Skroppið til Skotlands
29.5.2023 | 17:02
Skrapp til Skotlands, sem er ekki í frásögur færandi í sjálfu sér. Margir skreppa til Skotlands, sumir eru skotnir í Skotlandi, eins og ég, upplýsti það held ég í nýlegu bloggi. Finnst ég samt svolítið eins og svæðisfulltrúi Forrest Gump að þessu sinni. Lenti á Edinborgarflugvelli og þar var ögn lengri röð en ég bjóst við, samt ekkert átakanlegt miðað við þær hryllingsfréttir sem sagðar voru af þessu ástandi í kvöldfréttum ýmissa miðla. Sem sagt engir sjálfvirkir vegabréfaskannar í öllu hinu sameinaða kóngsveldi virkuðu þennan daginn. Við vorum varla meira en 20 mínútur að komast í gegn, en fólkið í fréttunum almennt um 3 klukkutíma. Minnir svolítið á það þegar við fjölskyldan ókum gegnum Heklu-vikur, 20 cm þykkt lag í gosi dagsins, á leið okkar úr Hrauneyjarfossi um árið. Ég hringdi auðvitað okkar 20 cm vikurlag samviskusamlega inn til vina minna á fréttastofu útvarps, en þar hafði fólk þegar fengið betra tilboð.
Stoppaði stutt í Edinborg, of mikið rok fyrir minn smekk (og ég sem hafði ríghaldið í stýrið um morguninn til að fjúka ekki með bílnum mínum út af Reykjanesbrautinni, fljót að gleyma). Tók nokkrar myndir, auðvitað af Scotts Monument, en ,,been there - done that svo ég fór ekki upp.
Glasgow tók mér opnum örmum, en mig var farið að gruna að eitthvað væri í gangi þegar grænröndóttir unglingar fylltu lestarvagninn seinasta spölinn. Afskaplega glaðir. Þegar til Glasgow var komið var sem sagt borgin full af stuðningsmönnum Celtic að fagna 5-0 sigri yfir Aberdeen og bikarnum, skoska líklega. Íslenskir fjölmiðlar höfðu bara alls ekkert tekið eftir þessu. Mikill viðbúnaður var í borginni og er á daginn leið voru æ fleiri komnir úr grænröndóttu peysunum, berir að ofan, öfurölvi, sumir jafnvel blóðugir og þá var hjálparsveitin mætt í gulum vestum, alvön, að stumra yfir þeim, einhverjum var keyrt um í innkaupakerrum og verslanirnar við Argyle Street lokuðu dyrum sínum einhverjum klukkustundum of snemma.
Náði samt í Cass Art og einhverja Daniel Smith vatnsliti, enda var sú búð í hliðargötu og varin verktakapöllum. Caffé Nero var hins vegar opið og óhaggað með öllu.
Ákvað daginn eftir að elta sólina, þrátt fyrir að borgin bæri timburmennina vel, og setti stefnuna á Ayr. Vefmyndavélar lofuðu mátulegum skammti af sól þar, með fullri virðingu fyrir glennunum sem voru í Glasgow. Þegar við áttum skammt eftir til Ayr fórum við um Prestwick. Aha, hér þarf ég einhvern tíma að stoppa hugsaði ég. Þetta var nefnilega aðalflugvöllurinn þegar mamma og Ólafur fóstri minni voru við nám í Skotlandi, og hef heyrt mikið um völlinn talað. Næsta brautarstöð á eftir flugvellinum var Prestwick Town, og þá heyrðist gjalla í hátölurum lestarinnar: Vegna elds á brautarstöðinni í Ayr höldum við ekki lengra að svo stöddu. Förum áfram þegar búið verður að slökkva eldinn.
Ég var meðal þeirra fyrstu sem ákvað að láta þetta bara duga. Sá á strollunni sem kom smátt og smátt upp brekkuna frá brautarstöðinni að fleiri höfðu tekið sömu ákvörðun. Nennti ekki að bíða í 37 mínútur eftir strætó til Ayr, eins og þeir sem áttu eiginlegt erindi þangað urðu að gera. Ég var bara að leita að sólinni og hún var fundin, fann líka indælis veitingahús þar sem ég gat vatnslitað varnarlaust fólk sem naut sólarinnar með mér. Var að vísu svolítið maus að komast með strætó til Glasgow en ég var heppin. Einhverjir tugir á síðari stoppustöðvum ekki eins heppnir.
Og þegar þessi pistill var skrifaður sat ég með litla, sæta lyklaborðið við símann minn og hamraði þetta inn. Þá var ég búin að vera í Skotlandi í einn og hálfan sólarhring. Ákvað samt að birta pistilinn ekki fyrr en ég væri komin heim. Held að svona uppákomur styðji þá ákvörðun mína að ferðast oftast ein.
Yfir borðum þegar ég var að skrifa þetta vomaði mávaskratti sem ætlaði eflaust að grípa pítsusneið eða samloku úr hendi eða munni einhvers gestanna, eins og mávurinn sem fór í koddaslag við mig í Haag í fyrra. Margt gerist í ferðum.