Færsluflokkur: Tónlist

Hó, hó, hó, hér kemur Euróvision - spennandi kvöld framundan

Hlakka fáránlega til kvöldsins og treysti því að sigur Hó, hó, hó ... verði innsiglaður með bravör. Veit að það eru til aðrir sem halda með öðrum lögum, aðrir sem fíla ekki fyrirkomulag keppninnar og hef reynar heyrt gott innlegg á síðu hér á blogginu um að skipta þessari keppni í tónlistarkeppni annars vegar og ,,show"-keppni hins vegar (líklega hjá nöfnu).

En ... þetta er svona núna, þetta er keppnin, keppnisfyrirkomulagið og svo auðvitað eina sanna lagið. Hó, hó, hó ...  Kannski á ég ekki sem feministi að styðja lag með Gilzenegger innanborðs, en mér finnst mjög fyndinn húmor að sjá hann spila með einum putta og þvílíka einbeitni í svipnum að aðeins það að tyggja tyggjó samhliða gæti rofið hana.

Spennt fyrir kvöldinu og hlakka til að sjá Barða í viðtölum við erlenda blaðamenn, sem eru ýmsu vanir eftir Silvíu Nótt, en kunna kannski ekki alveg á Barða.  


Ef Stairway to Heaven hefði verið Doors-lag

Enn er ég innblásin af bloggi Kristjáns Kristjánssonar, Kidda rokk, en núna er hann kominn með YouTube af einhverjum metal-hryllingi með Pat Boone. Meðal annars Stairway to Heaven í útgáfu sem minnir á eina af útgáfunum á Stairways to Heaven, þar sem Ástralir eru með alls konar útgáfur af þessu ágæta lagi, sumar eru glæpsamlegar og aðrar bara flottar. Ég ætla að setja inn eina flotta, hugsið ykkur að þetta lag hefði í raun verið Doors lag og hlustið á the Australian Doors Show:

 

Og ég held ég leyfi bítlaútgáfunni að fljóta með líka. Hún er meira fyndin en flott, en samt smá flott líka.

 


Leyndardómar tónlistarsmekksins

Bloggfærsla Kristjáns Kristjánssonar um Johnny Cash fékk mig til að fara út í meiri háttar vangaveltur um tónlistarsmekk fólks. Um tvítugt var ég alveg rosalega þver og þrjósk með afdráttarlausan tónlistarsmekk. asmekkur1155Tilheyrði þeim hluta fólks sem gat rústað partíi með því að koma inn og segja: ,,Uppáhaldssöngvarinn minn er Andy Williams" (djók) ég sannreyndi það, það var hægt að kála heilu partíi með svona andstyggilegri athugasemd.

Með aldrinum hef ég mildast og þroskast. Hlusta á fleira en Stones, Pink Floyd, Zeppelin og Beethoven nú orðið (gerði það líka þá, en þið sjáið línuna).  

Núna langar mig alveg rosalega að kynnast ykkur bloggvinir kærir, með því að fá að vita hver er tónlistarsmekkur ykkar og jafnvel hvers vegna, smekkurinn dugar samt. Kannski skelli ég inn könnun í framhaldi, annars er þessi með Bandaríkjaforsetana ennþá vel virk svo hún er ekki á útleið rétt um sinn. Sjáum til hverjir þora að afhjúpa sig í athugasemdakerfinu. Ég skal ríða á vaðið og segja í stuttu máli hvað ég elska, en þið ættuð að heyra blandið í poka sem ég hlusta á í vinnunni! En hér er svona draumamix fyrir einn klukkutíma eða svo - mjög tilviljunakennt val augnabliksins: Creep með Radiohead, Guttavísur með Hundi í óskilum (ný útgáfa af Whiter Shade of Pale), One með Johnny Cash, sálmurinn með Bubba, Ho, ho, ho (Barðalagið í Eurovision), Ungversk rapsódía nr. 2 eftir Liszt (hljómsveitarútgáfa), Little red rooster með Stones, Dolphins cry með Magna, Satisfaction með Björk og PJHarvey, California Girls með Leningrad Cowboys og kór Rauða hersins og Bongo song með Safri Duo. 

 

 


Áfram Björk!

Ætlaði nú ekki að blanda mér í umræðuna um Björk, en ég get ekki orða bundist. Er nefnilega ekki sammála ummælum pabba hennar í fréttaþætti í gær, þar sem hann gaf í skyn að Björk fengi harðasta dóma hér á Íslandi og mesta böggið. Ég efast ekki um að það er ástæða fyrir þessum ummælum hans og virði það. Hins vegar held ég að þorri þjóðarinnar sé að springa af stolti út af Björk, eigi sér uppáhaldslög með henni (fyndið, ég var einmitt nýbúin að setja lög af YouTube hér á bloggið mitt þegar umræðan byrjaði, og tvö ar þremur voru með Björk, engin tilviljun!). Það má ekki taka mark á einhverjum örfáum leiðindapúkum sem kannski eru með leiðinlega öfund eða illvilja, svoleiðis er alltaf til en óþarfi að gefa því of mikið vægi.

Björk er dáð og elskuð hér á landi og hananú! Hún hefur ekkert verið að eltast við lögnmollu í tónlist og ekki er allt sem hún flytur nein dinnermúsík, var einmitt að heyra Declare Independence á Rás 2 og mér finnst bara æði að heyra þetta frekar tormelta en flotta lag sem ,,mainstream" spilun. Frá því hún var aðalnúmerið í Rokk í Reykjavík, kasólétt utan á VERU, að taka á móti verðlaunum og leika í myndum og fram til nýjasta túrsins hennar um allan heim þá hefur hún verið í sviðsljósinu. Frekar að fólk hafi verið að pirra sig á Einari Erni á Sykurmolatímanum (mér finnst hann reyndar æði). Og hverjum er ekki sama um einhverja hysteríska papparassa í Nýja Sjálandi? Ég held að Brit útnefningin veki alveg eins mikla athygli, þótt það sé hversdagslegri atburður þegar Björk á í hlut að hún sé útnefnd til æðstu verðlauna en að hún slái frá sér. 


Nokkur ótrúlega ólík snilldarlög - og Eiður rokkar líka

Eins gott að ég dett ekki oftar í að gramsa á YouTube, alltaf að finna gersemar þar. Ég er enn á því að Rolling Stones hafi sýnt flottustu taktana þegar þeir voru hvað blúsaðastir, og var einmitt að finna eitt af mínum uppáhaldssönnunargögnum þar um, Little Red Rooster, eldgamalt Stones lag, videó-ið er líka snilld. Njótið vel. 



Reyndar finn ég ekki annað ,,little red" lag með Stones, sem ég á einhvers staðar á tölvu, en án myndbands, það er Little Red Riding Hood. Stones útgáfan er miklu betri en Sam the Sham-útgáfan. Þarf að hafa upp á henni.

Svo datt mér í hug að þarna væri líka að finna mjög fáheyrt lag með Björk og PJ Harvey, Stones-tengt líka, það er þeirra útgáfa af Satisfaction, sem er alveg ótrúlegt. 



Loks er það lag sem sjaldan heyrist með Björk, Short Term Affair, ég leitaði dauðaleit um alla London að laginu, hafði bara heyrt það í Ríkisútvarpinu, og mundi ekki þá að ,,hinn" söngvarinn var Tony Ferrino en hafði pata af að um einhverja góðgerðartónleika væri að ræða. Fann diskinn og núna líka á YouTube, afsakið samt hláturinn í áheyrendum, þetta lag er betra án hans, en þetta verður að duga. 



Og núna er Eiður Smári að rokka með Barcelona, skoraði fyrsta markið í leiknum sem er verið að sýna. Varð bara að nefna það í leiðinni.

One með Johnny Cash

Johnny Cash léttir ýmsum lífið og ég á mér ákveðið uppáhaldslag með honum sem hélt mér í góðum gír í próflestrinum (ásamt ýmsu öðru) áður en pestin lagði mig að velli. Leyfi fleirum að njóta, en ekki vænta mikilla tilþrifa myndrænt séð:

 



Kostur að þekkja U2 útgáfuna til samanburðar.

Brúðkaupsveisla á Trollhaugum eftir Grieg

Af því ég er í Grieg gírnum núna þá er best að deila með ykkur svolítið skemmtilegri reynslu af YouTube, saxafón- hljómsveitarútsetning af veislunni á Trollhaugum, ef þið eruð ekki of viðkvæm fyrir hljómgæðum þá mæli ég með að hlusta á þetta.

Annars eru margar skemmtilega útsetningar, aðallega hefðbundnar píanóútsetningar, af þessu meistarstykki á YouTube. Fínir listamenn, sem sumir segjast vera amatörar. Kannski ég láti verða af því einhvern tíma að læra eitthvað annað en Schlaf, Kindlein, Schlaf á píanó, en það lag kenndi Dolinda konan hans pabba mér. En varðandi Brúðkaupsveisluna á Trollhaugum:. Kynntist því reyndar fyrst í flutningi eðalsveitarinnar Náttúru í Glaumbæ forðum og ánetjaðist alvarlega. Sem sagt rokk og klassík geta verið góð blanda en popp og klassík stundum aftur á móti alveg skelfileg, alla vega Richard Chamberlain (hann heitir eitthvað svoleiðis) útsetningar sem valda alvarlegum hrolli.


Sveiflast öfganna á milli í tónlistarhlustun

Dottin í smá klassískt tónlistarflipp þessa stundina. Skrýtið hvað tónlist hefur sterk áhrif, alla vega á mig. Hef aldrei verið virk sjálf í tónlistariðkun, en þeim mun ákafari hlustandi. Þetta klassíska skot kom þegar ég heyrði að 100 ára ártíð Grieg væri um þessar mundir, nagaði mig í handabökin að hafa ekki drifið mig á sinfóníutónleika þar sem hann var í brennidepli, en bætti það upp með því að tína fram þá diska sem ég fann með Grieg og finna restina á netinu. Fín tónlist og í framhaldi eru nokkrir aðrir klassískir diskar komnir á borðið við hliðina á mér.

Svo sit ég í Megadeth bolnum mínum og hlusta. Margt reyndar skylt með þungarokki af hörðustu gerð og klassík, flottar melódíur og mikill kraftur. Svo datt ég í smá rapp-fíling eina nóttina, ætla að dusta rykið af Rolttweiler og rímum og rabbi við tækifæri og ég er meira að segja farin að hlusta á laugardagslögin eftir Hó, hó hó-ið um daginn, en ekki af mikilli innlifun, enda fíla ég aðallega hó, hó-lagið, ekki hin, en það eru innan um alveg þokkaleg lög þó.

Málið er að það er hægt að skapa sér svo mismunandi andrúmsloft með tónlist og þessa dagana þegar ég læri og vinn mest í stofunni með fjölskylduna og sjónvarpið á fullu í kringum mig, þá dett ég inn í eigin heim á milli þegar eitthvað stórkostlegt hljómar í eyrnaskjólunum (head-phonunum) en uppi í vinnuathvarfinu mínu eru þessi fínu (gömlu) hátalarar mínir sem eru í notkun þegar ég vil láta fleiri njóta.

 


Bubbi töffari og Stuðmenn með lítið fyndna stæla

Bubbi Morthens var bara hreinlega kóngurinn á tónleikunum sem við vorum að fylgjast með í sjónvarpinu, með tónlistina í botni, þar til Stuðmenn byrjuðu með hljóðgervlastælana sína og tókst að slátra hverju snilldarlaginu á fætur öðru. Arrrggg það hefur einhver (Jakob) orðið vitlaus á tökkunum á hljóðgervlunum og skipað Agli að syngja millirödd í öllum lögunum. Svarti Pétur jaðraði við að vera í lagi, en þvílíkir stælar og ekki fyndnir. Ef þeir voru að reyna stæla Leningrad Cowboys þá var það mjög mislukkað (rússneskt lag og þýsk þýðing á öðru þekktu lagi). Synd að rústa annars frábærum tónleikum, en Bubbi var alla vega æði. Og reifst ekki síður en á góðum Þorláksmessutónleikum. 


Hvað tónlist getur breytt öllu (líka því sem sólardagarnir breyttu)

Rétt áðan var ég að láta skýin rugla mig í ríminum en svo lenti ég á frábærum konsert á bloggi nöfnu minnar (anno) og það glaðnaði aðeins til. Mundi allt í einu eftir lagi sem ég setti inn á hitt bloggið mitt og verð eiginlega að koma á framfæri fyrir unnendur rapps frá Chile: Tiro de Gracia! 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband