Jafnrétti - kvenfrelsi - mannréttindi

Var á skemmtilegum fundi í morgun þar sem VG fólk er að fjalla um jafnréttismál, enda flokkur sem kennir sig við kvenfrelsi og þar sem konur hafa verið í framlínu frá fyrstu tíð, og það vægast sagt frábærar konur, allar saman.

Það sem kemur út úr umræðu þessa hóps er enn í mótun en ég get lofað því að enginn mun verða fyrir vonbrigðum, það er hins vegar ekki rétt að einhver ein(n) úr hópnum fari að þjófstarta þeirri umræðu, þetta er hópstarf.

En þessi fundur og viðtal sem ég tók um daginn þar sem jafnréttismál bar mikið á góma rifjaði hins vegar upp hvers vegna ég fór út í pólitík á sínum tíma.

Fyrstu pólitísku afskiptin voru eflaust þegar í gaggó á málfundum, þar sem stelpurnar voru ekki mikið að hafa sig í frammi enda árið líklega 1966 eða svo, en þar æddi ég samt upp og fór að rífast við bekkjarbróður minn, Eggert Þorleifsson, um jafnréttismál auðvitað. Síðan hef ég eiginlega aldrei hætt að tala um þessi mál.

Auðvitað er ég ánægð með að talsvert hefur þokast síðan þá. En það er samt með ólíkindum að enn skuli ekki vera búið að ná launajafnrétti og sigrast á ofbeldi gegn konum, ég held að þorri fólks geri sér grein fyrir að við getum ekki sætt okkur við svoleiðis órétt. 

Réttlætiskennd margra er misboðið nú eftir efnahagshrunið. Fólk sem ekki fann sér farveg í gróðærinu er núna komið til starfa að móta nýtt samfélag. Hvernig væri að skapa nú samfélag jafnréttis kvenna og karla, frelsis til að lifa mannsæmandi lífi og velja sér menntun og lífsstefnu og njóta þeirra mannréttinda að þurfa ekki að búa við ógn eða ofbeldi. Það hlýtur að vera hægt að virkja réttlætiskenndina sem nú ræður umræðunni og laga þessi mein. Ég er sannfærð um að með Vinstri græn við stjórnvölinn eftir kosningar verður sú leið greiðari en nokkru sinni fyrr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Því miður finnst mér að kvennréttindi séu ekki það sama og jafnrétti. Ef sá sem kýs á lista VG þarf að sæta því að vera hafnað, bara vegna þess að kynin skipta máli, finnst mér ekki þess virði að kjósa.

Sigurjón, 1.3.2009 kl. 03:30

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Go girl.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.3.2009 kl. 11:08

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Leiðrétti misskilning Sigurjóns. VG  hafnar engum, fléttulistar hafa verið notaðir þegar annað hvort kynið á undir högg að sækja í prófkjörum og forvali flokka en það á ekki við um VG, ekki enn alla vega, en komi upp sú staða þá yrði eflaust gripið til þess. Þetta eru engin sérstök kvenréttindi, minni á það sem forsætisráðherra Svíþjóðar sagði fyrir allmörgum árum, þegar hann var skikkaður til að skipa jafn marga karla og konur í ríkisstjórn sína, sem var fyrir sósíaldemókrata: Já, en ég á bara mjög erfitt með að finna nógu marga hæfa karla.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.3.2009 kl. 14:06

4 Smámynd: Sigurjón

Nú.  Ég mundi ekki betur en að VG notaði einmitt svona fléttulista.  Gott að það komst á hreint.

Þarna hefði forsætisráðherra Svíþjóðar átt að fá að skipa fleiri konur, úr því þær voru hæfari til starfans.  Það er ekki spurning.  Það á enginn að fá nein forréttindi út á kyn, á hvorn veginn sem það er.

Sigurjón, 2.3.2009 kl. 23:53

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband