Færsluflokkur: Menning og listir
Er lokarimman í uppsiglingu? Baráttan milli góðs og góðs (orðs) í fegurðarsamkeppni íslenskra orða
24.7.2007 | 08:20
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook
Fegurðarsamkeppni íslenskra orða: Ljósmóðir og kærleikur nánast hnífjöfn
23.7.2007 | 01:28
Stórtíðindi í fegurðarsamkeppni íslenskra orða á meðan ég skrapp frá í sumarbústað: Kærleikur ýtti ljósmóður úr efsta sætinu. Þetta er í fyrsta sinn síðan keppnin hófst sem orðið ljósmóðir hefur ekki forystu.
Dalalæðan lætur enn undan síga þrátt fyrir dygga stuðningsmenn. Á dalalæðan von um fyrsta sætið eða er hún endanlega hætt í toppbaráttunni.
Og hvað segir stuðningsfólk orðsins ljósmóðir? Á að taka því þegjandi og hljóðalaust að orðið víki úr fyrsta sætinu? Kærleikur er vissulega gott og göfugt orð en hefur þó hlotið smá gagnrýni fyrir að vera of ,,skandinavískt" vegna systurorða í tungumálum nágrannanna. Er það atlaga að þjóðarstolti að skandinavískt orð skuli vera á toppnum eða bara samnorrænn stuðningur?
Spennan magnast. Nú hafa hátt í þúsund manns greitt atkvæði og keppnin enn í fullum gangi. En um leið og þátttakan dalar verður gefinn þriggja daga frestur til að ljúka atkvæðagreiðslunni. Í dag hefur verið lítil þátttaka í fyrsta sinn í langan tíma þannig að kannski líður að lokum þessarar keppni fljótlega, það er undir ykkur komið. það er ekki bannað að smala í kosninguna.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:21 | Slóð | Facebook
Kærleikur tekur stórt stökk upp á við og nálgast ljósmóður í keppninni um fegursta orð íslenskrar tungu
20.7.2007 | 17:30
Viðbrögðin sem ég fæ við fréttinni í sjónvarpinu í gær um fegurðarsamkeppnina okkar láta ekki á sér standa. Og nú er ég farin að heyra í fólkinu sem er ekki á netinu. Auðvitað er flestum það ljóst að lokað hefur verið fyrir tilnefningar, en rétt eins og fleiri falleg orð hafa komið til sögunnar eftir það, þá ætla ég að koma hér að smá innleggi úr símtölum og spjalli:
Lausaleikur, þetta orð nefndi ég í gær, afi minn sem var kvensjúkdóma- og fæðingalæknir á fyrri hluta 20. aldarinnar hafði mikið dálæti á þessu orði vegna þess að það væri svo lýsandi fyrir nákvæmlega þær aðstæður sem gátu komið upp, þegar stúlkur áttu börn í lausa-leik (og honum var sannarlega annt um örlög bæði stúlkna og barna) ... þessar aðstæður sem voru á þeim tíma oft erfiðar. Núna held ég að orðið hafi glatað merkingu sinni miðað við aðstæður í samfélaginu - er einhver lengur að tala um að barn fæðist í lausaleik? Ég verð seint þreytt á að minna á það sem dóttir mín sagði, 3ja ára gömul, þegar við foreldrar hennar vorum að fara að gifta okkur: Nei, ert þú að fara að gifta þig, mamma? En gaman, pabbi líka!
Þá hafði samband við mig maður sem var 52 ára þegar hann eignaðist yngsta barnið og þolir ekki orðið örverpi, sem hann heyrir æði oft. Stingur upp á orðinu kvöldljós í staðinn.
Og kona sem hringdi í mig í gær var að velta fyrir sér hvort þátttakan í keppninni hefði verið bundin við nafnorð. Svo er ekki. Henni finnst sögnin að njóta svo falleg.
Og svo er komin stuðningsyfirlýsing frá ljósmóður við orðið ljósmóðir. Því miður get ég ekki kosið fyrir hana en þessu er komið á framfæri.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook
Magnaðir miðlar - kosning um fegursta orð íslenskrar tungu heldur áfram enn um sinn
20.7.2007 | 08:13
Mér finnst bloggið magnaður miðill. Það sem er svo magnað er ,,gagnvirknin" (hér vantar okkur betra orð - lýsi eftir því ;-). Frá því kosningin um fegursta orð íslenskrar tungu hófst hér á einkafjölmiðlinum mínum sem líkist frekar stofu með fullt af gestum, kunnugum og ókunnugum, sem spjalla saman og koma með skemmtilegar athugasemdir, hefur verið stöðug þátttaka í því góða verkefni að finna fegursta orð íslenskrar tungu.
Í gær blönduðust síðan fjölmiðlar, fyrst Sandkornið hjá DV og síðan sjónvarpið, í málið. Og kosningin, sem var dala, tók stórt stökk upp á við. Magnaður miðill, sjónvarpið, og fréttakonan sem hélt utan um málið hafði skemmtilega og ferska sýn á þetta uppátæki. Tókst alla vega að koma mér á óvart þegar hún spurði hvort ég ætlaði ekki að standa fyrir kosningu um ljótasta orðið ;-) Það mun ég reyndar ekki gera, en fyndin spurning.
Enn leiðir orðið ljósmóðir kosninguna en bilið minnkar stöðugt milli þriggja efstu orðanna og orðið dalalæða sækir fast að ljósmóður, þannig að hver verður að styðja sitt orð. Ég hef látið huggast yfir vandræðunum sem ég var að komast í vegna allra góðu ,,nýju" tilnefninganna. Þessi orð eru ekki týnd, þau verða annað hvort sýnd á góðum stað eða með í næstu keppni.
Hvað á ég að gera við allar nýju tilfnefningarnar í keppnina um fegursta orð íslenskrar tungu?
19.7.2007 | 17:27
Sum ykkar hafið fylgst með þessari keppni um fegursta orð íslenskrar tungu frá upphafi, önnur skemur og sum jafnvel að koma inn á síðuna í fyrsta sinn. Keppnin er komin langt og valið stendur núna aðeins um þau 12 orð sem fengu flestar tilnefningar á meðan tekið var á móti tilnefningum. Nú er búið að loka fyrir tilnefningar, auk þess að eyða nokkrum tíma í að gera upp á milli þeirra 87 orða sem voru tilnefnd tímanlega. Og eftir standa þau 12 orð sem sjást hér í skoðanakönnuninni á vinstri hönd. Endilega veljið ykkar orð, ef þið eruð ekki búin að því.
En ... vandinn er sá að enn streyma inn tilnefningar um flott orð, þær eru orðnar hátt á annað hundrað ef ekki að nálgast þriðja hundraðið. Meira að segja í símtölum koma upp ný orð sem fólk vill koma að, lausaleikur, til dæmis. Og öll þessi glæsilegu orð, hvað á ég að gera við þau? Opin fyrir öllum tillögum. Ég safna þeim alla vega saman. Kannski þarf ég að koma þeim fyrir á vefsíðu og halda aðra keppni. Kannski vilja aðrir aðilar taka við. Fjölmiðlar eru farnir að hafa áhuga á málinu og þetta er áhugaverð glíma við að gera það rétta, sýna öllum orðum fullt réttlæti innan þess lausa og skemmtilega ramma sem bloggið er og verður.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook
Nú eru aðeins 2,5 prósent milli orðsins gleym-mér-ei í fimmta sæti og andvara í fjórða sæti keppninnar um fegursta orð íslenskrar tungu, þannig að vera má að þetta litla blóm sé að blanda sér í slaginn, eftir að hafa komist langt en tapað í keppninni um þjóðarblómið. Ljósmóðir hefur forystu, skammt undan og furðu jöfn eru orðin dalalæða og kærleikur.
Og sumarbústaðarbúinn er fluttur heim, alla vega eina nótt, en í staðinn fór dóttirin uppeftir, þannig að ekki liggja leiðirnar saman enn (þetta er önnur framhaldssaga sem er komin í gang hér á blogginu - munu móðir og dóttir ná saman áður en dóttirin fer aftur til útlanda .... ). Allt í góðu og á sínar skýringar, en það er miklu meira gaman að gefa þær ekki.