Danskir skemmtistaðir, Le Carrousel og ,,pigtrådsmusik"

Þegar ég var unglingur langaði mig lifandis ósköp til London. Það var ,,borgin" og mig dreymdi um að dressa mig upp í Carnaby Street og Chelsea og sjá allar stórkostlegu hljómsveitirnar, Bítlana, Rolling Stones og allar hinar. Fyrsta sumarið sem ég fékk vinnu allt sumarið var þegar ég vann í prentsmiðju fimmtán ára gömul, 1967, í grámynstruðu ullarpilsi og nælonsokkum, því það var dress-code fyrir þann vinnustað, værir þú kvenkyns. Mér var ætlað að leysa af miðaldra konu sem auk þess að sortera hausverkjavekjandi sjálfkalkerandi kvittanir eldaði ofan í mennina. Á fjórða degi var ákveðið að þeir borðuðu á Aski. Þá hafði ég hitað ýsuna við lágan hita ósaltaða og saltað saltfiskinn hressilega daginn eftir. Samt var bara leiðinlegt. Um haustið stakk mamma uppá að ég skryppi í utanferð áður en skólinn byrjaði og ég færi í landspróf. Skoðaði möguleika á ferð til London, en hún kostaði átta þúsund kall en ferð með Gullfossi til Leith og Kaupmannahafnar, fullu fæði og sex daga stoppi í Kaupmannahöfn (búið um borð) bara fimm þúsund kall.

2023-02-24_21-14-16

Fimmtán ára pjakkur í prentsmiðju var ekki hálaunamanneskja svo ég fór til Kaupmannahafnar. Kynntist dóttur háseta um borð, ári eldri en ég, og sú kunni á djammið. Tívolí á daginn og á kvöldin fórum við á Le Carrousel við Axeltorv, rosalegan dans- og tónleikastað til klukkan fjögur, þá var haldið á leiðindastaðinn Exalon með dinnertónlist til fimm og loks á Jomfruburet sem alltaf virtist opið. Á Le Carrousel var sannkölluð 1967 stemning, ,,summer of love" náði til Kaupmannahafnar, en hinir staðirnir voru hrikalega ,,slísí" með kófdrukknu harðfullorðnu fólki, sumir eflaust komnir yfir þrítugt ef ekki fertugt. Ógeðslegir en við einhvern veginn komumst hjá öllu ógeði. Þetta var þegar ég kynnist  hugtakinu ,,pigtrådsmusik"/gaddavír sem sagt, en það var miklu meira af svífandi sækadelik tónlist þarna þetta haust. 

Hér er dásamleg upprifjun á dansstöðum Kaupmannahafnar á þessum tíma, og ég kannast við ótal margt: http://www.cykelkurt.com/musik/60-erne/spillesteder.html

Ég var samt farin að halda að mig hefði dreymt þennan stað, Le Carrousel, þótt ég hafi reyndar fundið hann aftur fyrir allmörgum árum í dulargervi risabíóhúss, sem hefur víst verið helsta hlutverk þessarar byggingar í liðlega hundrað ára sögu hennar. Og af því að ég er að fara í árshátíðarferð til Kaupmannahafnar í maí, þá hvarflaði andartak að mér að við værum að fara í rétt hús, en nei, það er næst eða næstnæst við, sjálfur Circus Schumann, sem ég fór í með mömmu þegar ég var sjö ára. Le Carrousel var vafin dýrðarljóma í mínum augum og þarna var allra besta tónlistin, sækadelic, bítlaleg og rokk af bestu gæðum. Þrátt fyrir lítið svið komu þangað margar helstu hljómsveitir ástarsumarsins og áranna í kring. Kaupmannahöfn var fínn staður fyrir bráðungar djammstelpur í stuttum pilsum sem vildu aðallega dansa og drukku ekki einu sinni áfengi, þá voru hipparnir bara á Nikolais Plads og við vorum hálf hræddar við þá á þessum tíma (Kristjanía varð til fyrr en 1971).

1931313_42373829673_7852_n

1931313_42373549673_6266_n

Flestir sem sóttu Le Carrousel þetta haustið voru á okkar aldri eða lítið eldri og voru eins og við bara að dansa og njóta þess að vera til. Hér að neðan set ég afrekaskrána (listamennina sem skemmtu þarna, smellið á myndina og þá er hún skarpari, vel þessi virði) en skelli líka inn smálegu af myndum sem ég hef fundið frá þessum dýrðarstað (sú skarpasta reyndar frá því nokkrum árum fyrr). Kaupmannahöfn er líklega sá staður þar sem ég hef átt hvað skemmtilegustu djammstundirnar, allt til tímans hjá Betware, sem er á þessari öld, en samt ... það var alltaf London. 

2023-02-24_19-19-03


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband