La Palma sögð vera brattasta eyja í heimi
1.4.2019 | 19:47
Þessi eyja er kölluð ýmsum nöfnum, Fagurey (La Isla Bonita) og eyjan græna, en mér finnst áhugaverðast að hún hefur verið kölluð brattasta eyja í heimi, og það er áreiðanlega ekki fjarri lagi. Meira að segja höfuðborg eyjarinnar er snarbrött.
La Palma er norðvestust Kanaríeyjanna og hér er lítil ferðamennska miðað við Gran Canaria, Tenerife og jafnvel Fuerteventura og Lanzarote. Helst er það göngu- og útivistarfólk og farþegar skemmtiferðaskipa sem koma hér við og svo alla vega ein áhugakona um litskrúðug hús (ekki bara bleik). Það er sú sem þetta ritar sem hoppaði upp í ferju, leigði sér furðulega þriggja hæða, þó ekkert stóra, íbúð við strandgötuna á góðu verði og dvelur hér í rúma viku. Áður var pínulítill bar í húsinu og eldhúsið á jarðhæð er barinn lítið breyttur, besta viðbótin er þó þvottavél. Best af öllu er miðhæðin, svefnherbergi/stofa, sem yndislegum gluggasvölum, en svalirnar sem taka hálfa þriðju hæðina á móti aukarúmi og sturtu, eru mjög furðulegar.
Árið 2017 voru skipulagðar ferðir á vegum Heimsferða hingað, en lögðust af eftir eitt tímabil, enda er áfangastaðurinn mjög ólíkur þeim Kanaríeyjum sem Íslendingar sækja til. Ekki veit ég hve margir lögðu leið sína hingað meðan uppá ferðir hingað var boðið frá Íslandi. Hins vegar eru beinar flugferðir á nýlega lengdan flugvöllinn ótrúlega strjálar, í nokkur ár var ein ferð í viku frá hvorri borg, London og Manchester, en nú eru ferðirnar orðnar tvær í viku frá London. Flug frá nokkrum borgum í Þýskalandi, vikulega hver, sýnist mér, reddar því að flesta eða alla daga er flug frá meginlandi Evrópu í boði og vikuleg flug frá Hollandi, Belgíu og Sviss finnast líka. Önnur flug eru innanlandsflug, til Spánar en þó aðallega til annarra Kanaríeyja. Flestir koma hingað hins vegar með ferjunni frá Los Cristianos á Tenerife, aðeins 3ja tíma sigling.
Höfnin í höfuðborginni, Santa Cruz de la Palma, á sér langa og merkilega sögu, því hún var mikilvægur tengiliður við karabíska hafið og Suður-Ameríku eftir ,,landafundina og skapaði mikinn auð á tímabili. Áhrifin frá karabíska hafinu þykja mjög sterk, og litskrúðugu húsin sem heilla mig svo mjög eru gott dæmi um það. Hér er líka talsverð tóbaksrækt í grennd við höfuðborgina, sem er einnig arfur frá þessum tíma.
Eyjan er mjög eldvirk og í raun er stór hluti eyjarinnar eldfjallahryggur. Margir hafa eflaust lesið um dómsdagsspár um að Cubre Vieja, gamli tindur (sem er gígaröð sem tekur um 2/3 hluta syðri hluta eyjarinnar) muni einhvern tíma í náinni eða fjarlægri framtíð springa og valda hamfaraflóðbylgju sem gæti lagt byggð við austurströnd Bandaríkjanna og stendur Evrópu að einhverju leyti, meðal byggða í hættu er New York og London. Skiptar skoðanir eru um hversu raunveruleg þessi hætta er hér og nú. Tvö meinleysislegri gos hafa orðið á síðustu áratugum, 1949 og 1971.
Ég er nokkuð viss um að La Palma er ekki allra, en hún er merkileg fyrir margra hluta sakir og rétt rúm vika ef mjög fljót að líða.