Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
Næstskrýtnasti sautjándinn
17.6.2010 | 16:08
Sá skrýtnasti var auðvitað jarðskjálfta-sautjándinn. Náttúruöflin hafa minnt á sig svo um munar undanfarin ár og ég vona og óska að skilaboðin séu skýr, við erum bara partur af náttúrunni og ekki sá merkilegasti og ættum að virða hana.
Einmitt í dag þótti við hæfi að ESB samþykkti aðildarviðræður Íslands við ESB þrátt fyrir að drjúgur meirihluti þjóðarinnar sé andsnúinn aðild.
Í dag langar mig ekki að rölta niður í Kvenfélagsgarðinn hér á Álftanesi. Litlu að fagna ef þetta er seinasti sjálfstæði sautjándinn okkar. Það nöturlega er að ef til vill sýnir dómurinn frá í gær fram á að engin þörf er á því að svipta okkur sjálfstæðinu. Enn sem fyrr finnst mér að allt höfuðborgarsvæðið eigi að sameinast um öll stærri mál en hvert svæði haldi sjálfsstjórn og sérkennum sínum, jafnvel fái sjálfstjórn og geti hlúð að sérkennum sínum. ,,Synir Breiðholts" hafa látið á sér kræla, þegar ég bjó í Vesturbænum vorustofnuð þar ein fyrstu hverfasamtökin, Íbúasamtök Vesturbæjar, en reyndar man ég eftir Framfarafélagi Breiðholts líka.
AGS er farinn að sýna aukna hörku í viðskiptum við Ísland, ekkert elsku mamma hér, bjóðið upp heimili fólksins í hvelli eða hafið verra af!
Dómurinn í gær hefur þó vakið miklar vonir um úrlausn fyrir fjöldamörg heimili, fyrirtæki og sveitarfélög (Álftanes). Mér fannst það viturlega mælt sem ég heyrði í gær: Fyrst það er allt í lagi að láta fjölmörg heimili og fyrirtæki fara á hausinn, þá á ekkert að rjúka upp til handa og fóta og fara að grípa í taumana, loksins þegar (sumt) fólk eygir réttlæti. Og þetta sagði kona sem varaði sig sjálf á gjaldeyrislánunum og er að sligast undan verðtryggðu lánunum sínum.
Veðrið í dag er yndislegt, margir fagna, ég ætla að geyma mín fagnaðarlæti þar til síðar og treysti því að senn verði ástæða til enn dýpri og meiri gleði en einmitt í dag á þessum næstskrýtnasta sautjánda júní sem ég hef lifað. Stund þegar heimilin rísa upp undan klafanum, íbúar sveitarfélaga og landa ákveða sjálfir örlög sín og án þvingunar.
Sæl aftur Pollýanna!
15.6.2010 | 16:20
Best að gefa henni og Jóni Gnarr sjans.
Frá þessum kvenna-konum
12.6.2010 | 01:26
,,Þið þessar kvenna-konur!" var það eina sem viðmælenda mínum datt í hug að segja við mig fyrir einum 25 árum þegar ég var í heilagri reiði að kanna orðróm um að ekki ætti að gefa frí smá dagspart í tilefni af mikilli kvennasmiðju sem haldin var á tíu ára afmæli kvennafrídagsins.
Þetta orð, sem átti ábyggilega að vera skammaryrði, fannst mér alltaf svo indælt og hef reynt mitt besta til að koma því í umferð. Ýmislegt hefur breyst en kveikjan að þessum vangaveltum nú er annars vegar væntanleg heimsókn danskrar konu sem telur að íslenskar konur séu þær frábærustu í heimi og hafi náð ótrúlegum árangri og hins vegar alls konar hugsanir sem hafa verið að flögra að mér frá því ég sat ráðstefnu tengslanets kvenna á Bifröst um daginn, gríðarlega góða ráðstefnu. Ég er auðvitað að hugsa, erum við búnar að ná svona miklum árangri eða ekki? Þekkt er virkni kvenna fyrir rússnesku byltinguna og í henni og hvernig þeim var svo ýtt til hliðar, eftir bankahrunið átti að gera allt öðru vísi en áður og kalla konur til, er það að ganga eftir á þann hátt sem við vildum? Þegar ég hlusta á Sigríði Benediktsdóttur og Evy Joly efast ég auðvitað ekki, en samt, ekki sofna á verðinum.
Og margt er enn tabú. Mér fannst að mörgu leyti fróðlegt að heyra í Sóleyju Tómasdóttur velta fyrir sér hvort við séum enn á flótta undan óþægilegustu umræðunni í kvenfrelsismálum og mannréttindum, umræðunni um vændiskaup, súlustað, mansal, nauðganir og allt það sem enn virðist umdeilt þótt það ætti ekki að vera umdeilanlegt. Hvort það er sú umræða sem pirrar fólk og skýrir ef til vill minna fylgi VG í Reykjavík en margir væntu? Ég er reyndar ein þeirra sem tel bæði Sóleyju og Þorleif frábæra VG-félaga og harðneita að vera dregin í VG-dilka (nema hvað ég er mjög stolt yfir því að tilheyra ósmalanlegum köttum), en ég varð mjög hugsi þegar Sóley varpaði þessu fram. Hugs, hugs, eins og hún Gurrí vinkona mín segir. Það er bara hollt að fara í hlutverk þessara kvenna-kvenna.
Afmæli á ,,ösku"degi og ,,hinir" sem áttu afmæli 4. júní
5.6.2010 | 01:09
Það er alltaf jafn gaman að eiga afmæli en ég held samt að ytri umgerð þessa nýliðna afmælisdags míns hafi verið ein hin undarlegasta. Við á höfuðborgarsvæðinu höfum lítið þurft að finna fyrir öskufallinu til þessa, þótt ferðaáætlanir sumra okkar hafi raskast nokkuð, þá er það vegna ösku sem stödd hefur verið uppi í lofti en ekki verið að falla niður á bílana okkar. Hugurinn hefur vissulega leitað af og til austur í fallegu Fljótshlíðina mína, þar sem ég var í sveit í sex sumur, og vissulega væri það forvitnilegt að starfa við grasræktartilraunir á tilraunastöðinni á Sámsstöðum við þessar aðstæður eins og ég gerði þessi sumur, en aðeins forvitnilegt, ekki skemmtilegt og sannarlega önugt fyrir konu með linsur í augunum, eins og ég er með.
Í dag fengum við hænufetsskammt af því sem fólkið fyrir austan má búa við og það var stórundarlegt að upplifa öskudag í sumarbyrjun. Kannski verður þetta sumar svolítið undarlegt. Tékkaði auðvitað á vefmyndavélinni í Borgarnesi (á menntaskólanum) og sá að þangað fór askan líka, litlu síðar en sú sem kom til okkar.
Hvernig ætli okkur hér, sem fáum smáskammtana, væri innanbrjósts ef við ættum lífsafkomuna undir búskap og byggjum við margfaldan þennan skammt?
Um áramót, á afmælisdögum og öðrum tímamótum er alltaf gaman að velta fyrir sér lífinu og tilverunni og þó ég hafi það ekki að lífsstarfi eins og tveir af þeim sem deila með mér afmælisdegi, Gunnar Dal og Páll Skúlason heimspekingar. Við sem eigum afmæli á þessum degi, 4. júní, erum reyndar úr öllum áttum, auk heimspekinganna tveggja deili ég afmælisdegi með jafn ólíku fólki og geggjaranum Russel Brand, Angelinu Jolie og Gyðu Guðmundsdóttur sem var önnur af stofnendum McDonalds á Íslandi.