Ef það kæmi gott veður ...

Merkilegt hvað sumir (ég) eru hikandi við að bóka ferðir fram í tímann á sumrin. Ef ske kynni að það kæmi gott veður á heimaslóðum, þá er auðvitað ómögulegt að missa af því. Bóka helst ekki utanferð að sumri nema hafa aðra ástæðu til þess en sólarfíkn. Kannski er ég ein um það, en grunar þó að við séum fleiri. Sumarblíða uppi í sumarbústað eða við Bessastaðatjörn, golfdagar í pilsi, auðvitað er ekki hægt að missa af svoleiðis löguðu. Haustið þegar við Ari fórum í sólarlanda- og berjaferð á Austurland verður líka alltaf í minnum haft. 

Langtímaspár lofa ekki endilega góðu, en stöku veðurfræðingar hætta sér í að vera bjartsýnir. 

Yfirleitt hef ég frekar tekið eiginlegt sumarfrí á veturna og eftir að hafa streist á móti öllum Kanaríferðum fórum við Ari minn í tíu skipti á 12 árum í vetrarferðir þangað í byrjun þessarar aldar. Fleiri staðir hafa orðið fyrir valinu á veturna, vestan hafs en þó aðallega suðaustan. Það er nokkurn veginn hægt að treysta því að veðrið sé betra á suðlægum slóðum en hér heima á veturna en á sumrin. Núna snemma sumars hef ég reyndar heyrt af óvenju mörgu veðurflóttafólki héðan af suðvesturhorninu, sem flúið hefur til Spánar, Ítalíu eða á Melrakkasléttu. 

2012-07-14 19.53.41 (3)

Spurði vini mína á Facebook um daginn hvort bítlalagið væri í meira uppáhaldi, Here comes the sun eða I´ll follow the sun. Mér finnst öruggara að halla mér að því síðarnefnda, og auk þess er það miklu fallegra lag. Hef skásta reynsluna af því að taka svoleiðis ákvarðanir þegar nokkuð traust veðurspá liggur fyrir og fara þá ekki um of langan eða dýran veg. Ótrúlega góð spá í Borgarfirði fyrir áratug eða svo og einn frídagur í vinnunni varð eftirminnilegur, í fyrra elti ég sólina frá London til Norwich og þegar spáð var úrkomu í Sitges á Spáni dreif ég mig suður með ströndinni og fann sólina heita og góða. Ekki gengur þetta alltaf vel, frétti af einum sem ætlaði að ,,skjótast" til Egilsstaða í góða veðrið um einhverja af nýliðnum helgum, en var ekki til í að borga flugfargjald öðru hvoru megin við fimmtíu þúsund kallinn fyrir nokkra klukkutíma í sólinni, enda gisting ekki alltaf á lausu í áfangastað og heldur ekki gefin.  

Framundan er heilt sumar, alls konar veður út um allar trissur, hitabylgjur, meinhægt veður, skrifstofufárviðri, Jónsmessuhret eða bara rigningartíð og rok. Sumir panta sér dýrar ferðir í sólina án þess að sjá sólina fyrir veðrinu, aðrir eru heppnari. Sumir halda því fram að það sé ekki til vont veður, bara vitlaus fatnaður. 

Við vitum auðvitað öll af því að þessi forgangsröðun okkar er lúxusvandamál, í heimi þar sem veðuröfgar verða sífellt fleirum að fjörtjóni, stríð geisa og alvarlegur uppskerubrestur ógnar lífi fólks. En þetta er nú samt það sem fólk er að tala um, sem hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu landans og hlýtur að teljast hinn eini, sanni þjóðarpúls.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband