Ekki má gleyma grundvallaratriðum í kreppunni
13.3.2009 | 01:39
Stundum hef ég talið mig meira rauða en græna á skala Vinstri grænna, vegna þess að ég hef verð að berjast í ýmsum kjaramálum og réttlætismálum sem stundum eru kennd við rauða litinn góða. Hins vegar eru ákveðin umhverfismál sem valda því að ekki dugar annað en vera líka ansi grænn, hvað sem allri kreppu líður, því ef ekki er tekið í taumana þá verður framtíðin enn meiri en ella, bæði rauð og græn.
Það sem þarf að huga sérstaklega að er að bakka upp allar góðar aðgerðir Obama, því hann stýrir aðal mengunarlandi heims og á sannarlega ekki alltaf auðvelt uppdráttar heima fyrir með þau góðu sjónarmið sem hann vissulega stendur fyrir í umhverfismálum. Þannig að stuðningur allra annarra landa, meira að segja litla, mannorðssnauða Íslands, hjálpar.
Einnig þarf að beina sjónum að þróunarlöndum og Asíulöndum, sem benda réttilega á að þótt þau mengi mikið núna, þá séu þau ekki hálfdrættingar á við Vesturlönd sem hafi verið lengur að. Þarna eigum við Íslendingar mikla möguleika á að gera góða hluti og í guðanna bænum ekki spara í framlagi okkar til aðstoðar við aðrar þjóðir í nýtingu visthæfari orkugjafa. Þegar er verið að gera góða hluti á Íslandi á því sviði og satt að segja ættum við núna að huga enn frekar að efla það starf, það ætti að geta verið hagkvæmt bæði fyrir okkur og framlag til heimsmála, því þessari þróun verður að snúa við með öllum tiltækum ráðum.
Á þessum málum eru auðvitað margar hliðar, sumar tegundir eru í útrýmingarhættu og ég get ekki stillt mig um að segja frá hugrakkri baráttukonu sem kannski virkar svolítið barnsleg í baráttu sinni fyrir betri aðstæðum mörgæsa og málar ótrauð á baráttuskiltin sín: Meiri ís! (Mer is, reyndar, því hún er skandinavísk). Ég sníkti þessa mynd til sönnunar út úr einum félaga mínum sem þekkir þessa konu, þannig að þetta er satt.
Jörðin hlýnar hratt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:42 | Facebook