Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014
Lágmarkskröfur í gistingu og andaglas með IRA
23.5.2014 | 23:34
Var að bóka hótel eina nótt í London, sem er ekki í frásögur færandi. Endaði með því að velja hið augljósa: Góða staðsetningu, skikkanlegt herbergi með baði (lítið) og frítt internet. Annað þarf ekki. En mér finnst næstum jafn gaman að skoða gistimöguleika eins og ferðamöguleika og sá vel staðsett hótel í London á furðu góðu verði. Það reyndist þá vera Kex-hostel stíllinn, kojuherbergi en allt mjög hipp og kúl. Fann að ég var komin yfir það stig, nema í neyð auðvitað. Ég var reyndar orðin harðfullorðin, virðuleg tveggja barna móðir þegar ég gisti einhverju sinni á gamla Hótel Búðum með alveg rosalega mörgum Kvennalistakonum. Man að einhverjar sváfu á stigapalli, ekki ég, nei ég fékk fínt svefnpláss á dýnu, en þurfti reyndar að vera með helminginn af dýnunni (og 40% af mér, sem betur fer ekki hávaxin) UNDIR RÚMI hjá annarri Kvennalistakonu. En við sváfum og það var bara gott.
En af þessu rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að vinna í London átján ára gömul með frábært einkaherbergi i Bloomsbury sem fylgdi vinnunni, þar til Esthera Vechery vinkona mín var rekin (júgóslavnesk/ungversk og með kjaft!). Ég greip tækifærið og sagði upp henni til samlætis (og af því mér leiddist vinnan ósegjanlega). Við tóku ýmis störf og ég flutti aftur í herbergið mitt í Kilburn, sem ég deildi ýmist ekki með neinum eða allt að sex til sjö öðrum. Það var svona kojugisting. Eitt kvöldið fylltist gistiheimilið og að okkur fastagestunum var hvíslað að þetta væru IRA-menn. Þetta var áður en IRA varð illa þokkað í London vegna sprengjutilræða (vinkona mín lenti í sprengju í Old Bailey þremur árum síðar, þá nýútskrifaður lögfræðingur), en auðvitað dularfullt og hættulegt samt. Eitt kvöldið var ég ásamt annarri íslenskri vinkonu minni heima á Priory Park Rd 101 og þá datt einhverjum í hug að fara í andaglas (!). Með IRA-mönnunum! Nema við höfum verið svona 6-7 alls og auðvitað þurfti andinn sem kom í glasið að tala DÖNSKU! Tek það fram að ég er saklaus og ég varð ekki vör við að vinkona mín ýtti glasinu neitt heldur.
Þannig að val á gisti- og dvalarstöðum getur leitt til alls konar ævintýra, - eða ekki.