Dagurinn þegar ekkert fór eftir áætlun
15.12.2007 | 02:20
Í fyrsta lagi var ég búin að ákveða að vakna pestarlaus, sbr. næstu bloggfærslu á undan. Ekki gekk það nú eftir, lítið skárri en í gær. Í öðru lagi þá áttum við von á dótturinni frá Ungverjalandi um hálf fjögur eftir langa og stranga ferð. Þess í stað er hún að lenda núna eftir tæpan hálftíma, rúmlega ellefu stundum á eftir áætlun, og bara hundaheppni að hún skuli yfir höfuð komast tímanlega, því það er skírn í fjölskyldunni á morgun. Í þriðja lagi ætlaði ég að vinna upp lestartap síðustu daga með því að vera rosalega dugleg núna, það gengur varla eftir, þessi pest gerir mig ekkert gáfaða.
Samt er þetta bara fínn dagur, í góðum félagsskap fjölskyldunnar. Síminn og bloggið hafa haldið okkur í sambandi við þreytta ferðalanginn okkar, lestarhesturinn í fjölskyldunni (sonurinn, ekki ég) hefur verið að lesa heima hjá ömmu sinni og svo höfum við dormað og horft á heilalaust sjónvarpsefni, og líka Útsvar, sem er ekki heilalaust. Vonandi að maður fari að komast í almennilegt upplestrarstuð, það er ekki eins og ég hafi ekki reynt ...
Athugasemdir
Svona fer með suma daga, sjáðu bara minn! En svefn og matur sjálfsagt laga sjúkdómsferil þinn!
Sigurður Hreiðar, 15.12.2007 kl. 11:27
Góður!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.12.2007 kl. 04:03