Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Oft var þörf fyrir BÍP - en nú er nauðsyn. Köllum Ólaf Stefánsson heim

Einhvern veginn er þetta með æðruleysið ekki að virka hjá Geir og því sting ég uppá liðsauka. Hvernig væri að kalla Ólaf Stefánsson heim og láta hann leiða uppsveifluna okkar, sem okkur er svo ljómandi nauðsynleg? Oft var þörf fyrir BÍP en nú er nauðsyn, og svo þarf auðvitað að gera allt hitt líka, endurskipuleggja bankana, greina atburðarásina, læra af mistökunum (fer maður að heyra Ísland úr EES?) og fyrst og fremst að gæta hags þeirra sem mest þurfa á því að halda - og gera það í alvöru.

Kveðja úr (ó)villta westrinu til hins fullkomlega villta norðurs - það er erfitt að trúa fréttunum

Frekar villtar fréttir frá landinu mínu, forsætisráðherra þarf lífverði og Bretar telja að ekkert dugi á Íslendinga annað en lög gegn hryðjuverkum. Úff. Hér rölta menn með kúrekahatta í fullri friðsemd, mér skilst að vísu að þeir séu aðeins gjarnari með byssurnar handan fylkismarkanna í Texas. Og svo er þetta allt EES að kenna, grensulausa ,,útrásin".

Skrapp í hraðbanka og náði mér í nokkra ódýra dollara af debetkortinu, það virkar svo langt síðan maður fékk dollarann á hundraðkall, en eftir að hafa borgað reikningana í morgun var ekki hægt að spara neitt umtalsvert ;-)


Vinsamlegast látið mig vita hvernig þetta fer ...

Ótrúlega einkennilegt að vakna snemma á morgnana hér í New Mexico, eins og ég hef gert að undanförnu, og lesa allar fréttirnar að heiman, þar sem komið er vel fram yfir hádegi. Þetta er svolítið seinlegt, en óhjákvæmilegt. Kíkja svo í heimabankann (Glitni ennþá) og borgar sínar skuldir, kíkja á gengið og komast að þeirri niðurstöðu að best sé að treina dollarana sem ég tók út á flugvellinum 2. okt. aðeins lengur, þótt ég sé ekki áhyggjufull, þar sem ég er komin í hinar fullkomnu nurlarastellingar, þá vil ég heldur ekki haga mér heimskulega. Það væri heimskulegt, ekki satt? Í faðmi rosalega umhyggjusamrar fjölskyldu minnar hér væsir reyndar ekki um mig, síður en svo. Hef smá móral af því að vera ekki heima til að sýna samkennd, en ég geri það gegnum netið með ýmsum hætti í staðinn.

En mér leikur forvitni á að heyra hvað þið, kæru bloggspekingar, haldið að gerist á næstunni. Svo oft er búið að ,,leysa" málið og svo í seinustu kvöldfréttum er það borið til baka og í morgunfréttunum ríður holskeflan yfir, um ellefu leytið er stundum betra hljóð í mannskapnum en um þrjúleytið (allt að ykkar tíma) frekar dauft hljóðið, skárra eftir fjögur og svo aftur sama hringinn. Svo sem sagt endilega látið mig vita hvernig þetta fer:

Hvert verður gengi dollara og evru þegar allt róast?

Mun einhvern tíma ,,allt róast"?

Ef allt róast einhvern tíma, hvenær verður það?

Fáum við rússneska lánið?

Í gær ætluðu allir að hjálpa okkur, í dag eru allir vondir við okkur, hvort verður ofan á, eða blanda?

Og, þótt spurningarnar að framan séu í smá hálfkæringi, þá er þessi sett fram af mikilli alvöru: Hvernig verður hægt að hjálpa þeim sem fara verst út úr þessu, missa atvinnu og eiga ekki fyrir skuldunum?


Ef ég væri góð í mér myndi ég vorkenna McCain núna, en ...

Er að verða nokkuð vongóð um að Obama muni vinna öruggan sigur eftir mánuð. Það sem er ánægjulegast er að byrinn sem hann hefur fengið í seglin er ekki síst tiltrú fólks á því að hann sé sá sem getur tekist á við þá efnahagserfiðleika sem við er að glíma. Var í góðu yfirlæti hjá Annie systurdóttur minni að horfa á kappræðurnar í kvöld og mér líkaði margt mjög vel. Mér líkaði vel hvað Obama mundi oft eftir því að það er til veröld fyrir utan Bandaríkin, sem þarf að hafa samstarf við en ekki bara að líta á sem vígvöll, að heimurinn okkar þolir ekki kæruleysi í umhverfismálum og að ef einhverjir eiga að bera skattbyrðar þá eru það hinir ofurríku.

Reyndar sló það mig nokkuð hvað McCain var lélegur, Obama þurfti raunar ekki á því frjálsa framlagi hans að halda, hann hefði sigrað kappræðurnar engu að síður, þannig að ef ég væri nú reglulega góð í mér, þá hefði ég vorkennt McCain í kvöld, en ...


Sagan endurtekur sig - við höfum áður þurft að ,,leita nýrra vina"

Sé það rétt að það verði rússnesk lán sem komi þjóðarbúinu nú til góðs þá er það ekki í fyrsta sinn sem NATO-þjóðin Ísland fær (óvænta) fyrirgreiðslu úr þeirri átt. Um 1952 ætluðu Bretar að knésetja okkur vegna útfærslu landhelginnar en þá opnuðust sumum að óvörum nýjir markaðir í Sovétríkjunum og ekki varð að knésetningu um sinn. Við sjáum hvað setur núna, enn skilst mér að fuglinn sé ekki í hendi heldur kannski tveir í skógi, en verði þetta niðurstaðan þá mun hún án efa verða talin áhugaverð og vonandi hagfelld okkur. Sé nú þegar að vangaveltur um þetta útspil eru komnar í gang, einkum um sérstöðuna sem þessi staða gæfi okkur í fjármögnun meðan aðrir hafa getað leitað í aðra sjóði, sem virðast okkur lokaðir.


Samtaka þjóð getur rétt úr kútnum furðu fljótt

Búin að heyra í fólkinu mínu heima og það var alla vega mjög gott, skrýtið að fylgjast með á færi, en ég er búin að fylgjast nokkurn veginn linnulaust með útsendingum á netinu auk þess að vera á msn með fjölskyldunni og heyra í þeim í tölvusíma, þægilegt fyrirkomulag. Mér finnst gott að heyra hvað allir heima eru rólegir og satt að segja er fólkið mitt hér í New Mexico áhyggjufyllra en heima. Annie systurdóttir mín og kærastinn hennar Andy komu aukaferð hingað til þess að sjá hvort það væri allt í lagi með mig, og Nína systir fór aukaferð í næsta hús til að sækja síma til að nota við tölvuna sína svo ég gæti hringt heim án þess að setja nokkurn mann á hausinn. Eftirminnilegur afmælisdagur hjá henni, og gott að við vorum svona duglegar að vinna í gærkvöldi, smá fréttaófriður í dag.

Þetta er persónulegt fyrir allar fjölskyldur, fyrst þarf að fullvissa sig um að allir séu rólegir og líði sæmilega vel. Vonandi er tími andvaraleysis og blekkinga að ganga yfir og tími samtakamáttar og samvinnu að ganga í garð. Til þess þarf nákvæmlega það sem verið er að gera: Inngrip og ábyrgð - mér fannst athyglisvert að heyra að norska pressan fékk íslenskan sérfræðing (gott ef það var ekki Vilhjálmur Árnason heimsspekingur) til að segja það sem allir eru að hugsa: Þetta er ábyrgð 20 gálausra manna. Viðkomandi var í ágætu viðtali í síðdegisútvarpinu og þegar fréttamaður spurði hvort hann gæti lesið upp listann sagði hann að flestir vissu hverjir þetta væru. Gott og vel, en núna er bara kominn tími til þess að snúa vörn í sókn, og að allir fái að komast að árunum og leggjast SAMAN á árarnar.


Vona að allir beri gæfu til að bregðst (loksins) rétt við

Ekkert meira um það að segja í bili.

Undarlegt að vera hér í New Mexico og hlusta á Geir, Steingrím J. og alla hina

Þetta hlýtur að vera undarleg afmæli fyrir hana Nínu systur, að sitja hér á þeim morgni, sem við erum að upplifa meðan þið hin eruð að upplifa þetta óvenjulega svarta síðdegi heima á Íslandi. Af hverju það er svona skrýtið að vera fjarverandi frá fjölskyldu okkar og vinum get ég ekki skýrt, en við erum hér þétt saman, systurnar, og munum hafa samband við fólkið okkar í tölvusímanum fljótlega, fyrst er að hlusta og trufla ekki aðra.


Jamm, og svo er eg ekki að gleyma Biden og Palin

Horfði a seinni hlutann, eða liklega meginhlutann af varaforsetaprogramminu i sjonvarpinu. Biden var flottur og fjolmiðlar her eru allir a einu mali. Hins vegar virðast margir svekktir yfir að Palin skuli ekki hafa kluðrað sinum hluta, og eru að visa til fyrri viðtala við hana. Vildi bara tekka mig inn i malið, kannski mun eg eitthvað koma vid a kosningaskrifstofum Obama i New Mexico meðan eg verð til taks, fyrst Nina systir og Annie systurdottir min eru a fullu að vinna fyrir hann. Sjaum til.


Andartaki áður ... og eftir

Skrýtið að sjá svona eftir á eitthvað sem maður hefur orðið vitni af, án þess að gera sér grein fyrir því.

Var að aka Suðurlandsbrautina frá Hallarmúla milli fjögur og fimm og ætlaði að beygja niður Reykjaveginn og sneiða hjá mestu síðdegisumferðinni með því að fara niður á Sæbraut. Rétt áður en beygjuljósin komu á kom hvellur og bylmingshögg á bílinn og ég sá að bíllinn á undan kipptist við. Þegar við beygðum niður Reykjaveginn var þar allt í örsmáum glerbrotum á báðum akreinum og út á tún. Rauður, óbrunninn bíll í maski á akreininni á móti með manni inní, skelfingarsvipur á andliti, og hvítur lítill sendiferðabíll (væntanlega björgunarmaðurinn) líka eitthvað laskaður, aftar, við hringtorgið, tvær konur sýndist mér að koma úr enn öðrum bíl. Allt sást þetta í sjónhendingu á meðan við, nokkrir bílar, renndum framhjá, og eldur var alls ekki farinn að loga svo sæist frá okkar sjónarhorni.

Það tók mig nokkurn tíma að fullvissa mig um að þetta atvik væri það sama og ég sá sýnt frá í sjónvarpinu. Staðsetningin fer ekki á milli mála og vera kann að eldur hafi verið kominn upp þá þegar, en ég sá hvorki reyk né eld. Hins vegar var mér enn hálfbrugðið eftir kraftinn í sprengingunni og furðaði mig á því hvernig þessi árekstur (sem þetta virtist vera) hefði orðið svona mikill og samt aðallega laskað einn bíl. Og skelfingarsvipurinn á manninum í rauða bílnum líður mér seint úr minni, það er guðsþakkarvert að maðurinn, sem ég býst við að hafi komið úr hvíta bílnum, var þarna staddur því eldurinn hlýtur að hafa blossað upp, af þessum krafti sem myndirnar sýna, rétt eftir að við renndum hjá. Úff. Gott að allt fór vel.

En núna ætla ég að reyna að koma mér aftur í bloggfrí, það ætlar að ganga svolítið illa þegar svona mikið af stórtíðindum af mismunandi toga koma á sama degi.


mbl.is Gaskútur sprakk í bifreið - vegfarandi vann hetjudáð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband