Samvinna, samráð, traust eða einræði/skrílræði? Ákall á ,,sterkan leiðtoga" er ekki það sem okkur vantar
21.1.2009 | 18:02
Ástandið í landinu gefur tilefni til mikilvægrar umræðu um stjórnarfar. Það fer hrollur um mig þegar ég heyri ákall um ,,sterkan leiðtoga" sem stýri þjóðinni til farsældar. Við getum ekki treyst því að fá Nelson Mandela, Gandhi eða Móður Theresu heldur gætum við allt eins fengið okkar Stalín eða Hitler. Kvartað hefur verið um það að gæðasálin Geir sé fjarlægur, hrokafullur og ekki sterkur stjórnandi og jafnvel heyrast þær raddir að Davíð hafi þó alla vega verið mikill leiðtogi. Þarna er ég að tala um raddir sem ég hef heyrt meðal samherja hans. Á ekkert skylt við þann aðsúg sem gerður var að honum í dag, aðgerð sem ég er ekkert að verja. Hmmm ... efast ekki um það að Davíð hafi verið hörku,,leiðtogi", en var það einmitt gæfa okkar?
Það sorglega í dæminu tel ég einmitt að sé að við búum við kerfi þar sem enginn má, þorir, getur eða vill gera neitt nema einhver foringi leyfi það. Ég hef aldrei nokkurn tíma haft trú á að sterkir foringjar séu nein lausn, aðrir firra sig ábyrgð ef alltaf er mænt á foringjann og beðið eftir orði hans. Þess í stað lýsí ég eftir víðtækri ábyrgð, miklu samráði, trausti og vinnubrögðum fyrir opnum tjöldum hjá þeim sem taka við stjórn landsins í kjölfar þeirra umbrota sem nú eiga sér stað og hljóta að leiða til breytinga, vonandi boðun kosninga og starfhæfrar ríkisstjórnar og ábyrgs þings þar til skipt hefur verið um þing.
Pirringur eða ótti við skrílræði getur verið að standa í einhverjum, að vilja ekki ,,láta undan skrílnum". Þessi skríll er þjóðin, takk fyrir! Mjög góð líking sem er í gangi - menn halda ekki vatni yfir fjöldanum sem var við innsetningarathöfn Obama, en fjöldinn þar og fjöldinn á Austurvelli í gær er hlutfallslega nákvæmlega sá sami!
Undarlegur ótti er við svokallað stjórnleysi eða anarkisma, en í eðli sínu er sú stjórnmálastefna, sem ég hef reyndar sérhæft mig svolítið í innan sagnfræðinnar, mjög friðsæl og hugsjónirnar mjög merkilegar. Það eru vissulega margar stefnur innan anarkismans, en yfirgnæfandi eru þetta mjög ábyrgar, ígrundaðar og vel útfærðar hugmyndir um breytt og bætt samfélag sem kallar alla til ábyrgðar. Tvennt í atburðum dagsins finnst mér einmitt renna stoðum undir að þegar allir bera ábyrgð saman á aðgerðum sé hægt að gera góða hluti, það var þegar hópurinn ákvað saman að taka tillit til jarðarfarar í Dómkirkjunni og þegar einn mótmælenda skýrði út hættuna af flugeldunum og sprengjum og stoppaði af beitingu þeirra í hópnum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er rétt að við þurfum ekki sterkan leiðtoga einsog Davíð var kallaður sennilega með réttu. Við þurfum vitran leiðtoga. Leiðtoga sem getur skapað sátt um markmið. Annars ferst þessi þjóð. Þorgeir Ljósvetningagoði er dæmi um einn slíkan. Jón Sigurðsson líka. Kannski koma þeir bara með nokkurra hundruð ára millibili en nú er kominn tími til að við fáum konu sem getur vísað okkur leið næstu árin. Við þurfum leiðtoga sem er óhræddur við að leysa mörg mál í einu og fá til liðs við sig fólk með mismunandi skoðanir til að vinna að sama marki.
Gísli Ingvarsson, 21.1.2009 kl. 23:31
Sátt við að ekki getur sakað að hafa vitran leiðtoga því slíkur leiðtogi kallar fleiri til ábyrgðar.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.1.2009 kl. 00:24
Ég gæti ekki verið meira sammála þér varðandi orð þin:
"Þess í stað lýsi ég eftir víðtækri ábyrgð, miklu samráði, trausti og vinnubrögðum fyrir opnum tjöldum hjá þeim sem taka við stjórn landsins í kjölfar þeirra umbrota sem nú eiga sér stað"
Anna Karlsdóttir, 22.1.2009 kl. 00:30
Enda ertu að snerta grundvallaratriðin í því sem ég er að fjalla um, það sem lang mestu máli skiptir.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.1.2009 kl. 01:44