Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
Vil bara vekja athygli á þessari frétt
25.1.2010 | 00:05
Óttast að evran hrynji | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þegar mikið er að gerast er gaman að gleðjast yfir litlu
24.1.2010 | 16:49
Ástandið í þjóðfélaginu og sveitarfélaginu mínu, jafnvel í heiminum, er frekar alvarlegt, á köflum svolítið niðurdrepandi. Og einhvern veginn er maður orðinn svolítið hokinn af ábyrgð yfir því að gera það rétta á réttum tíma og réttum forsendum. Þess vegna eru svona ábyrgðarlausir sunnudagar eins og dagurinn í dag notalegir. Engar raunverulegar skyldur, ef maður hleður þeim ekki á sig sjálfur, hvaða sköpunarsögu sem maður trúir, eða ekki, þá er ákveðin glóra í að fyrirskipa alla vega einn hvíldardag í viku. Og þess vegna er bara allt í lagi að leysa ekki öll þau vandamál sem illa gengur að bjarga alla hina dagana, hafa svona einn ,,stikkfrí" dag. Hitt hverfur ekkert.
Flokksráðsfundur VG og veruleikinn
17.1.2010 | 02:08
Félagar í Vinstri grænum höndla veruleikann vel. Veruleikinn er ekki alltaf auðveldur og ég ætla ekki að tíunda það sem ég vildi hafa öðru vísi, nema auðvitað að ég vildi óska að VG hefði ekki verið pínt til þess að standa að aðildarumsókn að ESB. Það eru ekki alltaf sömu raddirnar sem eru háværastar í VG og það er lýðræðinu hollt að mínu mati. Ég hef aldrei verið í pólitík til þess að hafa það náðugt eða afla mér vinsælda og mér finnst sama máli gegna um aðra í VG, þeir þurfa að leita í aðra flokka sem eru að leita sér að já-systrum og -bræðrum og eflaust er það misjafnt hvernig til tekst það.
Þótt fundurinn á Akureyri um helgina hafi síður en svo verið sá auðveldasti - það gefur auga leið að svo gat ekki orðið - þá er ég engu að síður mjög sátt við fundinn.
Annar veruleiki er að sitja í kaffi með gamalli vinkonu og njóta þess hittast, eins og ég gerði eftir fundinn. Þegar önnur býr fyrir norðan og hin fyrir sunnan þá þarf að nýta síkar stundir vel. Við erum á ólíkum aldri, höfum þekkst næstum þrjátíu ár og verið stórvinkonur í meira en tuttugu. Aldur og búseta skiptir ekki meginmáli. Við höfum alltaf náð vel saman og þó lengra líði á milli samverustundanna nú en áður þá er það var þannig með góðar vinkonur að þar er einhver þráður sem aldrei slitnar. Ég held ég sé óvenju heppin með vinkonur!
Veturinn verður fljótur að líða -
9.1.2010 | 01:39
Það hefur aldrei verið launungarmál að í Icesave-málinu höfum við getað valið á milli nokkurra afleitra kosta. Á komandi vikum komumst við ef til vill að því hver þeirra er verstur en vonandi þó frekar hver er illskástur. Ég hef ávallt verið mikil fylgiskona þjóðaratkvæðagreiðslna og finnst tímabært að gera stjórnarskrárbreytingar sem raunverulega setja þeim valkosti skynsamlegan ramma. Í þessu máli var ég seint og um síðir helst orðin á því að málið yrði ekki til lykta leitt nema þjóðin fengi að segja sína skoðun og þá gjarnan með öðrum hætti en mótmælum. Var þess fullviss að málið myndi ekki falla á þingi og eyddi því ekki orku í að velta þeim möguleika fyrir mér. Ég er jafn svarinn andstæðingur óréttlætisins sem við erum beitt í Icesave-málinu eftir sem áður. En af því ég var höllust undir þjóðaratkvæðagreiðslu varð ég hissa þegar ég fékk, eins og fleiri landsmenn, nett sjokk þegar draumar og óskir svo margra urðu að veruleika á mánudaginn og ljóst var (á þeirri stundu alla vega) að efnt skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftir umræðuna síðan sé ég reyndar (þó í hálfkæringi sé) að skynsamlegast hefði verið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort efna skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Kannanir í síðustu viku segja okkur að eftir veruleikasjokkið á mánudag harðneitar meirihluti þjóðarinnar að vilja nokkuð fá að greiða atkvæði. Held að slík könnun hefði litið öðru vísi út vikuna á undan og þessi afstaða á eftir að sveiflast.
Ég hef lengi óttast að það sé rétt að við komust ekki lengra í samningum í haust en við gerðum. Hörð viðbrögð utan úr heimi sýna og sanna við hvað er að etja. En jafnframt eru okkar óbilgjörnustu mótmælendur úti í Evrópu að fá kjörið tækifæri til að auglýsa afstöðu sína og á góðum degi gæti það komið í bakið á þeim og unnið með okkur. Afhjúpað óréttlætið. En ég er ekki viss um eitt eða neitt.
Svo sannarlega vona ég að eitthvað gott komi út úr því umróti sem nú er. Ef það gerist er það ekki vegna þess að slíkur árangur hefði endilega náðst á haustdögum, það tel ég reyndar hæpið. En þessi sjokkmeðferð mun annað hvort auka á vandann eða skapa okkur svigrúm.
Ég er undrandi á umræðu um að milliríkjasamningar eigi ekki erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vara við slíkum málflutningi. Hvað með ESB? Á að vera einhver hentistefna eftir því hvaða niðurstöðum menn búast við úr könnunum? Þar beini ég ekkert síður orðum mínum til stjórnarandstöðu en sumra stjórnarliða.
Varðandi skatta og álögur gegnir mögulega öðru máli. Þess vegna er svo brýnt að setja þjóðaratkvæðagreiðslum vandaðan og vel rökstuddan ramma, sem er ekki heftandi en hins vegar skynsamlegur. Kalifornía er meðal þeirra fylkja/ríkja þar sem ,,þjóðar"atkvæðagreiðslur eru haldnar um skatta. Ástandið þar er ekki gott, ekki ætla ég að kenna þessum atkvæðagreiðslum um það, en þær spila án efa inn í. Háskólarnir í Kaliforníu eru mjög aðþrengdir af þessum sökum, sumir taka svo djúpt í árinni að segja að þeir séu hrundir.
En veturinn verður víst örugglega fljótur að líða ...
(skrifaði víst að forsetinn hefði tekið sína ákvörðun á mánudaginn en það var á þriðjudaginn, rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá að enn var ekki kominn nema 9. dagur ársins).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook
Youtube verður sífellt betri - hér er ein ómetanleg perla
3.1.2010 | 18:03
Lengi hef ég fagnað tilvist Youtube, en nú er ég farin að finna þar gersemar sem áður var ekki að finna þar. Hér er ein þeirra, ,,rétta" útgáfan af Surabaya Johnny eftir Kurt Weil, sem eiginkona hans, söngsnillingurinn Lotte Lenya, syngur: