Föstudagurinn laaaaaaaaannnnnngggggiiiiiiiii
21.3.2008 | 13:33
Stillti á rás 1 á útvarpinu til að hlusta á hádegisfréttirnar og núna er ég sem sagt farin að hlusta á gömul Passíusálmalög. Rifjar upp þegar ég tók viðtal við Smára Ólason þá (og kannski nú) organista í Mosó um að Passíusálmarnir hefðu verið sungnir, en það var einhvern tíma saga til næsta bæjar. Alla vega, hann á einhvern heiður af því sem við erum að hlusta á núna. Og einhvern veginn svo vel við hæfi að hlusta á þessa dagskrá frekar en aðeins meira léttmeti á mörgu hinna stöðvanna. Reyndar skapaðist sú hefð einhvern tíma heima að Ólafur fóstri minn, sem alla jafnan hlustaði ekki á tónlist, vildi heyra sinn Jesus Christ Superstar á föstudaginn langa. Það var bara skemmtilegur siður, enda var stef úr því verki við útför hans, mig minnir í eftirspili. Séra Örn Bárður átti heiðurinn af því eftir ábendingu, hann var næmur á hvað átti við.
Annars var skemmtileg umræða hér á blogginu fyrir skömmu um hvað ,,mætti" og hvað mætti ekki á föstudaginn langa. Bingó er bannað, bara ef einhver skyldi vera búinn að gleyma því eftir mikla umræðu á blogginu hennar Jennýjar Önnu. Man eftir löngum föstudögum þegar ekki var hægt að fara í búð og er enn hálf feimin við að fara í búð á föstudaginn langa (en læt það ekki stoppa mig ef ég þarf set bara upp feimnissvipinn og treysti því að krakkarnir í 10-11 séu með helgidagaálag).
Svo tókum við upp á það eitt sinn í skúlptúrhópnum mínum að steypa á föstudaginn langa, einkar heppilegt af því maður hleypur ekki frá steypu og dagurinn hvort sem er svo langur. Í það skiptið björguðu afgangarnir úr fermingarveislunni hans Óla alveg öllum máltíðum dagsins. Þetta krefst skýringar. Við fermingu Hönnu dóttur minnar tveimur árum fyrr tóku vinir og ættingjar alveg að sér að sjá um veitingar, þar sem ég var í miðri kosningabaráttu (nokkuð sem dóttir mín fór þegar að hafa áhyggjur af þegar hún var 9 ára og sagði: Mamma, svo veistu að þú verður að ferma í næstu kosningabaráttu! - sem kannski er ástæðan fyrir því að upplýsingahópur Kvennalistans var meðal þeirra sem lögðu til veisluföng). En fyrir ferminguna hans Óla taldi ég ekki nokkra þörf á hjálp annarra og mjög kát að geta séð um veisluföng sjálf. Hmmm, vinir og ættingjar hafa trúað því mátulega því eftir sem áður var komið með veitingar í aðra veislu í viðbót. Og þar sem okkar veislur með nánustu ættingjum og vinum eru jafnan næstum hundrað manna þá gat skúlptúrhópurinn minn lifað góðu lífi á brauðréttum og tertum frá klukkan 11 að morgni til miðnættis þennan föstudaginn langa.
Metið í föstudögum löngum held ég þó að dóttir mín eigi, sem var að kryfja lík á seinasta föstudaginn langa (meðan ég hafði það gott hjá Nínu systur í Portales í New Mexico). Það er ekki læknadeildin hér sem fer svona með nemendur sína heldur læknadeildin í Debrecen í Ungverjalandi, en þar er slatti af Íslendingum við nám. Ég hélt reyndar að hún yrði að kryfja í dag, en það leiðréttist hér með.
Athugasemdir
Nei, Anna mín, Smári (reyndar Ólason, ekki Ólafssson) er ekki lengur organisti hér. Nú er hann titlaður tónlistarfræðingur og það hygg ég hann beri með sanni.
Núverandi organisti hér er Jónas Þórir, algjör snillingur! Ég var að koma úr messu með honum núna fyrir hádegið í Víðinesi, þar sem hann varð að láta sér lynda að berja á lélegt píanó en jafnvel því tókst ekki að eyðileggja góðan píanóleik -- ekki alveg amk.
Gleðilega páska
Sigurður Hreiðar, 21.3.2008 kl. 13:52
Góðir organistar eru mikilvægir, það var einmitt organistinn sem spilaði þetta stef úr Jesu Christ Superstar þegar hann Ólafur fóstri minn var jarðaður. Og ég leiðrétti þetta með föðurnafnið hans Smára. Minnsta málið.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.3.2008 kl. 13:59
Fólk blygðast ekki við að hlaupa út í búð hérna í henni Ameríku á Föstudaginn Langa, sorglegt að segja en ég held að ef Jay Lenno færi út á götu og spyrði fólk hvers við værum að minnast á Föstudaginn Langa stæðu margir á gati. Tengdamóðir mín var jörðuð á Föstudaginn Langa fyrir 3 árum og mér fannst það mjög miður og var mjög undrandi á prestinum að láta þetta viðgangast. 'Eg var að lesa að á ári hverju á Föstudaginn Langa lætur hópur fólks í Filippseyjum krossfesta sig sem ég get ekki séð nema hálfgerða sjálfdýrkun.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 21.3.2008 kl. 17:04