Allt er vænt sem vel er Vinstri grænt
29.11.2024 | 14:28
Trú mínum pistli frá í gær ætla ég að kjósa það stjórnmálaafl sem mér er kærast af þeim sem nú eru í boði, Vinstri græn. Við höfum oftast átt samleið og gildi hreyfingarinnar eru mín gildi, ekki síst kvenfrelsi, jafnrétti, félagslegt réttlæti og efling byggðar um allt land.
Kosningarétturinn er ótrúlega mikilvægur og ég vona að sem flestir láti eigin sannfæringu ráða hvaða stjórnmálastefnu þeir kjósa að styðja, ekki eitthver önnur atriði. Hef heyrt mikið um að svokallaðar taktískar kosningar eigi það til að koma í bakið á fólki og það er varla neitt voðalega gaman. Meiri samúð hef ég með fólki sem upplifir að engu stjórnmálaafli sé treystandi og ,,þessir stjórnmálamenn" séu allir eins. Því get ég alla vega lofað að svo er ekki og verður áreiðanlega aldrei. Það að allir vilji sækja í að komast til valda er vinsæl skoðun, ef einhver er staðinn að því að vera ekki tilbúinn að gera hvað sem er til að komast í valdastóla er viðkomandi afgreiddur sem óstjórntækur eða áhættufælinn. Það upplifðum við í Kvennalistanum þegar ætlast var til að þau samtök kæmu í einhvers konar stjórnarsamstarf, en þegar ákveðnar réttlætiskröfur voru settar fram af hálfu okkar, þá vorum við ,,ósveigjanlegar".
Lengst af valdatíma stjórnar VG, Sjálfstæðismanna og Framsóknar voru hægri sinnuðustu stjórnarþingmennirnir kvartandi yfir því að VG væri að valta yfir Sjálfstæðismenn og réðu öllu. Innan VG þótti mörgum hins vegar að áhrif okkar væru ekki nógu mikil. Áhrifin sem stjórnmálasamtök hafa eru ekki alltaf augljós. Margt af því sem VG hefur gert gott hefur lítið verið til umræðu, en skiptir máli. Mikilvæg skref hafa verið stigin í kvenfrelsismálum, því hef ég vel fylgst með en á öðrum jafnréttissviðum eru aðrir hæfari til að dæma. Mig langar að vitna í þungavigtarmanneskju á sviði jafnréttismála fatlaðra. Þuríður Harpa Sigurðardóttir hefur verið ein ötulasta talskona öryrkja seinni árin. Það kom samt mörgum að óvörum þegar hún tók sæti á lista VG núna fyrir kosningarnar. Hún segir í grein á Vísi: ,,Vinstri græn settu fram áherslur í ríkisstjórnarsamstarfinu um virðingu fyrir mannréttindum fatlaðs fólks þar sem markmiðið var að bæta lífskjör og lífsgæði þessa hóps og unnu markvisst að því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði innleiddur og lögfestur. ... Mikil ábyrgð fylgir því að taka ákvarðanir um líf, heilsu og framfærslu einstaklinga. Tækifæri þeirra til samfélagsþátttöku og sjálfsagðra réttinda. Ég upplifði að bæði fyrrverandi forsætisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra vönduðu sig, og í snúnu samstarfi með öðrum stjórnarflokkum náðu þau að sigla þessu stóra máli í höfn."
Eftir á að hyggja held ég að Sjálfstæðismennirnir sem höfðu áhyggjur af því að Vinstri græn hefðu mjög mikil áhrif innan ríkisstjórnarinnar hafi haft töluvert til síns máls. Fyrir mér er það hins vegar ekki áhyggjuefni, heldur gleðst ég yfir því.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook
Kjósum með kærleik, hvar í flokki sem við erum
28.11.2024 | 15:10
Mér rennur til rifja hversu mikið hefur verið af heift og hatri í kosningaumræðu í öllum kosningum ársins. Samfélagsmiðlar, sem ég er almennt mjög ánægð með, eru því miður svo mengaðir af þessu að jafnvel varfærnustu stillingar geta ekki varið mig lengur fyrir þessari daglegu, dapurlegu lífssýn. Hvernig líður þessu fólki sem hefur þörf fyrir að úthúða öðru fólki og skoðunum þess með orðbragði sem sýnir sorglegan veruleika? Sannarlega er þetta ekki í fyrsta sinn í sögunni sem ómálefnaleg hatursorðræða grípur um sig, en það er engin skýring, hvað þá afsökun.
Aðeins ein ósk fyrir kosningar helgarinnar, kjósum með kærleik og sannfæringu, þau framboð sem við finnum mestan samhljóm með, og látum ekki þessa heift (annarra) ná tökum á okkur.
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Vatnslitafélagið - árleg sýning og ævintýri
15.11.2024 | 15:16
Árleg sýning Vatnslitafélagsins er alltaf ákveðið ævintýri, bæði fyrir okkur sýnendurna og gestina. Sýningin, sem var opnuð í gær og stendur til 7. desember, er að margra mati sú besta sem félagið hefur haldið, eða svo var að heyra á gestunum í gær, og ekki bara af því þeir eru svona kurteisir. Alltaf spennandi að senda inn myndir, af 172 innsendum myndum komust 62 myndir eftir 45 manns gegnum síu dómnefndarinnar sem að vanda var skipuð góðum íslenskum og erlendum listamönnum. Þótt myndirnar séu gríðarlega fjölbreyttar eru yfirbragð sýningarinnar furðu heildstætt. Þemað í ár eru árstíðir og ég get aldrei varist því að hugsa til þess sem landamæravörður í Singapore sagði eitt sinn við mig: Iceland, do you have seasons there? Mogginn fjallaði myndarlega um sýninguna í gær á baksíðu. Þá umfjöllun (smellið á myndina til að fá hana skýrari) og smá svipmyndir af sýningunni og uppsetningu hennar set ég hér með þessum litla pistli.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook
Valkvæð fortíðarhyggja
20.10.2024 | 17:23
Fyrst: Afsakið tilgerðarlega fyrirsögn, nostalgía eftir hentugleikum bara gekk ekki, en er samt það sem ég meina.
Mér finnst gaman að ferðast á nýja, áhugaverða staði, en líka að koma aftur á staði sem eru mér kærir. Hins vegar eru þeir fleiri staðirnir sem ég hef komið til og ekkert langað neitt sérstaklega að koma aftur á. Á fyrrnefndu stöðunum leyfi ég mér að reika um gamlar slóðir, sumar hafa ekkert breyst, aðrar tekið hrikalegum breytingum og ekki alltaf til batnaðar. Þess vegna hef ég komið mér upp þessari valkvæðu fortíðarhyggju.
Fyrir 2-3 árum fór ég að finna fyrir ákafri löngun til að komast aftur til Granada og skoða Alhambra-höllina, sem ég sá seinast þegar ég var barn að aldri. Í tvígang hef ég reynt að koma þeim túr inn í þéttskipaða dagskrá Córdoba-heimsókna, en aðeins eins og hálfs tíma lestarferð er á milli þessara fallegu borga. Reynslunni ríkari pantaði ég miða í Alhambra-höllina með einhverra vikna fyrirvara þegar ég brá mér til Spánar um daginn, en enn á ný var einhver þú-skalt-ekki-skoða-Alhambra púki á kreiki. Fleiri en eitt olli því að ekki varð af Alhambra-heimsókn enn um sinn, en miðinn sem fór forgörðum var ódýr. Datt í hug að tékka síðar sömu viku og þá var aðgöngumiðinn orðinn meira en tíu sinnum dýrari. En það var einmitt af því að ég pantaði miðann ódýran með góðum fyrirvara að ég komst ekki í þetta sinn. Mér hafði láðst að reikna með því að allar lestir frá Málaga til Granada væru uppbókaðar daginn áður en ég ætlaði að leggja í ferðina, og fyrsta rútan sem var laus kom of seint á staðinn. Þá stóðu mér tveir kostir til boða, að taka skertan túr í höllina góðu eða skoða Granada í skínandi fallegu veðri, en það hafði ég ætlað mér að gera í leiðinni. Sé ekki eftir því vali, alger dýrðardagur. Og svo held ég áfram að reyna þrátt fyrir óhóflegan túrisma.
Grandadaheimsókn nú og fyrr:
Þegar hér er komið sögu er rétt að geta þess að þegar ég var 6-7 ára bjó ég um hálfs árs skeið á Spáni með mömmu, ömmu og í lokin Ólafi fóstra mínum líka. Yndislegar minningar og krónísk löngun í hlýjar slóðir. Þegar heim var komið tók við skólaganga, nýir vinir, ný áhugamál og Carmen vinkona mín og páfagaukurinn Bíbbi voru bara hluti af fortíð sem ég hugsaði sjaldan til. Þrátt fyrir þetta hef ég ekki sótt sérlega mikið til meginlands Spánar fyrr en allra seinustu ár og þá aðallega á nýjar slóðir. Gömlu slóðirnar eru nefnilega óþekkjanlegar. Árið 1959 vorum við mest sjö útlendingarnir samtímis í Torremolinos, og þangað kom ég ekki aftur fyrr en í dagsferð fyrir örfáum árum og tengdi engan veginn. Hins vegar leist mér sérlega vel á Málaga, sem ég kíkti á í sama skottúr og ákvað að kynnast betur. Við fórum sjaldan til Málaga þegar við vorum í Torremolinos, gerðist þó svo fræg að fara á nautaat og man enn að upphitunarnautabanarnir voru með gular og bleikar dulur, en aðalnautabaninn með rauða. Mamma las Andrés-blöðin mín meðan á leik stóð og ég horfði spennt á leikinn. Skrapp í dagspart til Torremolinos, nánast fyrir kurteisissakir, í nýliðinni ferð, og tengdi ekki, en bara gaman samt.
Torremolinos fyrr og nú:
Málaga olli mér ekki vonbrigðum í þessari ferð minni, né heldur Granada.
Þess má geta að ég kom við í London á heimleiðinni. England er mér alltaf kært eftir hálfs árs búsetu þar þegar ég var 18 ára að gera mislukkaða tilraun til að hætta í MR. Staðirnir sem ég elska í London eru ekki mínir gömlu staðir, síður en svo, en á alltaf taug til hennar og stað í hjartanu.
Þú verður að ... nei, alls ekki!
13.9.2024 | 00:18
Fyllist alltaf alvarlegum efasemdum þegar einhver (stundum æst og) örugglega rosalega velviljuð manneskja byrjar setningar sínar á: ,,Þú verður að ..."
Nei, ég verð ekkert að, þótt þessi einstaklingur segi það. Eftir að ég ánetjaðist vatnslitamálun heyri ég stundum þessa setningu: ,,Þú verður að mála eitthvað á hverjum degi!" Þetta getur verið rétt fyrir þessa tilteknu einstaklinga, en örugglega ekki fyrir alla. Það merkilega er að þeir sem segja þetta eru alls ekki það fólk sem er hæfileikaríkast af þeim vatnslitamálurum sem ég hef verið svo heppin að kynnast. Engu að síður grunar mig að einhverjir þeirra lifi eftir þessu, meðvitað eða af tilviljun. En þeir hafa látið mig í friði fram til þessa. Stundum er eitthvað sem knýr mig til að vatnslita á hverjum degi, jafnvel oft á dag, en á milli koma mislöng tímabil sem ég læt það vera.
Annað eldra dæmi (og náskyld yngri útgáfa af því) er setningin sem ég heyrði oft rétt eftir að ég hryggbrotnaði eftir að hafa dottið af hestbaki. ,,Það er ekki hægt að vera í hestamennsku nema öll fjölskyldan sé með." Rangt, það er vel hægt. Vissulega elskaði ég hestamennsku á unglingsárum, áður en ég lenti í slysinu, og var svo lánsöm að vera heimagangur hjá Heidi á Bala, fá að fara á reiðnámskeið og í ótal hestatúra með hestaleigunni, ef ekki var fullt í hópunum. Átti minn uppáhaldshest, hann Prins, og þetta voru góðir tímar. Skikkaði aldrei foreldra mína með mér. Þegar ég hætti útreiðum á fullorðinsárum, eftir slysið mitt, þá var það aldeilis ekkert vont fyrir fjölskyldulífið. Meðan börnin voru ung (þau urðu aldrei hestafólk) var meira að segja bara fínt að einhver væri heima að líta til með þeim, meðan minn maður var í reiðtúr. Einna mestur atgangur var í einstaklingi sem hældi sér fyrir að koma börnum sínum aftur á hestbak eftir sérhverja byltu, sem voru grunsamlega margar. Held að ekkert barnanna hafi heillast á endanum og ekki tryggði þessi lífsspeki hjónaband foreldranna heldur, sem samanstóð af einstaklingi sem elskaði hestamennsku og maka sem ég held að hafi ekki haft mikinn áhuga á henni. En ,,það var ekki hægt að vera í hestamennsku nema öll fjölskyldan væri með."
Þegar ég byrjaði í golfi fyrir rúmum áratug heyrði ég einstaka sinnum sama sönginn, en hafði lært af reynslunni og datt ekki í hug að skikka eiginmanninn, sem elskar enn hestamennsku og hefur engan áhuga á golfi, til að vera með mér í þeirri iðkan. Ég verð nefnilega ekki að ... né heldur hann, eða neitt ykkar, frekar en þið viljið.
Gallerý Grásteinn á Skólavörðustíg 4 setur skemmtilegan svip á bæinn. Skólavörðustígurinn er falleg gata og sem betur fer eru listagallerí enn áberandi hluti af götumyndinni og fallegasta húsið við götuna (að mínu mati) hýsir einmitt téð úrvalsgallerí, ennþá. Því miður virðist það vera að breytast og önnur starfsemi væntanleg í húsið. Góðu fréttirnar eru að galleríið heldur áfram í húsnæði skáhallt á móti núverandi húsnæði. Vondu fréttirnar eru að þar verður ekki sýningarsalur, eins og í núverandi húsnæði.
Eftir ófáar ferðir á sýningar í sal Grásteins og reglubundið snuðr í búðinni góðu var ég orðin nokkuð vel kunnug þessu listamannarekna galleríi. Var staðráðin í að fá einhvern tima að sýna í salnum góða á efri hæðinni, því fallegri sýningarsal gat ég ekki hugsað mér. Eins og ein gallerískvenna orðar það svo skemmtilega: ,,Salurinn tekur svo vel utan um sýningarnar." Af einhverri rælni hafði ég samband við forsvarsfólk gallerísins á vormánuðum og hafði þá í huga að tryggja mér salinn einhvern tíma á næsta ári, því yfirleitt líða svona 18 mánuðir milli sýninganna minna, þegar ég er á annað borð að sýna. Fann strax á loðnum svörum að áhöld voru um sýningarhald á næsta ári og þegar mér var boðið að fá septembermánuð fyrir sýninguna mína stökk ég strax á það og sé ekki eftir því. Snemmsumars voru enn viðræður um framhaldið en þeim lyktaði þannig að þessari öflugu listastarfsemi í húsinu lýkur senn. Og þar með langri sögu lista og menningar í húsinu. Mín sýning verður líklega sú næstseinasta í þessu húsi.
Myndirnar með þessari færslu eru frá sýnikennslu Íslandsvinarins Vicente Garcia fyrr í sumar, en galleríið er hans heimahöfn á Íslandi. Aðrar eru frá yfirstandandi sýningu minni í galleríinu og sýna vel hvað salurinn er fallegur, og svo ein af ytra byrði hússins.
Vissulega er ég glöð yfir því glópaláni að detta í hug að hafa samband einmitt á réttum tíma. Mér finnst samt afleitt að geta ekki haldið áfram að koma á góðar sýningar í þessu fína húsi, en óska auðvitað gallerísfólkinu allrar velgengni á nýja staðnum. Það er svo sannarlega ekki því að kenna að svona fór, því ekki stóð á því að teygja sig eftir þörfum til móts við kröfur leigusala. Sé sá orðrómur réttur, sem ég hef heyrt um hvað á að koma í staðinn í þetta hús, líst mér afleitlega á það. En tíminn mun leiða í ljós hvað er að gerast, en kannski ekki hvers vegna.
Hef ekki áhyggjur af því að götumyndin neðst á Skólavörðustíg breytist ýkja mikið, ef ný starfsemi fer að lögum varðandi friðun hússins, sem hér má skoða: https://www.minjastofnun.is/is/byggingararfur/fridlyst-hus-og-mannvirki/skolavordustigur-4 en hvað með sálina? Hún hefur sannarlega verið nærð með listum og listiðnaði sem hefur átt skjól í húsinu. En ekki meir, ekki meir.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook
Saklausi smyglarinn - 2. hluti flugvallaævintýra
16.8.2024 | 23:06
Lofaði víst að halda áfram með flugvallaævintýrin mín þegar ég setti fyrsta ævintýrið (nýlegt) í loftið. Nú er komið að því að segja frá því hvernig er hægt að vera sárasaklaus smyglari sem tollurinn tekur.
Held þetta hafi byrjað þegar ég fór með krakkana mína til Sikileyjar þegar þau voru þriggja og fimm ára. Við höfðum farið í skemmtilega fjallaferð til þorpa í hlíðum Etnu ásamt fleiri Íslendingum og allir höfðu annað hvort keypt sér flösku af möndlulíkjör eða, það sem mér finnst sennilegra, verið gefin ein slík. Mér finnst alla vega ólíklegt að ég hefi keypt eina svoleiðis, nema ef ég hefði verið svona yfirkomin af kurteisi og ekki kunnað við annað. Þetta var eina ferðalagið mitt ein míns liðs með ungu börnin okkar, var í skyldufríi vegna leikskólalokunar og veðrið hér heima ömurlegt, spáin ekkert betri. Ákvað að ferðast aldrei aftur ein með ung börn, sama hversu þæg þau voru. Svo þegar við komum gríðarlega þreytuleg eftir alllangt flug að tollhliðinu, sé ég ekki að á hillu fyrir ofan tollarana eru áreiðanlega eitthvað á annað tug af flöskum, í fallegri röð, með möndlulíkjör! Ég var auðvitað með eina flösku enn, en tollararnir sáu aumur á þessari meintu einstæðu móður með börnin og hleyptu okkur í gegn, með flöskuna. Það hefði samt verið gaman ef þeir hefðu gómað mig og fundið flöskuna, það var nefnilega eina áfengið sem ég tók gegnum tollinn þetta síðkvöld og því í fullum rétti að flytja þennan dísæta (og frekar vonda) líkjör til Íslands.
Nokkrum árum síðar vorum við Ari minn á ferð um Evrópu og á Ítalíu ákváðum við að eignast flösku af Sambuca, aðallega til að geta boðið upp á það með eða án flugna. Þessi tegund var sjaldséð á Íslandi þá. Við bjuggum rosalega vel um flöskuna svo anislyktin færi ekki í öll fötin okkar, áttum drjúga leið framundan þegar frá Ítalíu var komið og eins gott að passa flöskuna. Og við vorum svo sannarlega gripin, taskan gegnumlýst, Sambucað afhjúpað og það var kominn svolítið hróðugur svipur á annan tollarann þegar hinn sagði hrikalega vonsvikinn: Líttu í fríhafnarpokann þeirra! Þar var ekkert áfengi að finna og Sambuca fór til landsins og var mun vinsælla en möndlulíkjörinn sálugi.
Er mjög sjaldan tekin úr röðinni þegar ég kem til landsins og fer gegnum tollinn. Eftir næstum mánaðardvöl hjá systur minni í Bandaríkjunum rétt eftir hrun var ég með óvenju mikinn farangur, hvað sem svo olli því, jú, ég var víst að klára að vinna handrit af Sandgerðissögu í þetta sinn. Og ég var tekin afsíðis. - Ertu með eitthvað dýrt með þér, spurði tollararnir? - Eh, ég keypti fölbláan silkijakka á son minn, það er líklega það dýrasta, sagði ég eftir smá umhugsun, svona til að bjóða upp á eitthvað. Ekki vakti það áhuga þeirra og ég stoppaði stutt hjá tollurunum í þetta sinn. Svo þegar ég var komin í gegn og heim og búin að láta fjölskylduna fá það sem ég hafði keypt handa henni, tók málið nýja stefnu. Ég lét soninn fá einhvern smápakka sem hann hafði fengið að senda til Nínu systur og ég tók að mér að taka með heim. Eitthvert illfáanlegt stykki í ljósmyndavél. - Lentir þú nokkuð í vandræðum með að koma þessu inn í landið? spurði sonur minn varlega. - Nei, hefði ég átt að gera það? Reyndar stoppuðu tollverðirnir mig. - Ja, þetta er svolítið dýrt stykki, sagði hann vandræðalega. Mér krossbrá þegar ég heyrði verðið, verðmætið eflaust ekki minna en sex fölbláir silkijakkar. En það bara vissi ég ekki og kannski er þetta eina raunverulega smyglsagan sem ég hef á samviskunni.
Straubretti, ferðalög og fleira
15.8.2024 | 17:30
Á mörgum heimilum eru enn til straubretti þótt sú iðja að strauja sé ekki í forgangi hjá því fólki sem ég umgengst mest. Auðvitað man ég skemmtilegar sögur úr fortíðinni, eins og þegar eina frænka mín sem studdi sko alls ekki kvennafríið 1975 (þótt það væri bara kallað ,,frí") ætlaði að strauja allar skyrturnar mannsins síns, tvisvar, þann daginn. Eða þegar vinkona mín fékk starf í London 1970 sem ,,Mothers help" sem var næsta stig fyrir ofan ,,Au pair", ögn meiri laun og miklu meiri vinna. Á því heimili þurfi hún sko að strauja allar skyrtur bóndans á heimilinu þótt straufríar væru og nælonskyrtur að auki (vona að enginn mun eftir þeim hryllingi í búningasögunni).
Tók fram straubrettið áðan, sem var innarlega í þvottahúsinu, og á meira að segja í óopnuðum pakkningum annað sem fer í húsið sem við erum að gera upp, það er til að hengja upp á vegg og taka út með einhverju hókusi-pókusi. Þótt ég ætli að enda með því að strauja alla vega fallegar silkislæður í treflaformi, sem ég hef fallið fyrir á ferðalögum, þegar ég fatta að það er líka hægt að verða kalt í hálsinn á suðrænum slóðum, var aðalerindið þó að fá gott vinnuborð af því nú eygi ég tíma til að vatnslita eftir eril seinustu daga. Og komum við þá að ferðalögunum ...
Fáir gististaðir eru svo aumir að þar sé ekki að finna straujárn og straubretti. Gleymið straujárninu. Þar sem ég ferðast frekar praktískt, gisti sjaldan á dýrum gististöðum, eru herbergin mismunandi stór. Reyni yfirleitt nú orðið að stoppa meira en næturlangt á gististöðum og koma mér vel fyrir þótt ég sé oftast ekki mikið á hótelunum á ferðalögum. Ef herbergin eru lítil eru straubrettin alveg feikilega nýtileg, til að leggja fötin sín yfir á kvöldin, hafa það innan seilingar sem þarf, stundum betri tölvuborð en þau sem ætluð eru til þess, séu þau til staðar. Og ég tala ekki um þegar ég er að skrifa lengri ritgerðir (MA, MS) eða bækur. Hversu oft ætli ég hafi ekki spennt upp straubrettið mitt uppi í sumarbústað eða á skyndiskrifstofum erlendis og lagt frá mér gögn og einstaka kafla furðu skipulega. Straubretti má líka hækka og lækka, afbragðsgóð fyrir aukaskjái við fartölvuna, þá þarf ekki að dröslast milli staða með sólstólana sem ég nota til að hækka fartölur og skjái. Er farin að ferðast æ oftar aðeins með tösku sem passar undir sæti í flugvélum og þá munar alveg um sólstólinn.
Mín hagnýtu ferðaráð eru kannski ekki við hæfi allra, en ef ein manneskja getur notað sér þetta ráð og hefur ekki dottið það í hug sjálfri, þá bara vessgú!
Í vor skrapp ég í dagsferð frá Bologna til Fabriano á Ítalíu. Þetta var bráðskemmtileg rútuferð um fallegar slóðir, bæði meðfram austurströnd Ítalíu og gegnum fjallahéruð, um þriggja stunda ferð hvora leið. Smá tafir í upphafi merktu að dvölin í borginni var aðeins fimm og hálfur tími og dagskráin þétt. Við ferðalangarnir vorum öll stödd í Bologna vegna stórrar alþjóðlegrar vatnslitasýningar sem við flest tókum þátt í. Dagskráin fyrir sýnendur, námskeið, sýnikennsla ýmissa listamanna og fleira fór að mestu fram í Bologna, en sýningin sjálf var á tveimur stöðum í Fabriano og þar gafst okkur líka kostur á að skoða og prófa sjálf pappírsgerð. Um leið og ég kom í þessa fallegu, 30.000 manna fjallaborg, var mér ljóst að hér væru einstök tækifæri til að þjálfa sig í útimálum (plein air, eins og það er kallað á vatnslitsku og öðrum listamállýskum). Gamli bærinn bauð upp á einstök mótív, en eftir pappírsgerðina, smá kaffipásu og að skoða sýningarnar stóru komst ég að raun um að ég hefði aðeins 10 mínútur til að reyna að fanga eitt mótív, sem ég gerði í litla vatnslitablokk á aðaltorginu (þar sem sumir úr hópnum höfðu fórnað einhverju úr dagskránni til að ná sér í aukakorter til málunar). Hugmyndin blundaði í mér, hingað verð ég að komast aftur og gefa mér tíma til að mála.
(Myndirnar sjást í meiri gæðum ef smellt er á þær).
Mér var ljóst að Fabriano er þekkt fyrir pappírsgerð og gladdist yfir að hafa fengið smá tækifæri til að prófa handtökin við hana. Einnig að borgin er Handverks- og alþýðulistaborg UNESCO. En þó aðallega að hún er ævintýralega falleg. Svo var það af einstaklega heppilegri rælni að ég sá að Facebook-vinkona mín úr covid-fjarvinnu-vatnslitahópi á WhatsApp hafði birt áskorun til okkar vatnslitafélaga sinna út um allan heim að mæta á Vatnslita-tvíæring í Fabriano. Þetta var á fyrstu dögum yfirstandandi júlímánaðar og hún hvatti okkur til að vera mætt 12. júlí. Ég var mætt að kvöldi 9. júlí. Eins og gefur að skilja var ekkert einfalt að finna réttu flugferðirnar né bóka gistingu, alla vega ekki fyrir konu eins og mig sem sjaldan hefur geð í sér til að bóka slíkt á allt of dýru verði. Ferðaðist ákaflega létt til Fabriano, enda leiðin þangað um Róm og svo þrjár kvöldlestir. Ákvað að taka með mér uppáhaldspensla en kaupa liti og bakka á staðnum (eftir smá skilaboðasamskipti við listavöruverslun staðarins). Þakkaði mínum sæla þegar ég sá að engan leigubíl var að hafa á brautarstöðunni upp úr miðnætti, né svör við síma/skilaboðum. Undirsætistaskan mín rúllaði með mér um sléttar gangstéttar fyrsta spölinn, bakpokinn var tekinn upp úr henni til að létta töskuna, svo ég gæti auðveldlega haldið á henni þar sem ósléttar, steinlagðar götur tóku við og buðu varla upp á neitt slíkt rúllerí. Fabriano var gullfalleg í kvöldbirtunni og hálftíma göngutúr bara hressandi og mikið til niður í móti í þessum hæðótta bæ.
Margir óvissuþættir eins og eðlilegt var þegar lagt er í svona ferð í skyndingu. Sýningarnar fimm með nokkrum hundruðum vatnslitaverka, átti strangt til tekið að opna á laugardagskvöldi kl. 19, en síðasta lestin til Rómar fór 20:52. Hana varð ég að bóka þar sem morgunlestirnar fóru of seint fyrir flugið mitt. Auk þess var nákvæmlega enga gistingu að hafa í Fabriano einmitt þessar tvær nætur, laugardags- og sunnudags, væntanlega vegna tvíæringsins. Þessar fjórar nætur sem ég gisti í bænum þurfti ég bara að færa mig einu sinni milli gististaða, sem var út af fyrir sig bara gott. En skemmst er frá því að segja að sýningarnar voru tilbúnar degi fyrir formlega opnun og ég fékk að skoða þær allar í miklum rólegheitum og var meira að segja tekið nokkuð persónulega vel, því sú sem setti upp sýninguna stóru sem ég tók þátt í fyrr á árinu, mundi eftir hlut okkar Íslendinganna á sýningunni og af því mín mynd skar sig svolítið frá hinum, þá mundi hún meira að segja eftir henni.
Farbriano-dvölin var dásamleg, ný mótív á hverju horni í gamla bænum, gul veðurviðvörun (vegna hita) plagaði mig engan veginn og ég náði að mála allmargar myndir á staðnum, rissa upp fleiri og grunna eina. Ein fór í ruslið, eins og gengur. Þetta var dásamlegur tími í stórbrotnu umhverfi og allt gekk eins og í sögu. Dönsku vatnslitafulltrúarnir höfðu sagt mér hvar besta kaffið í bænum væri að finna, í fyrri ferðinni, og það voru góðar upplýsingar. Seinni myndasyrpan sýnir svipmyndir úr þessari ferð, en ég hvet ykkur til að finna fleiri upplýsingar um þessa yndislegu smáborg með smá flettingum á netinu. Um sýningarnar (fimm talsins) á þessum vatnslitatvíæringi má nánar lesa hér: https://www.facebook.com/FabrianoWatercolour
Rétt er að geta þess að sýningarnar fimm standa út septembermánuð og þær eru svo sannarlega skoðunarinnar virði.
Konan sem var tekin í vopnaleit í Amsterdam - 1. hluti flugvallaævintýra
28.6.2024 | 23:48
Sem betur fer fyrir okkur öll er flug (nú orðið allavega) orðið enn öruggari ferðamáti en fyrrum, og hefur þó alltaf verið mjög öruggt, samanborið við akstur mishæfra viðvaninga (okkar bílstjóranna) á misgóðum vegum. Eitt af því sem tryggir þetta er góð vopnaleit. Hér er saga sem sannar hversu góð hún er, svona að mestu leyti.
Fyrir rúmum mánuði var kona tekin í vopnaleit á Schiphol-flugvelli í Amsterdam. Eflaust gerist það nokkrum sinnum á dag, en þetta var í fyrsta sinn sem téð kona lenti í þessu. Hún hafði ætlað að laumast um borð í Dreamliner-vél TUI í 10 tíma flug til Karabíska hafsins vopnuð skærum, sem hún hafði reyndar ekki hugmynd um að leyndust í handfarangri hennar. Þegar upp komst sótti hún það fast að vopnið yrði gert upptækt, en það var bara hlegið að henni og henni sagt að halda áfram svona þungvopnuð. Þegar í áfangastað var komið og konan gat ekki stillt sig um að taka mynd af vopninu fann hún í fórum sínum, einnig í handfarangri, hníf og hann fékk að vera með á myndinni, en það vekur spurningar hvernig það vopn komst í gegnum vopnaleitina.
Eins og lesendur grunar ef til vill er ég þessi þungvopnaða kona og sannast sagna rifjast aðrir válegir flugvallaviðburðir upp í framhaldi af þessu einkennilega ævintýri. Reyni að gera því skil í 2. hluta flugvallaævintýranna. Þar verður fjallað um saklausu smyglarana.