Ef ég ætti að lesa ...
5.11.2011 | 00:15
Mig minnti andartak að eitt af fjölmörgum ljóðum, eiginlega vísum, sem ég hef dálæti á væri aðeins öðru vísi en það er. Mér fannst sem sagt að þar stæði: ,,Ef ég ætti að lesa, allt sem ég fann til, þyrfti ég lengi að lifa ... " en svo er ekki. Ljóðið, sem er eftir Sigurð frá Arnarholti, er þannig og þótt mér finnist það flott, þá finn ég mig ekki í því að öllu leyti, en það gerir ekkert til:
öllu, sem ég vil,
þyrfti ég að þekkja
þúsund faðma hyl. -
Og ef ég ætti að skrifa
allt, sem fann ég til,
þyrfti ég lengi að lifa,
lengur en ég vil.
En ástæðan fyrir því að þetta ljóð kom upp í hugann er sú að ég er búin að gera mér grein fyrir að ég mun sennilega ekki komast yfir að lesa allt sem ég vil, þótt ég verði bæði eldgömul, heilsuhraust og andlega hress með nothæfa sjón, allt er það markmið mitt. Mér varð nokkuð brugðið þegar ég horfðist í augu við það. Og hvað er þá til ráða? Forgangsraða? Yfirleitt geri ég það í ríkum mæli í tilverunni. Og sumar ólesnar bækur eru í forgangi, tryggir þó ekki að ég lesi þær. Annað sem skiptir líka mál og stangast á við líf forgangsraðarans, það er að leyfa lífinu að hafa sinn gang og taka því vel (eða illa eftir atvikum) sem það hefur uppá að bjóða. Annars gerist aldrei neitt óvænt. Enn annað er að ég ánetjaðist ung spennusögum og þarf minn skammt, með tilkomu lestölvunnar minnar er það aldrei vandamál. Ég er líka alvarlega háð ljóðlestri á köflum. Svo tekur vinnan sinn tíma, tilfinningaskyldan líka, fjölskyldan og vinirnir. Ýmislegt annað. Golfið, skvassið ... Þannig að kannski mun ég ekki komast yfir að lesa allt sem ég vil, en það gerir bara ekkert til.