Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2024
Finnst þér ekki leiðinlegt að ferðast ein?
2.2.2024 | 22:57
Stutta svarið er nei. Mér finnst líka gaman að ferðast með fjölskyldu og vinum, enda á ég mikið dýrðarfólk í kringum mig. Yfirleitt ferðast ég þó ein, núna seinni árin. Alltaf með einhver áform um hvað mig langar að gera, fyrir utan að skoða það sem áhugavert er í áfangastað. Fer ekki annað en á góða staði. Kláraði að smella Sögu tölvuvæðingar saman í risherbergi í Londum fyrir nokkrum árum, fór í einnar konu golfferð til Spánar þegar ég kolféll fyrir þeirri íþrótt. Hef eitt sinn tekið dagvinnuna með mér til Gran Canaria og Fuerteventura, það gekk rosalega vel en tók of mikinn tíma af mér frá öðru til að ég endurtaki það. Eitt af því fáa sem ég geri alltaf er að njóta góða veðursins og almennilegra almenningssamgangna til að fara í alls konar langar gönguferðir, alltaf í bæjarumhverfi og yfirleitt þar sem fallega útilist er að sjá eða áhugaverðar borgir og bæi. Ég er ekki fjallageit og mér finnst ekkert gaman að ganga út í buskann í mis-ósnortnu víðerni. Ég er alltaf að fara ,,eitthvert. Heimsækja rennilásaskúlptúr, komast á áhugavert kaffihús, elta blá (eða bleik) hús sem ég fann á google maps, skoða staðhætti í glæpasögu sem ég er að skrifa (þannig ,,lenti ég á La Palma, ekkert mjög löngu áður en eldgosið á eyjunni fór að herma svolítið eftir söguþræðinum í Mannavillt).
Gaf í skyn hér um daginn að ég ætlaði að skjótast, enn einu sinni, til Fuerteventura í náinni framtíð. Gerði það, annað var ekki hægt þegar hræbillegir flugmiðar í beinu flugi voru allt í einu í boði til þessarar uppáhaldseyjar minnar. Þá er nú heppilegt að vera komin á eftirlaun í annað sinn, hversu lengi sem það endist, og talandi um það, hversu lengi það endist, þá veit ég líka að þessu lágu fargjöld þarf að nota meðan þau eru í boði. Annað hvort slær áfangastaðurinn í gegn og verðið hækkar svo flugið beri sig, eða ekki, og þá verður þetta skammgóður vermir.
Þrennt var á dagskrá þessa allt of stuttu viku:
Rápa út um allt
Auðvitað var mitt yndislega ráp út um allt á dagskrá, endaði venjulega í svona 8-11 þúsund skrefum, meira þolir bakið mitt ekki, núna þegar gamalt hryggbrot minnir á sig. Fór í tvígang til Correlejo og skrapp í bakaleiðinni í fyrri ferðinni að kíkja á sólarlagið í bæ sem ég hafði ekki áður komið í, El Cotillo. Skaust á uppáhalds kaffihús í Caleta de Fuste, meira um það undir vatnslitakaflanum. Svo einn daginn var skýjað í Puerte del Rosario, en þaðan gerði ég út. Þá kíkti ég á vefmyndavélar og endurnýjaði svo kynnin við Morro del Jable. Óþarflega löng strætóferð var vel tímans virði og ég náði aftur ansi skemmtilegu sólarlagi því næstbesta. Mestum tíma varði ég þó í höfuðborginni þar sem ég leigði litla íbúð í viku og fór víða.
Vatnslitasukk
Fyrst staðreyndir, 12 kaffihúsa-vatnslitamyndir litu dagsins ljós í ferðinni. Flestar fyrstu dagana, því svo fór þriðja viðfangsefni ferðarinnar að taka yfir, skrif. Fyrstu myndirnar gerði ég í Puerto del Rosario, en svo dreif ég mig á eftirlætiskaffihúsið mitt, Café del Town, í Caleta de Fuste, sem er ferðamannabærinn sem ég gerði að bækistöð þegar ég flutti vinnuna mína þangað í fyrra. Þá vatnslitaði ég líka dálítið þar, en sat mest með tölvuna og latté-ið mitt á borðinu. Erin, írska stelpan sem þar vinnur, tók sig til og seldi allar myndirnar mínar jafnharðan og ég vatnslitaði þær, þegar ég var þar í fyrra. Ég sá við henni núna og gerði eina mynd af fólki sem tókst að forða sér áður en hún var búin að selja því myndina. Svo sá ég hann David fastagest, gerði mynd af honum í fyrra, og ákvað að hlífa honum. Það var ekki við það komandi, hann bara kom röltandi til mín og spurði hvort ég myndi eftir honum. Ójá, ég hafði skoðað hann nokkuð vel í fyrra. Myndin þín er í ramma uppi á vegg í stofunni hjá mér, sagði hann stoltur. Erin kom og sagði að nú yrði ég bara að gera aðra mynd af honum og ég hlýddi. Hver hlýðir ekki henni Erin? Áður en ég var hálfnuð kom David og borgaði mér myndina en sagði að ég ætti eftir að klára hana. Svo bara fór hann og ég ákvað að bæta aðeins við smáatriði í fötunum hans, en ekki mikið. Erin vildi ólm selja honum myndina, en ég sagði henni sem var að hann væri þegar búinn að borga hana og hún ætlaði að koma henni til hans. Hér eru myndirnar af David, í fyrirsætuhlutverkinu, myndin frá í fyrra og nú í ár, af konunni sem ,,slapp" frá Erin og svo auðvitað af Erin, umboðsmanninum mínum á Fuerteventura. Ég bauð henni umboðslaun, hún hló og splæsti á mig latté.
Erin benti mér á að koma aftur á sunnudeginum áður en ég færi, því svo væri lokað mánudaga og þriðjudaga og á miðvikudegi var ég á heimleið. Ekki komst ég nú í að fara aðra ferð þangað, nóg annað að skoða og ég komin á kaf í skrif.
Við næsta borð sat maður og lýsti mjög fjálglega einhverri söngkonu sem hann dáði mjög. Enginn komst hjá þá að vita það. Svo heyri ég allt í einu ,,Icelandic og spurningin var, átti ég að segja þeim að Laufey héti ekki Labví?
Fylla í skörðin í næstu glæpasögunni minni
Á þriðja degi komst ég í skrifstuð og tók upp þráðinn við að bæta í skörðin og gera nauðsynlegar breytingar á handritinu á næstu glæpasögunni minni, sem var komin í 80% af fullri lengd þegar ég fór að vinna hjá Controlant fyrir tveimur árum. Síðan hefur margt breyst og ég var nær því að vera í 65% af fullri lengd þegar ég sneri aftur í tölvuna og fór að bæta inn, lagfæra, leiðrétta, breyta alvarlega og á þessum fimm virkum dögum endaði ég með að skrifa 10 þúsund orð í mislöngum köflum og einhverjar tengingar, á þær þó mikið til eftir. Það kom mér verulega á óvart hvað ég naut þess mjög að sitja á útikaffihúsum og upphugsa vélabrögð og vesen, en saklausa fólkið í kring hafði ekki hugmynd um hvað fór fram í hausnum á þessari gráhærðu, meinleysislegu konu með latté sér við hlið. Endurskrifaði morð í flugvélinni á heimleiðinni. Það gleður mig ekkert smávegis hve mikið er farið að rukka mig um næstu glæpasögu, en ég átti samt ekki von á að það gengi svona greiðlega að koma sér í gírinn.
Út af öllu þessu er svo gott að ferðast stundum ein síns liðs. Og, nei, mér leiðist aldrei. Engar tvær ferðir eru eins, þessi var einstaklega góð og eflaust hefur það hjálpað til að ég var hálfpartinn búinn að samþykkja, alla vega til vors, að vinna á fullu í verkefni á mínu fagsviði í febrúar og apríl á þessu ári. Í mars og sennilega einnig um mánaðarmótin apríl/maí verð ég síðan að eltast við vatnslitamyndirnar mínar sem eru komnar á erlendar vatnslitasýningar/-hátíðir. Það er ekki hægt annað en ,,fórna sér og halda til Córdoba og Bologna/Fabriano með vorinu. Þá verð ég í félagi við annað gott myndlistarfólk, svo það er annars konar upplifun.
Í lokin nokkrar fallegar myndir frá Fuerteventura: