Bloggfærslur mánaðarins, júní 2024
Konan sem var tekin í vopnaleit í Amsterdam - 1. hluti flugvallaævintýra
28.6.2024 | 23:48
Sem betur fer fyrir okkur öll er flug (nú orðið allavega) orðið enn öruggari ferðamáti en fyrrum, og hefur þó alltaf verið mjög öruggt, samanborið við akstur mishæfra viðvaninga (okkar bílstjóranna) á misgóðum vegum. Eitt af því sem tryggir þetta er góð vopnaleit. Hér er saga sem sannar hversu góð hún er, svona að mestu leyti.
Fyrir rúmum mánuði var kona tekin í vopnaleit á Schiphol-flugvelli í Amsterdam. Eflaust gerist það nokkrum sinnum á dag, en þetta var í fyrsta sinn sem téð kona lenti í þessu. Hún hafði ætlað að laumast um borð í Dreamliner-vél TUI í 10 tíma flug til Karabíska hafsins vopnuð skærum, sem hún hafði reyndar ekki hugmynd um að leyndust í handfarangri hennar. Þegar upp komst sótti hún það fast að vopnið yrði gert upptækt, en það var bara hlegið að henni og henni sagt að halda áfram svona þungvopnuð. Þegar í áfangastað var komið og konan gat ekki stillt sig um að taka mynd af vopninu fann hún í fórum sínum, einnig í handfarangri, hníf og hann fékk að vera með á myndinni, en það vekur spurningar hvernig það vopn komst í gegnum vopnaleitina.
Eins og lesendur grunar ef til vill er ég þessi þungvopnaða kona og sannast sagna rifjast aðrir válegir flugvallaviðburðir upp í framhaldi af þessu einkennilega ævintýri. Reyni að gera því skil í 2. hluta flugvallaævintýranna. Þar verður fjallað um saklausu smyglarana.
Þess vegna vil ég alltaf sitja við glugga
9.6.2024 | 13:17
Nýkomin úr flugi frá Egilsstöðum í yndislegu veðri. Bóka mig yfirleitt í sæti við glugga og ótrúlega oft er ég svo heppin að fá fallegt útsýni, þannig að ég mun eflaust halda áfram að velja mér gluggasæti þegar færi gefst. Hver veit nema ég finni til eldri, valdar myndir, en fyrst myndirnar frá því í morgun.