Framtíðarlandið og hægri grænir á þeysispretti
8.2.2007 | 02:16
Niðurstaða fundar Framtíðarlandsins kom mér ekki á óvart. Stofnað var til þessara samtaka þvert á öll flokksbönd. Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar slík samstaða næst að reyna síðan að draga alla í sama dilk. Tala af eigin reynslu eftir að hafa þurft að yfirgefa samtök sem mér voru mjög kær, af því ákvörðun var tekin um að reyna að draga okkur allar í sama dilk. Enda gekk það ekki upp. Þess vegna er þetta ekki farvegur framboðs sem mér sýnist vera í uppsiglingu á hægri græna kantinum. Ómar Ragnarsson gengur reyndar svo langt á sinni bloggsíðu að boða slíkt framboð og segir meiri líkur en minni nú til þess að af því verði. Ég fylgist með af jákvæðri forvitni og hlakka til að sjá hvort af verður og hvort slíkt framboð verður til að auka áherslu Sjálfstæðisflokksins á umhverfismál (þar er búið að brjóta ísinn). Og eins er auðvitað spennandi að sjá hversu mikill hljómgrunnur er fyrir hægri grænu framboði yfir höfuð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:36 | Facebook