Kinks - 14. september
14.9.2009 | 14:52
Kinks hefur alltaf verið ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og endurómað í mörgum af bestu hljómsveitum seinustu ára, nægir að nefna White Stripes, sem er ein af þeim skemmtilegri. Las það í Mogganum í dag að í dag væru 44 ár (!) síðan hljómleikar þeirra í Austurbæjarbíói voru haldnir - þannig að ég var sem sagt nýorðin þrettán ára þegar ég fór á þessa hljómleika. Sumarið 1965 var um margt mjög skemmtilegt, ég var nefnilega nýflutt ,,út á land" og komin á fullt í handbolta með Ungmennafélaginu á staðnum auk þess sem við fórum vikulega á á föstudagskvöldum á hvaða farartækjum sem gáfust, vörubílspöllum, köggum og heyflutningskerrum, í sundlaugina í nærliggjandi bæ, sem var fimm kílómetra leið.
Nærliggjandi bærinn var Hafnarfjörður og sveitin mín var Álftanes og er enn. Börnin mín, sem nú eru komin á fertugsaldur, upplifðu heyskap hér í sveitinni en nú er ýmislegt breytt.
11. september á sína veraldarskírskotun, 12. september lika, hér á Íslandi alla vega, 13. september er mér persónulega minnisstæður (1985) og núna er 14. september kominn í safnið líka.
Kinks standa alltaf fyrir sínu. Ekki er ég viss um að þeir hafi flutt þetta lag hér að neðan á tónleikunum í Austurbæjarbíói, það kom alla vega ekki út á plötu fyrr en tíu vikum seinna, og þá var sagt að þetta væri afrakstur Íslandsferðarinnar. Ekki talið eitt af þeirra bestu lögum, en ja, það er alltaf ákveðin stemmning yfir því.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:58 | Facebook