Palmitos Park - Kanaríeyjum - raunalegar fréttir
1.8.2007 | 13:13
Veðurfarsbreytingar eru að taka á sig ýmsar myndir. Skógareldar á Kanarí eru ein þeirra. Ég var svolítið sein að uppgötva kosti þess að eyða fáeinum vetrarvikum á suðlægari slóðum og fara til Kanarí á veturna. En það sem af er öldinni hefur þessi siður verið í hávegum hafður meðal fjölskyldu og vina.
Fyrsta árið sem ég kom til Kanarí eyddum við góðum stundum með vinum okkar, gamalreyndum Kanarí förum, og vinkona okkar sagði nánast á fyrsta degi að við ættum að fara í Palmitos Park. Þar sem við höfðum engin börn með okkur til afsökunar fannst okkur þetta svolítið furðulegt, að fara í fuglagarð, hoppuðum samt upp í strætó, held það hafi verið nr 45 og eyddum yndislegum degi í Palmitos Park. Síðan höfum við komið þangað nokkrum sinnum, ekki á hverju ári, en nóg til að endurnýja kynnin af þessum unaðsreit þar sem oft er hlýrrra og skjólsælla en á láglendinu. Garðurinn er/var í þröngum dal og þar voru fágætir fuglar sem komu manni alltaf í gott skap. Nú hefur þessi fallegi garður orðið skógareldum að bráð og því miður sumir íbúanna líka. Mér finnst þetta sorglegt.
Athugasemdir
Já, sorglegt að heyra - ég var einmitt á Kanarí um jólin og fór ásamt fjölskyldunni í heimsókn í garðinn og á góðar minningar þaðan.
Ætli við þurfum ekki að hysja upp um okkur brækurnar dáltið hraustlega í þessum umhverfismálum, ég hvet fólk til þess að muna að margt smátt gerir eitt stórt!
Kolla
Kolbrún Kolbeinsdóttir, 13.8.2007 kl. 18:44
Sammála því sem þú segir, bæði varðandi Palmitos Park, notalega garðinn, og ekki síður því sem þú segir um alheimsábyrgðina.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 14.8.2007 kl. 13:04