Salt í sárin ... eða verður það: Þetta sagði ég þér

EF núverandi ríkisstjórnarflokkar ákveða í trássi við vilja þjóðarinnar, í trássi við heilbrigða skynsemi og í trássi við hag þjóðarinnar að hanga saman áfram þá held ég að ég verði, enn og aftur, að taka upp litlu dálkana mína, Salt í sárin og ef til vill seinna: Þetta sagði ég þér.

Þannig að:

1. Ef Árni Johnsen neitar að samþykkja fjárlög nema fá göng út í Eyjar, strax, þá skal ég segja: Þetta sagði ég þér!

2. Ef samkomulagið innan ríkisstjórnarinnar verður stirt, þá munu fjölmiðlar vera fljótir að fá einhverja til að segja eitthvað ljótt, sem aftur verður salt í sárin sem urðu til þegar einhverjir þorðu ekki að búa til almennilega ríkisstjórn. 

3. Ef Framsókn heldur enn áfram að tapa í fylgiskönnunum (þið skuluð ekki ímynda ykkur að tími skoðanakannanna sé liðinn) þá verður það enn meira salt í sárin, eftir þessar hrakfarir Framsóknar nú.

4. Ef Kristinn Há Gunnarsson hlakkar yfir því að hafa skipt um flokk tímanlega, þá skal ég bara segja: Þetta sagði ég þér.

5. Ef stjórnarþingmenn fá óvenju mörg dýr og ólógísk kjördæmamál samþykkt næsta haust, þá ætla ég líka að segja: Þetta sagði ég þér.

Ykkur er velkomið að bæta við þennan lista, ég veit að hann getur alveg verið lengri. En andleysi hrjáir mig nokkuð eftir langa og stranga kosninganótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Það verður umfram allt að halda Ólafi Ragnari utan við stjórnmálin. Hann er ógnun við lýðræðið. Það hefur meir en hvarlað að mér að þetta sé ástæðan fyrir þrákelkni Geirs & Co....En, hvað veit ég? Þetta er, þegar allt kemur til alls, þeirra bisniss.

Auðun Gíslason, 15.5.2007 kl. 00:44

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það er reyndar nokkuð líkleg kenning, en ekki sé ég að það leiði til neins skárra en afskipti ÓRG yrðu.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.5.2007 kl. 00:52

3 identicon

Vonandi áttu nóg salt og um að gera að nota það. Pólitísk svöðusár eru sums staðar á pólitískum kroppum núna eftir kosningaskylmingarnar. Þau gróa fljótt, trúi ég, en miklu síður pólitísk legusár stjórnarflokkanna. Það var þó hreint fagnaðarefni að ekki varð af ólukkans kaffibandalaginu. Skikkanlegir og ærlegir félagshyggjuflokkar áttu aldrei að leyfa sér að bjóða kjósendum upp á þann hroða. Korgur hrat þeirra sem kalla sig frjálsynda gerði þennan sopa meira en lítð ólystugan og tilhugsunin um hann gerði vinstri krossinn ögn þungan á kjördag að þessu sinni.

Gangi þér vel í saltinu.

Kristján Sveinsson 15.5.2007 kl. 09:38

4 identicon

Auðvitað vill fólkið áfram mestu velferðar og uppbyggingastjórn í Evrópu. Annað væri glapræði.

Held að það sé lítil þörf á öllu þessu salti:)

Gott blogg samt...

Biggi 15.5.2007 kl. 21:41

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband