Brúna hárið hans Eiríks - mistök í litum
13.3.2007 | 20:34
Heyrði sannleikann í síðdegisútvarpi Bylgjunnar, viðtal við Eirík, það er ekki hægt að kenna myndvinnslunni á myndbandinu um brúna litinn á hári Eiríks Haukssonar heldur eru þetta sorgleg mistök við litun. Inn hringdu hlustendur og ein svona verulega huggandi sem sagðist hafa lent í þessu sjálf, og: Rauða hárið kemur aldrei aftur! sagði hún svo sannfærandi að hrollur fór um mig. En svo fékk ég uppörvandi fréttir frá Ungverjalandi, þar sem lagahöfundur og tveir hljómsveitarmeðlimir eru búsettir ásamt fjölda annarra íslenskra námsmanna: Hárið er dökkrautt! Þannig að enn er von. Þegar ég féll fyrir rauða makkanum mannsins míns fyrir meira en 32 árum þá sagði tengdamamma mín tilvonandi: Það verður svona músarbrúnt eins og á mér! Og viti menn, eftir svona 25 ár var hárið orðið ansi dökkt, en það var líka mild aðlögun. Megi Eiríkur mæta reifur með rauðan makka og frábært lag og sýna að Íslendingar rokka. Við þurfum ekkert endilega að vinna (þótt lag og flytjendur eigi það sannarlega skilið), en það er alltaf gaman að rokka.
Mér finnst líka virkilega gaman að lesa og hlusta á hugleiðingar um víkinginn Eirík sem margir virðast sjá fyrir sér, þar sem ég trúi því (vonandi með sem minnstri sjálfblekkingu) að víkingarnir sem fundu Ísland hafi flestir verið huggulegir og þokkalega friðsamir dugnaðarforkar, konur og karlar, þá líst mér bara vel á það. Og þeir voru að koma FRÁ Noregi, smá hint til Eiríks.
Athugasemdir
krossum fingur fyrir eiríki og þeim danska !
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 13.3.2007 kl. 22:06
Alveg til í það, hef séð þann danska.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.3.2007 kl. 22:25