Ljúfu jól - fjölskyldan, bækurnar, framtíðin og framkvæmdirnar

Þessi jól fara vel með okkur. Góðar samverustundir með fjölskyldunni, vorum í boði hjá nánustu tengdafjölskyldunni minni, sem er líklega innan við 50 manns (ef taldir eru þeir sem eru á landinu núna). Meira að segja Kristín amma í Borgarnesi kom við með Önnu Mæju dóttur sinni, hún er töffari á tíræðisaldri. Mamma var hjá okkur á aðfangadagskvöld og jóladag, en vegna veðurs frestuðum við kertaferðum í kirkjugarðana um stund. Afskaplega notalegt allt saman. Svo vorum við fjölskyldan að spila í nótt (Draumalandið held ég það heiti) og ég datt aftur í smá spilamennsku í dag (Bíóspilið) með nokkrum í tengdafjölskyldunni. Mikið fjör þar til eftirréttir voru bornir fram, þá leystist þetta upp, það var líka samkeppni um athyglina við börn fjölskyldunnar, sem dró úr einbeitingu á köflum (góð afsökun ;-) - já þetta eru góð fjölskyldujól.

Og bókajól líka, las spennusöguna Hníf Abrahams fram á rauðan morgun og er búin að lesa alla bestu kaflana í ævisögu Guðna og byrjuð á nýrri spennusögu, Gurrí mín takk! Enn  eimir eftir af áralöngu menningarbindindi og ég les mest spennusögur með stærðfræðinni. Ætla samt að ráðast á endurheimtu bókahillurnar og endurlesa Doris Lessing við tækifæri, elska hana. Og þegar ég kemst í þann fasa les ég venjulega líka eitthvað í Iris Murdoch. Við erum líka búin að horfa smá á sjónvarp og bíó, þetta er fín upphitun fyrir næsta framkvæmdafasa, sem verður mun vægari en sá næsti fyrir jól.

Kláruðum parkettið uppi fyrir jól, sem var ótrúlega gaman (og pínulítið erfitt), og erum búin að endurheimta stofuna okkar eftir 11 mánaða bráðbirgða-staðsetningu bókahilla á miðju borðstofugólfi (bækurnar farnar upp og sumar bíða þess að fleiri bókahillur verði settar upp - og nú er alla vega hægt að FINNA bækurnar sem mig langar að lesa, láta aðra lesa eða gefa).

Áramótin verða að vanda með fjölskyldu, venjulega kemur Georg bróðir og hans krakkar til okkar kringum áramótin, mamma og stundum tengdamamma. Meira um það seinna. 

Hlakka til allra verkefna og næsta árs, gaman að vera farin að vinna við sagnfræðina aftur og eiga svona lítið í land til að ljúka MS-inu í tölvunarfræðinni. Líka búin að bóka óvenju stutt ,,sumarfrí" í febrúar á Kanarí, þar sem vinna og verkefni kallar á okkur bæði. Bætum það vonandi upp á öðrum tíma ársins.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda litla

Þú ert svo dugleg að lesa, ég er berjast við að byrja að lesa aðra bókina sem að ég fékk í jólagjöf, en ég er bara svo rosalega löt yfir jólin að ég sofna bara um leið og ég tek bókina í hönd. Fékk Bíbí Ólafs og Guðna "Minn" Ágústson.

Linda litla, 27.12.2007 kl. 02:29

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Eiginlega þyrftu alltaf að vera jól. ég er bara fljót að lesa um jólin. Yfirleitt kemst ég yfir eina til tvær spennusögur á mánuði, sofna yfir þeim ;-) meðan eiginmaðurinn les 5-6. En ég er ákveðin í að lesa Bíbí við tækifæri, líst sérlega vel á hana, og mamma á hana og er búin að lesa.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 27.12.2007 kl. 13:44

3 identicon

Segi eins og Linda litla, þú ert ótrúlega afkastamikil í lestri miðað við allt annað sem þú ert að sýsla við. Hvaðan kemur öll þessi orka?

Anna Ólafsdóttir (anno) 27.12.2007 kl. 21:14

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Orkan kemur í skorpum, svo koma rólegri tímar á milli, bæði í bóklestri og öðru. En jólin hafa eiginlega alltaf verið svona, það er bara svo gaman að liggja (með góðri samvisku) í bókum á jólunum.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 27.12.2007 kl. 23:12

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband