Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2024
Saklausi smyglarinn - 2. hluti flugvallaævintýra
16.8.2024 | 23:06
Lofaði víst að halda áfram með flugvallaævintýrin mín þegar ég setti fyrsta ævintýrið (nýlegt) í loftið. Nú er komið að því að segja frá því hvernig er hægt að vera sárasaklaus smyglari sem tollurinn tekur.
Held þetta hafi byrjað þegar ég fór með krakkana mína til Sikileyjar þegar þau voru þriggja og fimm ára. Við höfðum farið í skemmtilega fjallaferð til þorpa í hlíðum Etnu ásamt fleiri Íslendingum og allir höfðu annað hvort keypt sér flösku af möndlulíkjör eða, það sem mér finnst sennilegra, verið gefin ein slík. Mér finnst alla vega ólíklegt að ég hefi keypt eina svoleiðis, nema ef ég hefði verið svona yfirkomin af kurteisi og ekki kunnað við annað. Þetta var eina ferðalagið mitt ein míns liðs með ungu börnin okkar, var í skyldufríi vegna leikskólalokunar og veðrið hér heima ömurlegt, spáin ekkert betri. Ákvað að ferðast aldrei aftur ein með ung börn, sama hversu þæg þau voru. Svo þegar við komum gríðarlega þreytuleg eftir alllangt flug að tollhliðinu, sé ég ekki að á hillu fyrir ofan tollarana eru áreiðanlega eitthvað á annað tug af flöskum, í fallegri röð, með möndlulíkjör! Ég var auðvitað með eina flösku enn, en tollararnir sáu aumur á þessari meintu einstæðu móður með börnin og hleyptu okkur í gegn, með flöskuna. Það hefði samt verið gaman ef þeir hefðu gómað mig og fundið flöskuna, það var nefnilega eina áfengið sem ég tók gegnum tollinn þetta síðkvöld og því í fullum rétti að flytja þennan dísæta (og frekar vonda) líkjör til Íslands.
Nokkrum árum síðar vorum við Ari minn á ferð um Evrópu og á Ítalíu ákváðum við að eignast flösku af Sambuca, aðallega til að geta boðið upp á það með eða án flugna. Þessi tegund var sjaldséð á Íslandi þá. Við bjuggum rosalega vel um flöskuna svo anislyktin færi ekki í öll fötin okkar, áttum drjúga leið framundan þegar frá Ítalíu var komið og eins gott að passa flöskuna. Og við vorum svo sannarlega gripin, taskan gegnumlýst, Sambucað afhjúpað og það var kominn svolítið hróðugur svipur á annan tollarann þegar hinn sagði hrikalega vonsvikinn: Líttu í fríhafnarpokann þeirra! Þar var ekkert áfengi að finna og Sambuca fór til landsins og var mun vinsælla en möndlulíkjörinn sálugi.
Er mjög sjaldan tekin úr röðinni þegar ég kem til landsins og fer gegnum tollinn. Eftir næstum mánaðardvöl hjá systur minni í Bandaríkjunum rétt eftir hrun var ég með óvenju mikinn farangur, hvað sem svo olli því, jú, ég var víst að klára að vinna handrit af Sandgerðissögu í þetta sinn. Og ég var tekin afsíðis. - Ertu með eitthvað dýrt með þér, spurði tollararnir? - Eh, ég keypti fölbláan silkijakka á son minn, það er líklega það dýrasta, sagði ég eftir smá umhugsun, svona til að bjóða upp á eitthvað. Ekki vakti það áhuga þeirra og ég stoppaði stutt hjá tollurunum í þetta sinn. Svo þegar ég var komin í gegn og heim og búin að láta fjölskylduna fá það sem ég hafði keypt handa henni, tók málið nýja stefnu. Ég lét soninn fá einhvern smápakka sem hann hafði fengið að senda til Nínu systur og ég tók að mér að taka með heim. Eitthvert illfáanlegt stykki í ljósmyndavél. - Lentir þú nokkuð í vandræðum með að koma þessu inn í landið? spurði sonur minn varlega. - Nei, hefði ég átt að gera það? Reyndar stoppuðu tollverðirnir mig. - Ja, þetta er svolítið dýrt stykki, sagði hann vandræðalega. Mér krossbrá þegar ég heyrði verðið, verðmætið eflaust ekki minna en sex fölbláir silkijakkar. En það bara vissi ég ekki og kannski er þetta eina raunverulega smyglsagan sem ég hef á samviskunni.
Straubretti, ferðalög og fleira
15.8.2024 | 17:30
Á mörgum heimilum eru enn til straubretti þótt sú iðja að strauja sé ekki í forgangi hjá því fólki sem ég umgengst mest. Auðvitað man ég skemmtilegar sögur úr fortíðinni, eins og þegar eina frænka mín sem studdi sko alls ekki kvennafríið 1975 (þótt það væri bara kallað ,,frí") ætlaði að strauja allar skyrturnar mannsins síns, tvisvar, þann daginn. Eða þegar vinkona mín fékk starf í London 1970 sem ,,Mothers help" sem var næsta stig fyrir ofan ,,Au pair", ögn meiri laun og miklu meiri vinna. Á því heimili þurfi hún sko að strauja allar skyrtur bóndans á heimilinu þótt straufríar væru og nælonskyrtur að auki (vona að enginn mun eftir þeim hryllingi í búningasögunni).
Tók fram straubrettið áðan, sem var innarlega í þvottahúsinu, og á meira að segja í óopnuðum pakkningum annað sem fer í húsið sem við erum að gera upp, það er til að hengja upp á vegg og taka út með einhverju hókusi-pókusi. Þótt ég ætli að enda með því að strauja alla vega fallegar silkislæður í treflaformi, sem ég hef fallið fyrir á ferðalögum, þegar ég fatta að það er líka hægt að verða kalt í hálsinn á suðrænum slóðum, var aðalerindið þó að fá gott vinnuborð af því nú eygi ég tíma til að vatnslita eftir eril seinustu daga. Og komum við þá að ferðalögunum ...
Fáir gististaðir eru svo aumir að þar sé ekki að finna straujárn og straubretti. Gleymið straujárninu. Þar sem ég ferðast frekar praktískt, gisti sjaldan á dýrum gististöðum, eru herbergin mismunandi stór. Reyni yfirleitt nú orðið að stoppa meira en næturlangt á gististöðum og koma mér vel fyrir þótt ég sé oftast ekki mikið á hótelunum á ferðalögum. Ef herbergin eru lítil eru straubrettin alveg feikilega nýtileg, til að leggja fötin sín yfir á kvöldin, hafa það innan seilingar sem þarf, stundum betri tölvuborð en þau sem ætluð eru til þess, séu þau til staðar. Og ég tala ekki um þegar ég er að skrifa lengri ritgerðir (MA, MS) eða bækur. Hversu oft ætli ég hafi ekki spennt upp straubrettið mitt uppi í sumarbústað eða á skyndiskrifstofum erlendis og lagt frá mér gögn og einstaka kafla furðu skipulega. Straubretti má líka hækka og lækka, afbragðsgóð fyrir aukaskjái við fartölvuna, þá þarf ekki að dröslast milli staða með sólstólana sem ég nota til að hækka fartölur og skjái. Er farin að ferðast æ oftar aðeins með tösku sem passar undir sæti í flugvélum og þá munar alveg um sólstólinn.
Mín hagnýtu ferðaráð eru kannski ekki við hæfi allra, en ef ein manneskja getur notað sér þetta ráð og hefur ekki dottið það í hug sjálfri, þá bara vessgú!