Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
Bókablogg á vitlausum tíma
29.11.2011 | 21:59
Ekki svo að skilja að bókablogg sé nokkurn tíma á vitlausum tíma, allra síst núna rétt fyrir jólabókaflóðið. Þegar ég var nýútskrifuð úr bókmenntasögu, sem nú heitir bókmenntafræði, var ég með fastan bókmenntaþátt á ríkisútvarpinu og varð alltaf að fylgjast með öllu sem var að gerast, á réttum tíma, og fjalla um það. En stundum greip mig löngun til að fjalla um eitthvað allt annað en skyldan bauð mér og þá ... lét ég það bara eftir mér og enginn skammaðist. Þannig urðu til ýmsir skrýtnir þættir og líklega aðeins öðru vísi en þá (og nú) var algengast. Til dæmis komst ég upp með að fjalla um (þá) 16 ára gamla flipp-ljóðabók.
Nú nýt ég frelsis og ábyrgðarleysis og les það sem ég vil, þegar ég vil. Þess vegna er ég stundum að lesa eitthvað sem kom út í fyrra, eða fyrir langa-löngu.
Vissulega hef ég lesið nýútkomnar bækur á þessu hausti. En líka gripið í eitthvað allt annað í leiðinni. Aðallega ljóð og spennusögur, spennandi ljóð og ljóðræna trylla. Nei, annars, ekkert svo háfleygt. Leyndarmál annarra, eftir Þórdísi Gísladóttur lofar góðu. Veit að bókin er ekki nýútkomin og veit ég átti að vera löngu búin að lesa þennan verðlaunahöfund. En það er engin dead-line í ljóðalestri, eftir því sem ég best veit. Ekki alveg búin að segja skilið við ljóðabækurnar hennar Kristínu Svövu Tómasdóttur heldur. Og á milli kemst fátt eitt að annað en spennusögur, Arnaldur lesinn, Óttar kominn í hús, ólesinn enn, en finnst hann yfirleitt góður og svo var ég að klára nýjasta Wallander krimmann hans Hennig Mankell og finnst hann sá besti, langbesti eiginlega.
Gat ekki klikkað!
18.11.2011 | 21:58
Álftanes lagði Borgarbyggð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meira um ketti
8.11.2011 | 20:34
Simbi okkar er sannur köttur. Sat á bíl þegar ég kom heim og ákvað að koma kannski inn. Eða ekki. Eða koma með inn. Tókst að blekkja mig enn einu sinni til þess að halda dyrunum opnum meðan hann var að hugsa. Loks ákvað hann að koma ekki inn ...
Ef ég ætti að lesa ...
5.11.2011 | 00:15
Mig minnti andartak að eitt af fjölmörgum ljóðum, eiginlega vísum, sem ég hef dálæti á væri aðeins öðru vísi en það er. Mér fannst sem sagt að þar stæði: ,,Ef ég ætti að lesa, allt sem ég fann til, þyrfti ég lengi að lifa ... " en svo er ekki. Ljóðið, sem er eftir Sigurð frá Arnarholti, er þannig og þótt mér finnist það flott, þá finn ég mig ekki í því að öllu leyti, en það gerir ekkert til:
öllu, sem ég vil,
þyrfti ég að þekkja
þúsund faðma hyl. -
Og ef ég ætti að skrifa
allt, sem fann ég til,
þyrfti ég lengi að lifa,
lengur en ég vil.
En ástæðan fyrir því að þetta ljóð kom upp í hugann er sú að ég er búin að gera mér grein fyrir að ég mun sennilega ekki komast yfir að lesa allt sem ég vil, þótt ég verði bæði eldgömul, heilsuhraust og andlega hress með nothæfa sjón, allt er það markmið mitt. Mér varð nokkuð brugðið þegar ég horfðist í augu við það. Og hvað er þá til ráða? Forgangsraða? Yfirleitt geri ég það í ríkum mæli í tilverunni. Og sumar ólesnar bækur eru í forgangi, tryggir þó ekki að ég lesi þær. Annað sem skiptir líka mál og stangast á við líf forgangsraðarans, það er að leyfa lífinu að hafa sinn gang og taka því vel (eða illa eftir atvikum) sem það hefur uppá að bjóða. Annars gerist aldrei neitt óvænt. Enn annað er að ég ánetjaðist ung spennusögum og þarf minn skammt, með tilkomu lestölvunnar minnar er það aldrei vandamál. Ég er líka alvarlega háð ljóðlestri á köflum. Svo tekur vinnan sinn tíma, tilfinningaskyldan líka, fjölskyldan og vinirnir. Ýmislegt annað. Golfið, skvassið ... Þannig að kannski mun ég ekki komast yfir að lesa allt sem ég vil, en það gerir bara ekkert til.