Bloggfærslur mánaðarins, október 2024

Valkvæð fortíðarhyggja

Fyrst: Afsakið tilgerðarlega fyrirsögn, nostalgía eftir hentugleikum bara gekk ekki, en er samt það sem ég meina. 

Mér finnst gaman að ferðast á nýja, áhugaverða staði, en líka að koma aftur á staði sem eru mér kærir. Hins vegar eru þeir fleiri staðirnir sem ég hef komið til og ekkert langað neitt sérstaklega að koma aftur á. Á fyrrnefndu stöðunum leyfi ég mér að reika um gamlar slóðir, sumar hafa ekkert breyst, aðrar tekið hrikalegum breytingum og ekki alltaf til batnaðar. Þess vegna hef ég komið mér upp þessari valkvæðu fortíðarhyggju. 

Fyrir 2-3 árum fór ég að finna fyrir ákafri löngun til að komast aftur til Granada og skoða Alhambra-höllina, sem ég sá seinast þegar ég var barn að aldri. Í tvígang hef ég reynt að koma þeim túr inn í þéttskipaða dagskrá Córdoba-heimsókna, en aðeins eins og hálfs tíma lestarferð er á milli þessara fallegu borga. Reynslunni ríkari pantaði ég miða í Alhambra-höllina með einhverra vikna fyrirvara þegar ég brá mér til Spánar um daginn, en enn á ný var einhver þú-skalt-ekki-skoða-Alhambra púki á kreiki. Fleiri en eitt olli því að ekki varð af Alhambra-heimsókn enn um sinn, en miðinn sem fór forgörðum var ódýr. Datt í hug að tékka síðar sömu viku og þá var aðgöngumiðinn orðinn meira en tíu sinnum dýrari. En það var einmitt af því að ég pantaði miðann ódýran með góðum fyrirvara að ég komst ekki í þetta sinn. Mér hafði láðst að reikna með því að allar lestir frá Málaga til Granada væru uppbókaðar daginn áður en ég ætlaði að leggja í ferðina, og fyrsta rútan sem var laus kom of seint á staðinn. Þá stóðu mér tveir kostir til boða, að taka skertan túr í höllina góðu eða skoða Granada í skínandi fallegu veðri, en það hafði ég ætlað mér að gera í leiðinni. Sé ekki eftir því vali, alger dýrðardagur. Og svo held ég áfram að reyna þrátt fyrir óhóflegan túrisma. 

Grandadaheimsókn nú og fyrr: 

2024-10-20_17-15-00

2024-10-20_17-22-59

Þegar hér er komið sögu er rétt að geta þess að þegar ég var 6-7 ára bjó ég um hálfs árs skeið á Spáni með mömmu, ömmu og í lokin Ólafi fóstra mínum líka. Yndislegar minningar og krónísk löngun í hlýjar slóðir. Þegar heim var komið tók við skólaganga, nýir vinir, ný áhugamál og Carmen vinkona mín og páfagaukurinn Bíbbi voru bara hluti af fortíð sem ég hugsaði sjaldan til. Þrátt fyrir þetta hef ég ekki sótt sérlega mikið til meginlands Spánar fyrr en allra seinustu ár og þá aðallega á nýjar slóðir. Gömlu slóðirnar eru nefnilega óþekkjanlegar. Árið 1959 vorum við mest sjö útlendingarnir samtímis í Torremolinos, og þangað kom ég ekki aftur fyrr en í dagsferð fyrir örfáum árum og tengdi engan veginn. Hins vegar leist mér sérlega vel á Málaga, sem ég kíkti á í sama skottúr og ákvað að kynnast betur. Við fórum sjaldan til Málaga þegar við vorum í Torremolinos, gerðist þó svo fræg að fara á nautaat og man enn að upphitunarnautabanarnir voru með gular og bleikar dulur, en aðalnautabaninn með rauða. Mamma las Andrés-blöðin mín meðan á leik stóð og ég horfði spennt á leikinn. Skrapp í dagspart til Torremolinos, nánast fyrir kurteisissakir, í nýliðinni ferð, og tengdi ekki, en bara gaman samt. 

Torremolinos fyrr og nú:

2024-10-17_23-08-05

2024-10-20_17-19-14

Málaga olli mér ekki vonbrigðum í þessari ferð minni, né heldur Granada.

Þess má geta að ég kom við í London á heimleiðinni. England er mér alltaf kært eftir hálfs árs búsetu þar þegar ég var 18 ára að gera mislukkaða tilraun til að hætta í MR. Staðirnir sem ég elska í London eru ekki mínir gömlu staðir, síður en svo, en á alltaf taug til hennar og stað í hjartanu. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband