Í minningu Margrétar Oddsdóttur

Á þrettándann sátum við saman, ég og Heiða vinkona mín, og ræddum það hvað við söknuðum oft Jóns Ásgeirs Sigurðssonar, kærs vinar okkar, ssem lést langt fyrir aldur fram. Ég spurði hana hvort hún hefði einhverjar fregnir af líðan Möggu Odds, ekkju Jóns, sem hefur glímt við krabbamein um nokkurra missera skeið. Heiða vissi af því að hún væri í stöðugri sjúkdómsmeðferð, en hvoruga okkar óraði fyrir því að þremur dögum síðar yrði hún látin. Það er mikill missir af Margréti Oddsdóttur - það vita allir sem áttu því láni að fagna að kynnast henni.

Aðeins hálft annað ár er síðan við kvöddum Jón Ásgeir, lífsförunaut Margrétar. Þá var það hún sem átti hlýlegt orð handa okkur sem stóðum ráðvillt eftir og vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Hún var svo sterk og róleg eins og jafnan, flottasti skurðlæknirinn á læknaþinginu á Ísafirði (heimabæ Möggu) en það fékk ég tækifæri til að sækja þegar ég var að vinna fyrir Læknablaðið og fékk þá tilfinningu fyrir þeirri virðingu sem hún naut meðal kollega sinna. Hún var konan sem var að koma af næturvakt í New Haven þegar 20-30 Íslendingar mættu í ,,brunch" fyrir eftirminnilega haustlitaferð. Jón hvíslaði því að mér eða hún hefði tekið á móti einu eða tveimur fórnalömbum morðárása þá um nóttina. Hún var sallaróleg að sjá, áreiðanlega þreytt en síður en svo buguð. Hún var stoltið hans Jóns þá sem endranær og þótt sorgin sé sár núna get ég ekki annað en óskað börnunum þeirra til hamingju með þessa einstöku foreldra.

Það er alltaf erfitt að sætta sig við það þegar fólk er hrifsað burt í blóma lífsins  og erfiðast þegar börnin fá ekki einu sinni að vaxa úr grasi áður en þau missa foreldra sína. Það er aldrei auðvelt að kveðja þá sem hverfa á braut, hvort sem í hlut á aldraður heiðursmaður sem ég kvaddi með sveitungum mínum um daginn, eða kona á besta aldri, sem á svo mörgu ólokið bæði í lífi og starfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf de Bont

Ég samhryggist þér innilega með fráfall vina þinna.  Það er sárt að missa þá sem maður elskar og ber virðingu fyrir.

Ólöf de Bont, 16.1.2009 kl. 14:17

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þakka þér fyrir, Ólöf, falleg athöfn í dag og Möggu er sárt saknað af stórum hópi ffólks.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.1.2009 kl. 16:05

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband