Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skýr skilaboð hjá Framsókn, en breytist eitthvað?

Framsóknarmenn hafa sent skýr skilaboð til síns fólks: Breytingar eigi síðar en nú! Eftir mjög undarlega niðurstöðu í Evrópumálunum sem hefur verið súmmeruð einhvern veginn svona upp: Við skulum sækja um aðild en setja skilyrði sem ekki er hægt að uppfylla, ekta já, já, nei, nei stefnu, gerist loksins eitthvað óvænt í herbúðum helsta afturhaldsins. Erfðaprins gömlu flokksforystunnar (Halldórs Ásgrímssonar og co.) kemst ekki einu sinni í aðra umferð, en tveir menn sem eru á móti ESB aðild en þora ekki að vera á móti aðildarviðræðum í orði alla vega, komast í aðra umferð. Í svefrofum pestarinnar sem ég ligg í missti ég að vísu af því þegar Höskuldur var lýstur formaður, en það verður eflaust endurtekið í fjölmiðlum. Og niðurstaðan var heldur ekki sú, mjótt var á munum en niðrustaðan þó ágætlega skýr, formaður framsóknarflokksins er maður sem er nýgenginn í flokkinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Að vísu af rótgrónum framsóknarættum, en hvað með það, það eru margir.

Nú er bara spurningin, breytist eitthvað. Þessi framsóknarmaður er alla vega ekki eins og margir hinna gömlu, en það eru hins vegar þeir sem sitja eftir á þingi, endurnýjunin sem orðið hefur vegna afsagna hefur enn ekki skilað neitt breyttri umræðu og ég held að raunverulegra breytinga sé ekki að vænta nema kosið verið á nýjan leik - strax! Sonur minn hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði: Kannski verður bara hægt að vinna með Framsókn (þá væntalega eftir næstu kosningar). Við erum auðvitað jafn vinstri græn eftir sem áður og barnmerkið góða: ,,Aldrei kaus ég Framsókn" í fullu gildi. Hér er svo youtube-skotið sem kom Sigmundi Davíð á kortið - önnur góð ábending frá syni mínum, þetta hefur alveg farið framhjá mér en gaman að láta fljótameð:


En ef þetta reddast nú kannski ekki?

Eins og (margir) aðrir Íslendingar fékk ég gamankunna tilfinningu í magann í haust, svona innan um undrunina, pirringinn og hneykslunina: Þetta reddast.

Það er ekki fyrr en núna á seinustu vikum, þegar ég sé hvaða svik og prettir hafa verið í gangi og hversu alvarlegar afleiðingar andvaraleysi stjórnvalda eru að ég er farin að hugsa: En ef þetta reddast nú kannski ekki?

Búin að mótmæla, blogga, hugsa, sjá fullt af skemmtilegum lausnum: Frystingu lána til að gefa fólki grið til að hugsa, nýsköpunarstyrki, ókeypis vinnuaðstöðu fyrir fólk með frjár hugmyndir (NB fólk sem er að drepast úr peningaáhyggjum er kannski ekki með svo frjóar hugmyndir, þess vegna þarf að frysta lán og gefa grið. Hér er einfalt system sem á endanum myndi ábyggilega koma út með hagnaði: Fyrir hverja krónu sem hafa ,,týnst" (að okkur er sagt tímabundið), verið afskrifaðar, horfið eða verið stolið af hálfu hinna ógeðslega ríku er afskrifuð króna af skuldum okkar hinna. Jibbí, þetta væri nothæft og myndi enda með miklu betra samfélagi grósku og nýsköpunar. Er ekki alltaf verið að segja okkur að þetta sé baraí bili, en í raun séu eignir á móti mestöllum skuldum banka og bankamanna? Það sé bara tímaspursmál hvenær þetta verði innheimt! Á meðan þarf að láta einhverja peninga vinna, er það ekki lausnarorðið að leyfa þessu peningum að vinna. Það var það alla vega á meðan þeir sjúklega ríku áttu þá.

Vissulega hefur sprottið mjög góð umræða upp um stjórnskipulag og möguleika á breytingum á því. Ég er hins vegar ekki að sjá að nokkur skapaður hlutur sé að fara að gerast í þeim málum. Sorrí!

Urrr! (Og svo er einhver pest að anga okkur í ofanálag, mér finnst að Ísland ætti að vera ,,flu-free-zone" á meðan þessi leiðindi ganga yfir.


Hárrétt skref utanríkisráðuneytis

Margt er furðulegt við þessa frétt og ég veit ekki hvort það er til siðs að tilkynna fyrirvaralausar heimsóknir til að reyna að lappa uppá orðsporið þegar heimurinn er að ranka við sér (að hluta) og fordæma aðgerðirnar. Viðbrögð utanríkisráðuneytisins eru auðvitað hárrétt, svo langt sem þau ná.
mbl.is Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppreisn í Sjálfstæðisflokknum?

Landsamband Sjálfstæðiskvenna á greinilega meiri samleið með okkur vinstri grænum og utanríkisráðherra en eigin flokki og ályktun gegn árásum Ísraelsmanna á saklausa borgara á Gaza er þeim til mikillar sæmdar að mínu mati.

Það leynist ekki nokkrum manni að mikil ólga er í Sjálfstæðisflokknum nú í kjölfar landsfundar. Hver hefði trúað því að sveitarstjórnarmaður Sjálfstæðismanna myndi skrifa á xd vefinn grein þar sem hann veltir því fyrir sér af fullri alvöru hvort það sé dragbítur á framboði hans og félaga hans í Sjálfstæðisfélagi sveitarfélagsins að tilheyraSjálfstæðisflokknum. Merkileg grein:

xd

 

 

 

 

 

 

 

 

 

... og við vitum öll að þetta eru ekki einu dæmin um ólguna í Sjálfstæðisflokknum.


mbl.is Sjálfstæðiskonur fordæma árásir á Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

PIRR!

Get ekki að því gert - ég er pirruð! Ef það er rétt að ástandið sé að versna þá óttast ég að ekkert muni verða gert - rétt eins og í tragíkómedíunni sem við fylgdumst með í haust, þegar allt var í himnalagi þar til við sáum safn af steinhissa stjórnmálamönnum með þrjá fallna banka og yfirlýsingarglaðan seðlabankastjóra. Ég hef áður á þessari síðu vísað til leikritsins: Biedermanns og brennuvarganna. Mögnuð samsvörun, eins og þeir vita sem þekkja verkið.

Líka pirruð yfir því að tilheyra kynslóðinni sem kannski verður svipt lífeyrisgreiðslum og horfir kannski á eftir henni í svínarísslóð Stórríks og skunkanna sem honum fylgja. Vissulega er ég af þessari sömu kynslóð sem nurlaði fyrir sparimerkjum í bernsku og fékk út andvirði hálfs frímerkis, fékk fyrstu verðtryggðu lánin sem voru upphaflega greidd með hálfum mánaðarlaunum í afborgun tvisvar á ári en enduðu með næstum þrennum! (þetta var á tíma misgengisins fræga).

Dóttir mín var þriggja eða fjögurra ára þegar hún fór með okkur fjölskyldunni að heimsækja Stínu frænku sína í Hrauneyjarfossum, en lenti í að aka gegnum eldgos (það er gjóskuna) á bakaleiðinni. Næst þegar halda skyldi til Stínu, sem þá var flutt til byggða eftir sumarvinnu fjölskyldunnar, sagði sú stutta: - Æ, nei, ekki til Stínu, ég nenni ekki eldgos

Mér er svipað innanbrjósts, ég nenni ekki að taka þátt í þessu rugli, en á ekkert val ef ég vil halda áfram að vera Íslendingur. Mér líkar ekki kuldi, finnst álver heimskuleg atvinnustefna, þoli ekki hálku, finnst langir vinnudagar ekki skynsamlegir, lítið hrifin af roki, elska hlýja golu, stutta og snarpa vinnudaga og ekkert hangs en samt elska ég Ísland, fegurð landins er ótrúleg gjöf sem við ættum að sjá sóma okkar í að varðveita! Afsakið þetta pirr, það er í boði ríkisstjórnarinnar.

28. apríl 2007 4.


Troðfullt á fróðlegum fundi Heimssýnar

Geysigóð mæting á fróðlegum fundi Heimssýnar áðan. Erindi Peters var fullt af vel studdum staðreyndum og verður fljótlega hægt að nálgast það á síðum Heimssýnar: www.heimssyn.blog.is og/eða www.heimssyn.is
mbl.is ESB myndi stjórna hafsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymum ekki Gaza

Hryllingur fer um mig við nýjustu fréttirnar frá Gaza. Fátt annað sem ég get sagt annað en að við megum ekki gleyma því sem er að gerast á Gaza, hversu brýn mál sem eru úrlausnar hér heima.

Smá Murphy í viðbót - en samt hef ég trú á þessu ári!

Þá er það bara smá Murphy í viðbót. Skuggalega vel við hæfi, sumt alla vega. Það er allt í lagi að vera með smá bölmóð svona í upphafi árs, en til að fyrirbyggja misskilning þá vil ég taka það fram að ég hef fulla trú á þessu ári. Kosningaár, sem sagt, það er alltaf gott. Ef þetta verður ekki kosningaár verð ég alla vega illa svikin.

En hér er Murphy vinur vor:

Lögmál Van Herphen:

Lausinin að því að leysa vandamál felst í því að finna einhvern sem getur leyst vandamálið.

Lögmál Baxters:

Villan í forsendunum finnst í niðurstöðunum. 

Fyrsta lögmál McGee 

Það er undravert hversu langan tíma tekur að leysa viðfangsefni sem ekki er unnið í. 

Lögmál  Ruckerts:

Ekkert vandamál er svo smátt að ekki sé hægt að missa það fullkomlega úr böndunum. 

Lögmál Biondis:

Ef verkefnið sem þú ert að vinna í er ekki að virka, skoðaðu þá þætti sem þér fundust lítilvægastir.

Lögmál Allen:

Nánast allt er auðveldara í að komast en úr að sleppa.

Lögmál Young um hreyfanleika kyrrstæðra hluta:

Allir kyrrstæðir hlutir geta hreyfst nógu mikið til þess að verða í vegi fyrir þér. 

Regla Fahnestock um mistök:

Ef þér mistekst í fyrstu atrennu skaltu eyðileggja öll ummerki um að þú hafir reynt. 

 

 

 


Blendnar tilfinningar í lok mótmælaárs

Eitt er víst, sjaldan í sögu lýðveldisins hefur verið eins mikil ástæða til þess að mótmæla. Og sem aðgerð var sú framvinda sem varð í dag mjög eftirminnileg. Þótt ég sé argasti friðarsinni er samúð mín meiri með mótmælendum en Stöð 2 að þessu sinni. Sé það líka rétt að frumkvæði óeirðalögreglu (er það ekki sérsveitin?) hafi verið jafn mikið og þessi frétt gefur til kynna þá er ábyrgðin auðvitað þar að hluta. Lögreglunni hefur lánast að gera margt vel á viðkvæmum tímum og ég tel að Stefán Eiríksson og Geir Jón reyni sitt besta og leiði þar hóp lögreglumanna sem væru meðal mótmælenda eða eru það kannski, ef þeir eru ekki að sinna skyldustörfum.

Á þessu ári hef ég tekið þátt í fjölmörgum mótmælum, öllum friðsömum. Jafnframt hafa mér ekki komið þessar róstur sem orðið hafa neitt ýkja mikið á óvart. Stór hluti þjóðarinnar er búinn að fá nóg af andvaraleysi stjórnvalda, lítilsvirðingu við þjóðina og þjónkum við útrásarvíkingana sem allt settu á höfuðið.

Ég hef líka setið í pallborði Kryddsíldarinnar og reynt mitt besta að koma stefnu minna ágætu stjórnmálahreyfingar sem ekki er lengur við lýði, Kvennalistans, á framfæri. En í grunninn er ég ekkert rosalega hrifin af stjórnmálaforingjaþáttum. Þótt þetta sé auðvitað rosalega vinsæll vettvangur til þess að gera upp árið, þá var þess ekki að vænta að þöglir og afskiptalausir stjórnmálamenn (flestir hverjir, ég undanskil Steingrím J. ennþá) myndu segja mikið meira en þeir hafa verið krafðir um að undanförnu og þagað þunnu hljóði. Geir komst ekki inn, en átti einhver von á að hann færi allt í einu núna að segja þjóðinni það sem hún vill heyra: Já, við ætlum að efna til kosninga!

Hörður Torfa kjörinn maður ársins á Stöð 2 - ákveðin skilaboð þar, ekki þó þau sem mér heyrist að Sigmundur Ernir er borinn fyrir (vonandi ranglega) að halda að mótmælin séu að undirlagi samkeppnisstöðvarinnar - kommon, sjálfhverfa fjölmiðla er mikil en er þetta ekki einum of!

Gleðilegt ár og vonandi gefast færri ástæður til þess að mótmæla á nýju ári, heldur verður boðað til kosninga.

 

 


mbl.is Mótmælin áttu að vera friðsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árið þegar lögmál Murphys rokkaði kvatt - gleðilegt ár!

Ég lærði lögmál Murphys á þessa leið: Allt sem getur farið úrskeiðis gerir það - á versta hugsanlegum tíma. Jamm, það er nú það. Var árið sem er að líða ekki einmitt ár Murphys? Þess vegna var það talsverð búbót að fá inn á heimilið bók stútfulla af ýmiss konar afbrigðum þessa lögmáls, eða réttar sagt öll hin lögmálin sem kennd eru við ýmsa snillinga. Ég hef nú ekki komist djúpt í hana enn, en mun vonandi bæta úr því á nýju ári. Set þó nokkur gullkorn inn og minni á að innst inni er ég samt ennþá bjartsýnismanneskja - gleðilegt ár:

Almenna óöryggislögmálið:

Kerfi hafa tilhneigingu til að vaxa og um leið og þau vaxa leitast þau við að flækjast.

Útfærsla:

  1. Flókin kerfi leiða til óvæntrar útkomu. 
  2. Endanlega hegðun stórra kerfa er ekki hægt að sjá fyrir.

Setning: Kenning um ómögulegar viðbætur í hegðun kerfa.

Stórt kerfi sem skapast þegar lítið kerfi er þanið út heldur ekki hegðun litla kerfisins. 

 

Sextánda lögmál kerfa:

Ef byggja á flókið kerfi frá grunni virkar það ekki og ekki er hægt að lappa uppá það. Það verður að byrja upp á nýtt og einfalda kerfið. 

 

Regla Breda:

Þeir sem eiga innstu sætin í röðinni mæta seinast. 

 

Lögmál Jensens:

Það er sama hvort þú vinnur eða tapar, þú tapar.

 

Spakmæli herra Cole:

Summa gáfna á jörðinni er fasti - og íbúum jarðar fer fjölgandi! 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband