Færsluflokkur: Lífstíll
A,B,C og D fólk, svefnvenjur Íslendinga og ein lygasaga frá London
24.3.2007 | 21:13
Skemmtilegar umræður í ýmsum bloggum um A og B fólk (kannski út af frétt frá Danaveldi í hádegisútvarpinu). Alla vega þá er fólk farið að skilgreina sig sem A, B og D fólk (pólitískur fnykur af stafavalinu) en ég hef í mörg ár skilgreint mig sem C-manneskju. Skrifaði reyndar einu sinni sögu í Vikuna undir dulnefni um stofnun baráttusamtaka morgunsvæfra. Þarf að finna hana einhvern tíma. Kannski fékk ég fyrstu blaðamannavinnuna mína á Vikunni út á þá sögu, veit það ekki, sagan segir reyndar að ég hafi fengið þá vinnu út af sannsögli, ég játaði nefnilega þegar ég sótti um vinnuna að ég væri sjálfmenntuð á ritvél. Helgi Pé, sem þá ritstýrði Vikunni, kom labbandi fram í ritstjórn og sagði: Hér er ein sem er með öll próf í lagi og hefur líka húmor!
En þessi sannsögla manneskja, sem ég reyndar er, enda þýðir ekki annað fyrir fólk sem sést á langar leiðir ef það reynir að ljúga, á sér reyndar eina aðra játningu. Þegar ég bjó 18 ára gömul um hríð í Englandi, þá var ég orðin langþreytt á spurningum um eskimóa, snjóhús og eilífan vetur. Ætlaði að kveða þetta niður í eitt skipti fyrir öll og fór að segja Bretunum nógu yfirdrifnar furðusögur af Íslandi: Þar byggju allir í snjóhúsum, ég byggi t.d. á 8. hæð í igloo-blokk þar sem lyftan gengi bara upp í móti en við renndum okkur alltaf eftir ísrennibraut niður. Á veturna væri samfélaginu lokað, lágmarksþjónusta í gangi, svo sem smá hiti og viðhald nauðsynlegustu tækja og mannvirkja, en allir legðust í dvala, af því það væri mönnum eðlilegt við þessar aðstæður, þegar allt væri dimmt. Svo sparaði þetta svo mikið í ljósum og annarri orku og væri svo umhverfisvænt (þurfti auðvitað að umorða það áður en það orð var fundið upp). Ég komst á þvílíkt flug. Þóttist sanna þetta með því að benda á að nafnið mitt Björnsson, væri algengt á Íslandi, og vísaði til lífsstíls bjarna, sem sagt vetrarsvefns. Og eflaust hef ég sagt fleira, sumrin eru auðvitað vinnutíminn í svona samfélagi og allt það, þið getið bara bætt við sjálf. Af nógu að taka.
Mér finnst reyndar eftir á að hyggja að þetta sé að hluta til bara ekkert svo vitlaust, það er að segja að taka meira mið af því hvernig umhverfið býr okkur lífsskilyrði. Í heitum löndum er t.d. enn tekin siesta á heitasta tíma (að vísu á undanhaldi) og sagt: Only mad dogs and Englishmen go out in the mid-day sun (og Íslendingar). Mér finnst t.d. alltaf svolítið gleymast að hádegi í Reykjavík er um kl. 13:30 þannig að þegar verið er að senda krakkana í skóla klukkan 8 á morgnana þá er klukkan í rauninni 6:30. Og kem ég þá aftur að morgunsvæfa fólkinu ....
Þarfagreining síma og stórkornóttar myndir
24.3.2007 | 01:56
Vinnufélagar mínir hlógu þegar ég var að þarfagreina næsta símann sem ég ætlaði að kaupa, mig vantaði síma með meiri hljómgæðum og aðdráttarlinsu. Þeir gerðu enga athugasemd við kostina sem ég valdi fyrir símann, en hins vegar fannst þeim fyndið að ég skyldi þarfagreina símann. Tek fram að ég vinn hjá hugbúnaðarfyrirtæki.
Svo fékk ég mér nýjan síma, með aðdráttarlinsu og skárri hljómgæðum, sem er gott fyrir manneskju sem hlustaði á Magna gegnum símann syngja uppáhaldslagið mitt til margra ára, Creep. En þetta með aðdráttarlinsuna er blendin gleði, myndirnar verða ansi stórkornóttar í nýju símamyndavélinni, þrátt fyrir það er þetta mikill nytjahlutur og ég tek líklega fleiri myndir á símann en á myndavélina okkar fjölskyldunnar. Mig dreymir vissulega um tæknin verði enn skemmtilegri - svona í anda Ubiquitous computing, ef einhver veit hvað það fyrirbæri er - en á móti kemur að mér er á móti skapi að eyða einhverri formúu í græjur og þess vegna á ég bara grófkornaðan síma. Tilefni þessa pistils er að nú er ég búin að setja inn í nokkrar myndir frá Cambridge ferðinni fyrir nokkrum dögum.
Þráðlaust líf
20.3.2007 | 21:39

Afmæli Loftorku og aðrar myndir úr tilverunni
17.3.2007 | 03:25
Afmæli Loftorku, Reykjavík, að baki, 45 árum fagnað og á morgun, laugardag, verður haldið upp á afmælið hjá Loftorku, Borgarnesi. Meðalaldur verktakafyrirtækja er ekki ýkja hár, en Loftorka hefur siglt í gegnum allan ólgusjó sveiflna á verktakamarkaði til þessa. Margir starfsmennirnir hafa verið um áratuga skeið hjá fyrirtækinu. Tengdaforeldrar mínir, Siggi og Sæa, hafa helgað líf sitt þessu fyrirtæki, lengst af var Sigurður í eldlínunni en þegar hann féll frá fyrir nokkrum árum tók Sæunn við stjórnartaumunum. Margir úr fjölskyldunni hafa unnið alla sína starfsævi hjá Loftorku, aðrir skemur og stundum held ég að ég sé sú eina sem ekki hef gert það, en í staðiinn hafði ég athvarf þar á meðan á ritun sögu Sandgerðis stóð, og það var mjög notalegur tími. Þannig að ég get sagt eins og fleiri að það sé fínt að vinna hjá Loftorku.
Byrjuð að setja inn á bloggið myndir frá afmælinu í dag og stefni að því að setja fleiri myndir inn, en á morgun er það sem sagt Borgarnes sem kallar. Ennfremur skellti ég talsverðum skammti af Kanarí-myndum í myndasafnið, enda held ég að ég hafi verið búin að lofa því einhvern tíma, ef ekki þá hef ég bara efnt ógefið loforð.
Óður til þreytunnar
10.3.2007 | 23:40
Orðin aðeins lúin núna og íhuga að sofa mikið, það er fara snemma að sofa og vakna eins seint og ég kemst upp með. Það er kostur þess að vera þreyttur, þá tekur maður kannski skynsamlegar ákvarðanir, eins og þær að hvílast. Þegar margt spennandi er að gerast í tilverunni hættir mér nefnilega til að vaka og lengi og vakna of snemma = sofa of lítið. Af og til átta ég mig á því að það hefur tekið allt að þrjá daga að reita saman í þennan lögbundna átta tíma svefn sem er víst svo heilagur. Að vísu á Margrét Thatcher að hafa komist af með fimm stunda svefn á nóttu, en ég þyrði ekki að taka áhættuna, sá hvernig það fór með hana, hún breyttist í járnfrú.
Þannig að nú skal sofið, talsverðar skyldur um helgina, bæði vinnutengdar og persónulegar, og ef ég ætla að ná þeim og svefni þá er ekki hægt að hanga hérna bloggandi fram á nótt.
Sem betur fer eru vísindamenn við svefnrannsóknir búnir að staðfesta það sem ég hef alltaf vitað að það er bæði hægt að safna svefnforða (kalla það fyrirbyggjandi svefn) og eins að bæta upp svefn(leysis)syndir. Alltaf mjög gaman þegar einhver vísindi staðfesta það sem maður hefur lengi vitað. ,,Sova kan man gjöra når man blir gammal!" sagði Helen vinkona mín við mig einhverju sinni um fjögur leytið að morgni þar sem við sátum í góðra vina hópi í gamla hverfinu í Varsjá. Við vorum á langri og strangri ráðstefnu og sváfum ekki mikið þá helgina. Og viti menn, það tókst að vinna þann svefn upp á örskotsstundu eftir að heim var komið. Svavar Gestsson sagði eitt sinn klukkan fimm að morgni rétt fyrir jól í mikilli umræðulotu í þinginu: ,,Ég er nú orðinn svolítið leiður á þessari níu til fimm vinnu!" en búið var að setja á nefndarfundi klukkan níu næsta morgun. Og auðvitað var hægt að vinna þann svefn upp líka, en kannski fóru jólin í það ;-)
Alla vega, ætli það sé ekki best að fara að sofa.
Tækni, vit og allir vinirnir
10.3.2007 | 00:40
Dagurinn sem er kominn að kvöldi tók aldeilis óvænta stefnu. Elísabet systir á afmæli og ég hringdi í hana í morgun til að óska henni til hamingju með daginn og líka að tékka á hvort hún væri að halda uppá hann, því ég hef verið sorglega léleg í að mæta í afmæli í fjölskyldunni hennar að undanförnu. Átti uppbyggilegt spjall við talhólfið hennar um stund og tékkaði svo á póstinum mínum. Einn vinnufélagi minn hjá INNN hafði veikst þannig að manna þurfti 4 tíma aukavakt á sýningunni Tækni og vit í Fífunni, en ég hafði einmitt ætlað með mömmu í langt hádegi, þannig að ég stökk á að taka vaktina frá 15-19. Sé sannarlega ekki eftir því. Ég er svo sem ekki búin að skoða sýninguna heldur hélt mig á mínum bás, en þau viðfangsefni sem við vorum að glíma við leystust eitt af öðru og farsællega, sem er alltaf ósköp gaman. Verð á vakt um helgina líka, 2 * 2,5 tíma þannig að ég á eftir að finna tíma til að skoða betur.
Það sem hins vegar setti svip á daginn öðru fremur var að í dag voru eingöngu fagaðilar að skoða sýninguna og þeirra á meðal fullt af vinum og kunningjum úr tölvunördastétt. Þarna var álitlegur hópur skólafélaga minna, fullt af viðskiptavinum, samstarfsfólki og fyrrverandi starfsmönnum INNN. Og gömlu vinnufélagarnir mínir úr Betware fjölmenntu heldur betur. Við vorum þrjú fyrrverandi á þremur nærliggjandi básum og svo stormaði gamla gengið mitt um allt. Afskaplega yndislegt að sjá þau öll, enda eyddi ég næstum fimm árum með þeim flestum og það voru sannarlega góð ár sem ég sakna af og til þótt ég sé ánægð með að hafa fært mig um set yfir í vinnu sem á en betur við mig en sú gamla. Munaði minnstu að ég elti þennan gamla hóp minn á djammið, en var búin að gefa fyrirheit um að skreppa annað um kvöldið ef á þyrfti að halda. Svo varð reyndar ekki, þannig að ég endaði kvöldið eins og ég hafði ætlað mér upphaflega, í skemmtilegu afmælisboði hjá Elísabetu systur og skoðaði myndir úr ferðinni til Kanarí og rak óspart áróður fyrir því að hún mætti aftur með fjölskylduna og nágrannana.
Og ef þið skoðið frétt Moggans (myndbút) þá sjáið þið Ágúst vinnufélaga minn pikka á tölvuna í básnum okkar, með close up af lyklaborðinu, svo ég gefa nú fullnægjandi leiðarlýsingu.
En ég er bráðspennt að skoða sýninguna sjálf, það er það sem ég á eftir óskoðað, sem sagt næstum allt nema vinina.
Baráttan um hurðarhúnana og Ísland í stíl
6.3.2007 | 21:14
Við Ari minn höfum verið að kljást við að innrétta háaloftið okkar, sem hafði safnað drasli í 26 ár, og hentum bróðurpartinum út þar og erum búin að innrétta þar þriggja herbergja vistarverur ásamt geymslukríli. Krakkarnir okkar (28 og 29 ára), sem báðir eru enn í skóla, eru að flytja úr skápunum sínum og í alvöru herbergi af því tilefni. Ýmislegt er ógert og núna þegar draumahurðirnar eru komnar á útsölu í Byko þá þurfti auðvitað að nálgast þær. Fékk þetta fína símtal þegar ég var að borga fyrir klippinguna mína áðan:
- Voruð þið búin að skoða hurðarhúna?
- Já, ég fór með krökkunum að skoða milli jóla og nýárs, en þau eru ekki sammála.
- Eigum við þá ekki að bíða með það?
- Nei, mér finnst að þau eigi að fá að hafa mismunandi hurðarhúna! Það sést ekki einu sinni á milli herbergjanna [háaloftið er eins og húsið alltí vinkil].
- Mismunandi húna! Mér líst ekki á það.
- Nei, engum líst á það nema mér :-(
Í heil 17 ár var ég með opið hús fyrir vini og vandamenn á sunnudagskvöldum og lengst af lagði ég mig fram að vera með mjög litskrúðuga bolla og ekki alla í sama lit. Einn var flöskugrænn og gulur að innan og diskurinn við þá kannski fjólublár. Einhvern tíma varð mér á að láta einhvern gestinn fá bolla og kökudisk aðeins of mikið í ,,stíl" og fékk þessa sármóðguðu athugasemd: ,,Af hverju fæ ég allt í stíl, er þér eitthvað illa við mig?" Seinna komst þetta misræmi í tísku um hríð, þannig að ef til vill á ég eftir að sjá heimili með hurðarhúna sem eru ekki í stíl, einhvern tíma í framtíðnni. Eða ekki ;-]