðaði það best sjálfur þegar hann sagði: ,,Alltaf þegar ég spila Stones þá fyllist gólfið ... og svo hélt hann áfram að spila einhverja mjög undarlega tónlist sem ýmist var frá vögguárum okkar, lögin sem við þoldum ekki þegar bítla- (og aðallega Stones) æðið skall á og voru ábyggilega fimm til tíu árum of gömul fyrir okkur og það versta var að hann ákvað að dæla yfir okkur Lónlí Blús Boys tónlist, sem fæst okkar fíla og mörg okkar hreinlega hata. Verst var þó þegar Hljómalagið sem út kom 2003: ,,Mývatnssveitin er æði, brast á í tíma og ótíma. Mín niðurstaða er að diskótekarinn hafi hugsað: Ef lagið hljómar gamalt eða hallærislegt, þá hljóta þau að fíla það! Nú efast ég ekki um að einhver skólasystkina minna hafa til að bera meira umburðarlyndi í tónlistarmálum en ég, ég hef meira að segja mildast á seinna árum og er hætt að nota línuna: ,,Uppáhaldssöngvari minn er Andy Williams! ef ég vil koma af stað hörðum orðaskiptum í partíum, enda er ég viss um að það myndi ekki lengur duga, svo þolinmóð eru sum okkar orðin. Til að eyða öllum misskilningi, þá þoli ég þennan Andy ekkert sérlega vel.
En sem sagt, ef svona verður einhvern tíma endurtekið, til dæmis þegar við verðum 50 ára stúdentar árið 2022 og flest á aldrinum 69-74 ára, þá er öruggasti flytjendalistinn: Stones, Kinks, Stones, Bítlarnir, Stones, Creedence Clearwater, Stones, Led Zeppelin, Stones, Deep Purple, Stones, Náttúra, Stones, Kinks, Stones, Stones ...
Diskótekarinn getur notað Find/Replace og hent lagalistanum (þekki ekki alla flytjendurna) sem var svona sirka svona: Are you lonesome tonight, Við erum tvær úr Tungunum, Mývatnssveitin er æði, Föðurbæn sjómannsins, In the Ghetto, Why do fools fall in love, Lilla Jóns, Mývatnssveitin er æði, Ég vild ég væri hænu-hana-grey, Mývatnssveitin er æði ...
Í vor lá leið mín, einu sinni sem oftar, til Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum. Í þetta skipti var búið að nefna það við mig að ef til vill lægi leiðin til bæjar sem heitir Truth or Consequences og heitir í höfuðið á sjónvarpsþáttum. Þessi skítblanki bær, sem áður hét Hot Springs, seldi sem sagt gamla nafnið og tók upp þetta nýja fyrir peninga. Fyrsta vísbendingin um ljótan andarunga.
Leiðin frá háskólabænum Portales til T or C, eins og bærinn er jafnan kallaður, lá um fallega fyrirmyndarbæinn Ruidoso, sem er víst stytting á Rio Ruidoso (merkir háværa á á spönsku). Hann er umvafinn fallegum fjallahring, í mikilli uppbyggingu, þeirri þriðju hröðustu í Nýju Mexíkó, og þar er flest fallegt og snyrtilegt. Það er alveg hægt að súpa hveljur yfir fegurðinni í umhverfinu. Listmunir og útivistarbúnaður eru áberandi í verslunum staðarins. Hótelin eru mörg og þægileg, enda er staðurinn hátt í fjöllum, í rúmlega 2000 metra hæð yfir sjó, og vinsæll áfangastaæður sumar jafnt sem vetur.
Á veturna er þar skíðaparadís og á sumrin vinsæll áfangastaður fyrir fólk sem er ekki alveg að ,,fíla fjörutíu stiga hitann niðri á hásléttunni sem Nýja Mexíkó liggur að miklu leyti á. Auðvitað féll ég í stafi yfir fegurð bæjarins og góðum aðbúnaði á hótelinu. En ég var ekki nógu dugleg að taka myndir þar, enda um tiltölulega stutt stopp að ræða svo ég gríp til alla vega einnar lánsmyndar.
Svo tók við all-langur akstur suður og vestur á bóginn til T or C. Hluti leiðarinnar liggur meðfram smásprænunni Rio Grande, sem kannski breytist í beljandi fljótið sem nafnið vísar til ef vel rignir.
Loks er komið í bæinn Truth or Consequences og ferðafélagar mínir geta ekki leynt blendnum tilfinningum sínum. Bærinn er rytjulegur og hálf berangurslegur, um bæinn ráfa aflóga hippar sem greinilega eru komnir yfir seinasta söludag. Nýjaldarlegar skranbúðir meðfram aðalgötunni í stað útlífs- og listmunaverslananna í Ruidoso. Hótelið er skrýtið en hlýtur að teljast umhverfisvænt, þar sem gamlar dósir og flöskur eru notaðar í veggi og þaktar leir. Alls staðar er boðið upp á heita potta, enda er bærinn þekktur fyrir heitar lindir með liþíum ívafi. Alla vega líður manni vel eftir að hafa farið í heitan pott fyrir utan hótelið. Bærinn er skrýtinn og skemmtilegur, um það síðarnefnda eru reynar skiptar skoðanir. Leyfi lesendum að dæma um það.
Í jaðri bæjarins er einkaklúbbur sem stingur verulega í stúf við hippalegt yfirbragð bæjarins. Hér er fólk með kúrekahatta og rosalega hvítt á hörund. Húsnæðið er stór skemma, þar inni er hávær tónlist og vafasamur tónlistarflutningur, mikið af misgóðu karókí og svo bresta menn í fugladansinn og jenka og alls konar einkennilega hegðun. Pool-borð og bar taka helsta plássið og klukkan níu að kvöldi standa menn upp og biðja bæn til heiðurs elgnum sem klúbburinn heitir í höfuðið á. Ef aðkomufólk heldur að þeir séu að grínast er fræðilegur möguleiki á að svo sé, en líklegra að þeim sé fúlasta alvara.
Íbúar beggja bæjanna eru innan við tíu þúsund, en í úthverfum Ruidoso býr annar eins fjöldi nú þegar. Innan við 5% fólk í Ruidoso lifir á tekjum neðan fátækramarka en næstum 20% íbúa í T or C. Yfir 80% íbúanna í T or C eru af spænskum uppruna en aðeins tæplega 20% í Ruidoso. Á báðum stöðum eru góðir golfvellir, eftir því sem ég kemst næst, margir í Ruidoso en nokkrir í grennd við T or C.
Á ég að breyta þessu í ferðablogg?
4.7.2012 | 10:47