Stórfjölskylda æskunnar
18.2.2023 | 18:43
Oft grínast ég með það að ég sé einkabarn í móðurætt, sem satt er og rétt, og að ég hafi ekki kynnst stórfjölskyldu fyrr en ég giftist inn í eina slíka og um svipað leyti mynduðum við systkinin fjögur í föðurætt órjúfanlegan stórfjölskylduhóp. En þetta með að ég hafi ekki átt stjórfjölskyldu í æsku er bæði rétt og rangt. Rétt að því leyti að ég var eina barn mömmu og naut forréttinda einkabarnsins, eins og efni leyfðu en líka rangt að því leyti til að ég er alin upp í miklum fjölskyldufansi, það sé ég best þegar ég lít til baka.
Til að byrja með var það aðallega móðuramma mín og unglingurinn Día móðursystir mín og svo föðurfjölskyldan með Betu frænku í broddi fylkingar og krakkaskarann hennar og dætur Henna frænda, sem ég tengdist mest. Við krakkarnir vorum öll á svipuðum aldri. Ef foreldrar fóru til útlanda þá tók fjölskyldan krakkann, mig, að sér. Veiga afasystir í móðurætt og svo Svala fóstursystir mömmu og hennar fjölskylda.
Þegar við fluttum á Álftanesið bjarta, þá var ég tólf ára, eignaðist ég fljótlega fóstursystkini úr fjölskyldunni, því það var vinsælt hjá krökkunum á mínum aldri og ögn yngri, að fá að fara út á Álftanes yfir helgar eða um lengri tíma á sumrin. Alltaf voru mamma og Ólafur fóstri minn tilbúin að taka á móti fósturbörnunum sínum, strákunum hennar Dúddýjar frænku og eldri börnum Magga frænda og stelpunum hennar Ellu frænku. Þegar ég var komin í menntó snerist þetta við, ég hálfpartinn flutti inn á Dúddý frænku, sem bjó í hagstæðri fjarlægð frá skólanum og var ótrúlega margar helgar hjá henni alla mína menntaskólatíð. Á daginn kíkti ég til Betu frænku því þar var litla systir mín. Strákarnir hennar Dúddýar, sem þegar voru heimavanir heima á Álftanesi, tóku mig strax inn í fjölskylduna, en mamma var tíður gestur á efri hæðinni hjá Ingu ömmu þeirra, sem var föðursystir hennar og vinkona.
Þetta rifjast upp fyrir mér þessa dagana, eftir fráfall eins af frændunum mínum, Dúddýjarsonum, ég var ekki bara að missa frænda heldur eiginlega líka fósturbróður eins og þegar bræður hans féllu frá, en einn þeirra var jafnaldri minn og leikfélagi í frumbernsku. Það var einhvern tíma í covid að við hittumst seinast þrjú saman á Kjarvalsstöðum, þá var hann fluttur til Spánar og bróðir hans á Selfoss, en við öll í bænum og áttum yndislegan dag saman að spjalla um allt það sem tengdi okkur fyrr og nú. Sambandið hefur aldrei slitnað og sömu sögu má segja um flesta jafnaldra mína úr stórfjölskyldunni sem ég þakka bara fyrir að hafa alist upp í.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:37 | Facebook