Vísað úr lest - af og til síðan 1973

Þótt ég elski lestarferðir og sé einstaklega prúð og góð alltaf þegar ég stíg um borð í lestir, þá hef ég lent í því undarlega oft og af ótrúlega ólíkum ástæðum að vera vísað úr lestum. Bara einu sinni (æ jú, tvisvar, þrisvar víst) var mér einni vísað út, en yfirleitt með öðrum. Um sumt þetta hef ég fjallað í ferðaþáttum í útvarpi, eflaust bloggað um eitthvað en sumt hefur bara verið í rólegheitum að gerjast í kollinum, það var ekki fyrr en um daginn þegar mér var enn einu sinni vísað úr lest, að það rann upp fyrir mér að þetta var að verða kækur. 

Þetta byrjaði sennilega ekki fyrr en rétt fyrir jólin 1973 þegar ég var á leið að heilsa upp á foreldra mína, sem þá bjuggu rétt hjá Bristol í Englandi. Mátti þakka fyrir að hafa komist í flug þann daginn, því fram til klukkan þrjú var enn flugfreyjuverkfall. Fór frá Heathrow með rútu til Reading og átti svo að taka lestina um kl. níu um kvöldið í vesturátt og fara út í smábænum Yatton. Fylgdist vel með en allt í einu var ég komin framhjá Yatton og ekkert stopp. Lestarstarfsmenn voru nefnilega í aðgerðum sem kallaðar voru ,,working to rule" (ein tegund borgaralegrar óhlýðni) og lestin sem ég var í var ein af morgunlestunum út af seinagangi starfsmanna. Var sagt að fara út í Weston-Supe-Mare og gerði það. Símaskráin í símaklefanum fyrir utan náði ekki til Congresbury, næsta bæjar við Yatton, og ég þurfti að taka morgunlest til Yatton nokkrum klukkutímum seinna til að komast í símasamband. 

Dramatíkin var mest um haustið 1974, þá höfðu foreldrar mínir flust til Frakklands og þangað heimsótti ég þau og fór svo með lestinni frá París til Belgrad á 2. farrými gömlu, sjúskuðu Austurlandahraðlestarinnar. Sex manns í hverjum klefa en Júgóslavi í okkar klefa fór allt í einu að vera æstur og sagði voz (sem þýðir lest) og búmm búmm og skellti saman hnúum. Við hugguðum þennan hrædda mann þar til uppúr miðnætti þegar lestin nam staðar rétt utan við Zagreb og okkur var vísað út og sagði að húkka okkur lest áfram. Það hafði sem sagt orðið eitt af stærri lestarslysum sögunnar, sú lest var að koma á móti okkur, og línur báðar leiðir lokaðar. 

Eftir dvöl í Belgrad í sömu ferð og stopp í Búdapest var ég í lest gegnum Tékkóslóvakíu (sem enn var eitt land) um miðja nótt þegar uppgötvaðist að ég var vesturlandabúi en lestin fór um landamæri sem voru ekki ætluð okkur. Klukkan þrjú stóð ég því á brautarstöð við rætur Tarta-fjalla. Sagan var lengri en verður ekki rakin hér frekar.

Svo held ég bara að ég hafi ekki lent í að vera vísað úr lest aftur fyrr en ég var að vinna hálfa vikuna í Kaupmannahöfn og hinn helminginn á Íslandi lengst af vetrar 2001. Átti þetta fína klippikort sem ég notaði í lestina frá Dybbölsbro og til Austur-Bröndby. Nema í eitt sinn, þá virkaði sjálfvirki klipparinn ekki og ég var böstuð í lestinni í einni af tugum ferða þann veturinn og eina skiptið sem klipparinn stóð á sér. Í stað sektar var mér vísað út í Valby og sagt að klippa kortið þar og taka svo næstu lest, sem ég gerði.

Víkur þá sögunni til Southampton 2019. Var á leið til Poole með dóttur minni og vinkonu hennar um niðdimmt kvöld og sagði eitthvað um að mig hefði alltaf langað að stoppa í Southampton. Jamm, það var eins og við manninn mælt, við stoppuðum einmitt þar og var vísað út. Lestin fór ekki til Poole þessa nóttina og stoppið stóð reyndar til hádegis næsta dag. Ungur maður hafði klifrað upp í mastur við teinana og ætlaði að kasta sér niður. Vanur samningamaður var að reyna að tala hann til og það var ekki fyrr en á hádegi daginn eftir sem aftur var hægt að setja lestarferðir í gang. Því miður hafði þessi saga endað illa. 

Og um daginn var ég á leið frá Glasgow til Ayr en lestin stoppaði í Prestwick og fór ekki lengra. Ástæðan: Eldsvoði á lestarstöðunni í Ayr. En um það fjallaði næsta blogg á undan þessu. 

Tek fram að ég hef margoft farið í lest án þessa að vera vísað út. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband