Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
90 ára fullveldishátíð Heimssýnar í Salnum kl. 17 á mánudaginn 1. desember - mikilvægt að allir sem láta sér annt um fullveldið sýni samstöðu!
29.11.2008 | 23:22
Eitt af því sem hefur verið mjög til umræðu í fjármálahamförunum sem yfir landið hafa gengið að undanförnu er vitund okkar Íslendinga sem þjóðar. Ánægjulegt að sjá hversu samtaka og staðráðin við Íslendingar erum í að halda haus, þótt fjármálabrjálæðingar hafi farið hamförum og stjórnvöld. bæði fjármálaleg og pólitísk, gufast meira en góðu hófi gegnir að mati okkar margra, alla vega þeirra sem norpa á Austurvelli í hvaða veðri sem er. Eitt hið mikilvægasta sem rætt hefur verið er fullveldið sem verður 90 ára á mánudaginn, 1. desember. Það ætti að minna okkur á að oft hefur verið hart í ári, að þegar fullveldinu var fyrst fagnað, 1. desember árið 1918 var álfan okkar góða, Evrópa, í sárum eftir fyrri heimsstyrjöldina og Ísland var undirlagt að skæðri drepsótt, spönsku veikinni. Samt varð einn mikilvægasti áfangi okkar á sjálfstæðisbrautinni að veruleika þennan dag.
Nú hefur mörgum þótt syrta í álinn og sjaldan hafa spurningarnar um fullveldi verið jafn áleitar og einmitt nú. Háskólinn heldur fund um hvort við séum fullvalda, en það hefur verið dregið í efa meðal annars þar sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur sett okkur miklar leikreglur. Ennfremur hefur það verið mál margra (einkum sem vilja að við göngum í Evrópusambandið) að þar sem við lútum reglum innri markaðarins gegnum EES séum við þegar búin að afsala okkur fullveldinu. Og sumir segja að það sé bara allt í lagi. Mér dettur stundum í hug þessi setning:
Svo skal böl bæta að benda á annað verra.
Sem betur fer erum við mörg sem teljum ástæðu til að fagna því að við séum fullvalda þjóð og höfum nú verið það samfellt í 90 ár. Og við viljum vera það áfram. Í aðild að Evrópusambandinu felist fullveldisafsal og það sættum við okkur ekki við. Mörg okkar höfum fundið okkur farveg í Heimssýn, félagi sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Heimssýn heldur fullveldishátíð í Salnum í Kópavogi í tilefni af 1. desember og hefst hátíðin klukkan 17 þann dag og stendur í hálfan annan tíma. Það er full ástæða til að fagna fullveldinu og halda í það og sú samstaða sem Íslendinga sýna nú þegar á bjátar segir mér að margir séu sama sinnis. Vildi bara láta ykkur vita, sem ég ekki hef þegar sagt af þessu. Þótti vænt um það í dag þegar ég hitti gamla vinkonu að hún hlakkaði til að fara á hátíðina, hef heyrt það sama úr svo mörgum áttum að undanförnu. Sem betur fer er fólki ekki sama um blessað fullveldið.
... og þeir sem ætla á fundinn á Arnarhóli sama dag geta líka komið, því hann er klukkan 15! Koma svo til okkar í Salinn í Kópavogi kl. 17, alveg stórfín blanda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.11.2008 kl. 23:08 | Slóð | Facebook
Góður fundur í kulda og trekki
29.11.2008 | 21:20
Skundum á Austurvöll (og treystum vor heit)
29.11.2008 | 14:28
Fékk fráhvarseinkenni þegar ég komst ekki á Austurvöll seinasta laugardag, tala nú ekki um þegar ég missti af þrumuræðu Katrínar frænku minnar, sem hefur vakið þennan mikla úlfaþyt. Hef reyndar bæði heyrt hana í fjölmiðlum og á netinu, blessunarlega. En nú skal skunda á Austurvöll og treysta heitin með öllu þessu fólki sem er að mótmæla á mjög mismunandi forsendum vissulega, en þó í góðri einingu. Þá er það bara lopapeysan, húfan og ullarsokkarnir. Myndirnar eru frá fyrri mótmælum.
Krónan í kút (ekki sett á flot heldur í björgunarhring) - og ítrekun á því að fleiri kosta sé völ
27.11.2008 | 19:24
Spaðadrottningin mín og tagllaus óvart-hestur
27.11.2008 | 18:41
Finn allt of fáar stundir í vikunni til þess að fara og mála uppi í Myndlistarskólanum í Kópavogi, en samt, þótt ég eigi kannski bara eina og hálfa stund lausa er það miklu skárra en ekki neitt. Verst að ákveðinn tími fer í penslaþvott. Margt má læra af því að vinna með öðrum og skólasystkini mín eru góður félagsskapur. Ég hef aldrei nokkurn tíma unnið með spaða, þótt ég hafi málað með olíu af og til í 23 ár, held ég að það séu orðin. En alla vega, í dag átti ég reyndar óvenju langan tíma aflögu og skrapp í skólann að vinna í nokkrar klukkustundir. Keypti mér einn spaða á leiðinni, enda listabúðir allt um kring. Og núna er ég búin að mála tvær myndir með spaða, ekkert sjálfgefið að þær séu útskrifaðar (til dæmis sé ég amk. eina vinnu sem ég mun leiðrétta í módelinu), en svona réðst ég á strigann í dag í óvenju góðu stuði, og ég ætla að leyfa mér að skíra módelmyndina fyrstu spaðadrottinguna mína. Svo gerði ég eins og venjulega, hreinsaði úr penslunum (spaðanum) á annan striga jafnóðum, stundum verða þær myndir betri, og ætlaði nú að sleppa því alveg að vera fígúratív, en ég sé ekki betur en þetta sé tagllaus hestur að prjóna. En ég svo sem veit það ekki, ég bara gerði myndina. Núna er ég alveg forfallin í því að mála frekar litlar myndir eftir gömlum, risastórum módelmyndum sem ég á í fórum mínum í stöflum, þótt ég hafi hent fullt af myndum um leið og ég fór í gegnum þær um daginn (yfirleitt olía á pappír). Þessi endurvinnsla er auðvitað mjög við hæfi í kreppunni og ég þarf eiginlega að sýna ykkur bloggvinum mínum undanfara spaðadrottingarinnar minnar, önnur er nýleg olía á striga, pínulítil, og hin er risastór olía á pappír. Og lýkur þá sögunni af spaðadrottningunni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook
Áfallastjórnun: Stjórnað með áföllum
26.11.2008 | 15:58
Það fer ekki á milli mála að þessi þjóð, sem er seinþreytt til vandræða, er á suðupunkti. Áföll eru að dynja á fjölskyldum og fyrirtækjum og samstaða fólks er mikil. Hins vantar talsvert upp á að fá að vita hvort og hvernig ríkisstjórnin ætlar að styðja og styrkja fjölskyldur og fyrirtæki. Það liggur á. Vissulega var öflun lána tímafrek og niðurstaðan umdeild. En engu að síður þá má ekki bíða eitt andatak lengur eftir að fá að vita hvernig á að glíma við vandann. Aðeins fátt eitt hefur verið nefnt og fátt fast í hendi. Bind helst vonir við Jóhönnu Sigurðardóttur, bæði vegna þess málaflokks sem hún vinnur fyrir, og vegna reynslu hennar í störfum sínum og góðra verka fyrr. Núna óttast ég að hún fái ekki stuðning samherjanna vegna þess að hún neitar að skera niður um 10% í ráðuneyti sínu, hvernig á hún eiginlega að geta það? Félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið munu ekki geta skorðið niður! Hins vegar var flott af Ingibjörgu Sólrúnu að vera búin að skera niður í utanríkisráðuneytinu tvöfalt það sem beðið var um. Það er ekki hægt að setja á ,,flatan" niðurskurð milli ráðuneyta, skynsemi verður hér að ráða ferð.
Það sem ég óttast núna er eftirfarandi:
Sundurþykkja innan og milli stjórnarflokkanna hafa tafið hrikalega og gera stjórnina líklega óstarfhæfa.
Í ljósi þess er alvarlegt mál ef rétt er að aðstoð IMF - hversu umdeilanleg sem hún er, þá er hún eina hálmstráðið í bili - sé háð því að ríkisstjórnin lafi.
Það er slæmt að áfallastjórnunin sem er í gangi virðist helst felast í því að eitt áfall á dag haldi skrílnum í skefjum. Sem eitt lítið eintak í skrílnum þá bregður mér vissulega við hvert eitt áfall, en læt ekki kúga mig til hlýðni, frekar en flestir aðrir landsmenn.
Dregist hefur úr hömlu að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að reyna að láta þá borga sem hafa valdið mestu um hvernig komið er - útrásar,,víkingana" og hvort sem um er að kenna meðvirkni stjórnvalda eða andvaraleysi, þá má ekki við svo búið standa mikið lengur.
Krónan er á leið á flot. Eflaust er það ekki ,,hollt" fyrir okkur að fá að vita hvenær og hvernig. Nei, það dugar að láta okkur borga brúsann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook
Kór eftir Verdi (stundum kallaður Steðjakórinn)
25.11.2008 | 18:05
Selkórinn endaði afmælisdagskrána sína með frekar metnaðarfullum kór eftir Verdi, sem minnti mig á að hlaða Verdikóra-disknum mínum niður á ipodinn minn (sem ég hef heyrt kallaðan spilastokk, góð hugmynd sem kannski venst). Svo vorum að að ræða tónlist í Myndlistarskólanum í Kópavogi og ég lofaði að muna eftir að koma með Verdi-diskinn í skólann þegar ég kemst næst, sem verður væntanlega á fimmtudag, svo við getum nú nýtt nýju græjurnar okkar þar. Flottar græjur, BTW, afmælisgjöf frá nemendum ásamt skápnum undir. En það er vetur, stemmning fyrir flottum kórum svo hér er steðjakórinn eftir Verdi (Anvil Chorus samkvæmt YouTube og fullt af öðrum nöfnum eflaust):
Borgarafundur sem fer vel af stað ...
24.11.2008 | 20:38
Flott að horfa á borgarafundinn í sjónvarpinu, Þorvaldur Gylfason fór á kostum, var fyrirfram svolítið hrædd við að hann væri myndi bara tala fyrir hönd sumra, það er ESB-sinna, en það var öðru nær, glæsileg ræða! Vildi gjarnan að ég hefði komist, en skárra en ekkert að þessum fundi skuli vera sjónvarpað. Það er athyglisvert að nú eru þingmenn og ráðherrar farnir að mæta nokkuð vel á fundinn og rökrétt framhald af þeim framboðsræðnabrag sem mér fannst á vantraustsumræðunni í dag (að því leyti sem ég hafði tök á að hlusta á hana).
Silja Bára byrjar líka vel, stemmningin greinilega flott, ef þetta eru ekki skilaboð þá veit ég ekki hvað? Sneisafullt, þannig að það kemur ekki að sök að ég kemst ekki ;-) í þetta sinn.
Mikið af framboðsræðum, ekki síst stjórnarsinna, í vantraustsumræðunum í dag
24.11.2008 | 19:28
Mér fannst ótrúlga mikið af framboðsræðum, ekki síst úr röðum stjórnarsinna, í vantraustsumræðunum í dag. Geir var að vísu ekki á þeim buxunum en býsna margir aðrir, bæði flokkssystkini hans og Samfylkingarfólk. Einnig gætti þessa meðal stjórnarandstæðinga, sem er enn skiljanlegra, þar sem þeir voru að biðja um stjórnarslit og kosningar.
Og er Kristinn að leita að nýjum flokki? Náði ekki greinargerð hans.
Það er þjóðin sem vill kosningar í vor - þess vegna er verið að ræða vantraust á ríkisstjórnina
24.11.2008 | 17:47
Vantrauststillagan sem verið er að ræða á alþingi núna er ekki síst andsvar við stigvaxandi þunga í kröfunni um kosningar í vor. Snemma í vor, líklegast. Því miður er þessi krafa komin til vegna þessa að ekki er að sjá að ríkisstjórnin valdi þessu mikilverðasta verkefni nokkurrar stjórnar í seinni tíð, vegna innbyrðis sundurþykkju, persónulegri og pólitískri, innan flokka og milli flokka. Þess vegna verður þessi krafa sífellt háværari, fundirnir á laugardögum og aðrir fundir sífellt fjölmennari, hitinn í umræðunni og aðgerðunum sífellt meiri. Við svo búið er ekki endalaust hægt að láta standa. Ég er ánægð með málflutning þingmanna Vinstri grænna, og ekkert undrandi á því, eins fannst mér ræða Höskulds nokkuð góð og margir sprettir annarra stjórnarandstöðuþingmanna góðir. Jóhanna Sigurðardóttir er sú stjórnarsinna sem mér fannst eiga bestu sprettina og efast ekki um að hún vill grípa til góðra aðgerða, en það var athylgisvert að hún tók svo til orða að þetta væri EF stjórnarflokkarnir næðu saman um ákveðnar aðgerðir.
Mér finnst hart að það skuli þurfa aðgerðarlitla og sundurlynda ríkisstjórn og kosningar framundan (sem mér finnst líklegt að verði hvort sem þessi tillaga verður felld eða ekki) til þess að hjól atvinnulífsins fari að snúast aftur, ekki besta leiðin en kannski sú eina til að eitthvað raunverulegt verði gert til þess að sporna við aðgerðarleysi og evru-sjálfsblekkingin verði slegin út af borðinu, því ég hef trú á að það muni gerast og leitað verði raunhæfari leiða til að endurreisa gjaldeyriskerfi okkar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook