Látum ekki mikilvæga umræðu drukkna í aukaatriðum - Nei gegn nauðgunum!

Þegar AIDS kom til Íslands þá drukknaði sú alvarlega umræða í vangaveltum um hvað ætti að kalla sjúkdóminn á íslensku. Mig minnir að það hafi verið Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sú ágæta fréttakona, sem vakti athygli á þessari staðreynd.

Mér sýnist annað svipað mál vera í gangi núna. Karlahópur feministafélagsins er að berjast gegn nauðgunum og með mikilvægan áróður til kynbræðra sinna, en það eina sem þeir (kynbræðurnir) virðast sjá er umræða um hvort ráðskona karlahópsins hafi móðgað Baggalút með því að misskilja (Baggalútur fullyrðir að um misskilning sé að ræða) texta sem sá ágæti hópur samdi. Hvort ætli sé nú mikilvægara, að berjast af alefli gegn nauðgunum, eða að karpa um hvort misskilningurinn hafi verið óþarfur eða ekki? Ég fíla Baggalút í tætlur en ég er ekkert hrifin af því að það skuli vera meiri umræða um þennan misskilning en um inntak áróðursins, sem er dauðans alvara. Og hananú!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hjartanlega sammála! Við dettum svo oft ofan í svona aukaatriði sem verða að aðalmálinu ... arggggg!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 1.8.2008 kl. 20:27

2 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Veistu það að ég verð að viðurkenna að það eina sem hvarflaði að mér í þessari stórskrítnu umræðu um textan við þetta lag Baggalúts var, að þessi ágreiningur kæmi báðum aðilum til góða. -

Fólk færi að velta fyrir sér textanum og spá í hvað þessi hópur væri, og hver er hún/hann þessi ráðskona karlahóps?!?!?! - Og ég las það á einhverju bloggi hér, að nú væri nóg komið af þessum feministakerlingum sem röfluðu út í eitt. - Því núna þyrðu þær ekki að koma fram undir nafni lengur, heldur kölluðu sig ráðskonur. Svo kannski .......?

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 2.8.2008 kl. 00:58

3 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Hvernig á að berjast gegn nauðgunum. Það virðist vera að ákveðinn hluti karlmanna telji að það að notfæra sér ölvunarástand konu til að fá fram kynmök sem hún annars myndi ekki samþykkja sé í lagi. Karlahópur femínista virðist vera að berjast gegn þessu viðhorfi. Ég tel að það sé rétta aðferðin til að berjast gegn nauðgunum og sé aðal atriðið. Í lagi baggalúts kemur skýr hvatning til að notfæra sér ölvunarástand kvenna til að fá eitthvað fram. Orðið NAUÐGUN vantar að vísu. Finnst þér ekki hugsanlegt að þetta lag styrki hugmyndir þessa hóps?  Þegar frægir aðilar eins og Baggalútur gera mistök er reynt að réttlæta það á allan hátt. Ég kalla þetta ekki misskilning heldur mistök sem Baggalútsmönnum væri best að biðjast afsökunar á og taka undir með femínistum. Við erum væntanlega sammála um að berjast gegn hvers konar ofbeldi andlegu og líkamlegu og ekki síst því sem svo viðkvæmum þáttum eins og kynfrelsið er.

Jón Sigurgeirsson , 2.8.2008 kl. 14:18

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég er svo mikil kvenremba í mér að mér finnst þessi texti þeirra baggalúta fráleitur. Mér finnst líka að einhver karl eða strákur geti ekki verið kona, hvaða forskeyti svo sem sett er framan við það. Kona er hins vegar maður by default, svo maður sletti nú aðeins eins og málfarspervert sæmir, og getur þess vegna verið hvers konar -maður (þingmaður), -fræðingur (hjúkrunarfræðingur) eða -herra (ráðherra). -- Og hér teygi ég greinilega umræðuna enn lengra frá málefninu

-- en það er líklega bara af því að ég skil ekki hvað liggur að baki nauðgun eða hvað kemur manni til slíks verknaðar. Og hananú!

Kv. í bæinn

Sigurður Hreiðar, 2.8.2008 kl. 15:02

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér finnst það sem þið segið reyndar mjög athyglisvert, því ég var alveg tilbúin að fallast á það að ég væri að oftúlka textann, en mér finnst tvær seinustu færslurnar benda til þess að Baggalútur HAFI farið yfir strikið og alla vega er textinn ekki fyndinn, eins og Baggalútur getur svo oft verið. Takk fyrir innleggin í umræðuna, öll! Og ég held að þessi umræða sé geysilega gagnleg, mun ánægðari með þá umræðu sem hér fer fram um þetta grafalvarlega umfjöllunarefni, heldur en vælið sem mér fannst vera komið í suma bloggara út af því að ráðskonan væri bara svona voðalega vond við Baggalút.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.8.2008 kl. 23:30

6 Smámynd: Oddrún

Alveg sammála ykkur... þetta er dauðans alvara. Það fer líka alveg einstaklega í taugarnar á mér þegar fólk er með ósmekklega og niðrandi brandara í nafni "húmors" og segir svo að ekkert megi fyrir hinum og þessum hagsmunasamtökum... Dónar, það er vel hægt að vera fyndin(n) án þess að meiða og særa 

Oddrún , 3.8.2008 kl. 21:55

7 identicon

Baggalútur segir í texta sínum „slíkt ber að nýta sér“ og er þar að tala um ölvunarástand kvenna. Textinn er stútfullur af kvenfyrirlitningu auk ofbeldisyfirbragðsins. Ég er búin að vera rasandi reið síðustu daga og mjög áhyggjufull yfir því að stór hluti þjóðarinnar skuli ekki enn vera búin að átta sig á því að það að nýta sér ölvunarástand kvenna er nauðgun. Þar að auki virðist Baggalútur njóta algjörrar friðhelgi og vera yfir alla gagnrýni hafinn. Þó að Baggalútsmenn séu grínarar þá þýðir það ekki að þeim sé gjörsamlega fyrirmunað að semja texta um nauðganir heldur geti bara samið texta um kynlíf... Lógíkin á bakvið vörnina á textanum er nefninlega eitthvað skrýtin og mitt álit á Baggalúti mun aldrei bíða þess bætur að hafa heyrt þá skilgreina textann sem bara fyllerí og kvennafar. Nauðgun er dauðans alvara og það er grafarlegt mál að segja við stráka að þeim beri að nýta sér ölvunarástand kvenna til að fá sínu framgengt. Kynfrelsi byggir á samþykki beggja kynja og í kynlífi eru konur ekki dauðadrukkin grey sem karlar eiga að nýta sér og góma og slást við áður en hinum illa girtu konum tekst að flýja - sem er innihald Baggalútslagsins í hnotskurn.

Eitt að lokum - varðandi ráðskonunafnið. Ráðskona er gott og gilt íslenskt starfsheiti. Ef konur geta verið ráðherrar þá geta karlar verið ráðskonur. Herra nær ekki yfir konur frekar en orðið kona nær yfir karla. Hins vegar á fólk erfiðara með að sætta sig við að karlar taki upp kvenkyns starfsheiti en öfugt - það endurspeglast einmitt í goggunarröðinni - fólki finnst karla setja niður við það vegna þess að ber ekki sömu virðingu fyrir konum og körlum... sama fólki finnst frábært að konur taki upp starfsheiti því þá finnst þeim þær vera á leiðinni upp á við í lífinu...  

katrín anna 5.8.2008 kl. 00:33

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Færslan mín hefur alla vega skilað því sem ég vildi, umræðu. Varðandi misskilning eða ekki misskilning, þá talar textinn sínu máli, en ef þetta er tilraun til háðsádeilu, þá er hún frekar mislukkuð, og ég vil ekki þvertaka fyrir að sú hafi verið meiningin. Að syngja í orðastað asna er vel þekkt trikk, sem skapaði í þetta sinn þarfa umræðu þegar upp var staðið, upphaflega fannst mér hins vegar að samúðin með Baggalúti væri að kæfa aðra umræðu og það fannst mér afleitt, þannig hefði alveg getað farið.

Ráðskona er auðvitað ekkert vitlausara heiti en ráðherra, bæði hafa unnið sér sess í málinu. Ég man reyndar eftir því að það var haft eftir Sölva Blöndal hagfræðingi (afa þess sem nú er betur þekktur) að hann gæti alveg hugsað sér að vera kallaður hjúkrunarkona, þegar verið var að taka það ágæta starfsheiti og gera kynlaust.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.8.2008 kl. 11:42

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband