Hvað merkja setningarnar sem við höfum heyrt í dag?
26.1.2009 | 02:27
Enn eru ótrúlegir fréttadagar að dynja á okkur, fréttir sem geta varðað svo margt í framtíð okkar. Kosningar vissulega framundan, fjölmörg verkefni sem sumum finnst kannski ekki öðrum treystandi fyrir en núverandi stjórnvöldum, en þau hafa einhvern veginn ekki alveg verið að byggja upp það sama traust meðal þjóðarinnar.
Allmargar setningar sem hafa fallið í dag, sem ég veit ekki hvernig ég á að túlka, en kannski verður það orðið dagljóst (eða kýrskýrt) þegar ég vakna í fyrramálið. Elti ekki orðréttar tilvitnanir, enda held ég fast við að líta á blogg sem ritað talmál. En efnislega eru þær á þessa leið:
- Það getur brugðið til beggja vona
- Ég hef enn þingrofsréttinn
- Hef ekkert talað við vinstri græna
- Allir möguleikar opnir
- Þjóðstjórn er einn kosturinn
- Hef ekki leitt hugann að öðrum kostum
- Þessi kjördagur er ekkert heilagur
- Evrópumálin eru ekki uppi á borðinu nú - það á að kjósa um þau
- Ég hef ekkert lesið blogg í dag eða verið á netinu
- Ekkert merkilegt að segja af sér þegar stjórnin er hvort sem er fallin
- Afdrifaríkar pólitískar afleiðingar af frestun landsfundar Sjálfstæðisflokksins því þarf með er endurskoðun Evrópustefnu flokksins í nokkru uppnámi
- Skýrist á morgun
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:28 | Facebook
Athugasemdir
Anna min, ég er komin með upp í kok á barnalegum og sjálfhverfum orðaforða stjórnmálamanna. Mér er andskotans (má ekki blóta hér?) sama hvað stjórnmálamenn segja. Mér er líka orðið andskotans sama um svör stjórnmálamanna við hálfvitaspurningum fréttamanna á borð við hvað Geir hafi sagt, hvað Ingibjörg hafi sagt, kl. hvað hvort þeirra fór heim til hins, hvort Björgvin hafi tekið ákivörðun um að segja af sér eða verið fenginn til þess. Og mér er líka andskotans sama hvað stjórnarandstöðunni finnst um að Jónas var loksins rekinn.
Það er eitt sem mér er ekki sama um og það er hvort byggilegt verður á Íslandi næstu áratugina. Þess vegna vil ég að opinber umræða snúist um uppbyggingu.
Þingmenn geta verið úti í horni með frasana sína og sleikt á sér loppurnar. En ég vil að fréttatímar snúist um uppbyggingu á íslensku samfélagi.
Ertu ekki örugglega sammála mér?
Helga 26.1.2009 kl. 03:00
Þessir frasar geta lagt línuna til næstu skrefanna, þess vegna finnst mér alla vega nauðsynlegt að rýna í þá. En hins vegar er ég fullkomlega sammála þessu:
Það er eitt sem mér er ekki sama um og það er hvort byggilegt verður á Íslandi næstu áratugina. Þess vegna vil ég að opinber umræða snúist um uppbyggingu.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.1.2009 kl. 12:43
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fá útskýringar á þessum frösum. En þegar á allt er litið, ætti þetta fólk ekki að vera að vinna til hagsbóta fyrir fólkið í landinu, ekki að passa upp á stólana sína?
Sigríður Jósefsdóttir, 26.1.2009 kl. 12:44
Nákvæmlega.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.1.2009 kl. 22:04