Hverjir eru sérfræðingarnir? Þessir með torskildu titlana eða þeir sem eru með hugmyndirnar og reynsluna?

Ég hef aldrei talað við manneskju sem vinnur í heilbrigðiskerfinu sem ekki hefur lumað á einu eða fleirum sparnaðarráðum. Og núverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, á án efa eftir að leita í þann sjóð til að finna sparnaðarleiðir - þess vegna er svo mikilvægt að hann fái að halda áfram í þessu mikilvæga ráðuneyti, sem hann er í en heldur varla nema VG bæti við sig fulltrúum í öllum kjördæmum. Ögmundur vill nefnilega ekki vinna 1. sætið í suðvesturkjördæmi eins og seinast, heldur annað sætið og fá Guðfríði Lilju í fyrsta sætið, sem er flott. Til að þetta geti orðið er einfalt að grípa til ákveðinna aðgerða - skrá sig í Vinstri græn, taka þátt í forvali vinstri grænna og skila VG þeim 20-35 prósentum atkvæða sem stemmning virðist fyrir! Góð útkoma í næstu kosningum skilar Vinstri grænum í sterka stöðu eftir kosningar í stjórnarmyndun.

Það er plagsiður að forðast eins og heitan eldinn að spyrja þá sem vit hafa á málunum ráða. Flatur niðurskurður, heilög prósentutala yfir línuna er vissulega ,,einföld" aðferð til sparnaðar og útheimtir nákvæmlega enga hugsun. Að tala við fólkið sem stendur í strögglinu að ná endum saman er hins vegar tímafrekt en skilar hins vegar miklu réttlátari niðurstöðu. Þeim tíma og því fé er hins vegar vel varið. Flatur sparnaður sem yfirmönnum er gert að ná fram ,,í hvelli" eins og oftast er gert er bara della, della sem við horfum aftur og aftur uppá. Ekki meir af því, takk!!!! En allar litlu sparnaðarhugmyndirnar sem fólkið með reynslu á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðum luma á, þær myndu enda með að spara milljarða, ef fram næðu að ganga.

Allir tala um nýsköpun eins og eitthvert innihaldslaust töfraorð, enn eina hókus-pókuslausnina. Ég er orðin frekar pirruð á innantómum allsherjarlausnum. Í hugbúnaðargerðhefur verið mikið um nýsköpun, ný atvinnutækifæri og það sem mest er um vert, þarna eru ennþá miklir vannýttir möguleikar. Þar sem ég vann í þessum bransa í næstum sjö ár og fylgdist grannt með því sem þar var að gerast þá langar mig að segja frá því sem hægt er að gera. Ágæt kona, Sigrún Guðjónsdóttir, gerði meistaraprófsritgerð sem snertir þetta og ég mæli með því að þeir sem áhuga hafa trítli upp í Þjóðarbókhlöðu og blaði gegnum ritgerðina. Árið 2005 gerðu Samtök upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) stjórnvöldum tilboð. Það snerist um að gera upplýsingatækni að þriðju meginstoðinni í verðmætasköpun. Konkret tillögur, beint úr greininni, en dauflegar undirtektir stjórnvalda, því miður. Þessar tillögur eru til, þessar tillögur eru í fullu gildi. Almennileg stjórnvöld eru nýtekin við og það verður að gefa þeir meira en þessa 80 daga til að byggja upp nýtt og raunsærra atvinnulíf. Svo ég stikli aðeins á nokkru því sem þarf að bæta og SUT hafa bent á, þá erum við að keppa við þjóðir sem veitt hafa miklu fé (skynsamlega) í þennan málaflokk, en íslensk stjórnvöld hafa daufheyrst við ábendingum um úrbætur. Þetta voru ítarlega útfærðar hugmyndir og má nefna meðal þeirra eftirfarandi:

  • Endurgreiðslu þróunarkostnaðar í stað skattlagningar á greinina.
  • Gengisstöðugleika (hann myndi koma fleirum til góða en þessari grein, eins og við vitum svo biturlega núna).
  • Leggja meiri áherslu á fjölbreytta menntun í hugbúnaðar- og tölvunarfræðum

Í staðinn buðu SUT ekkert smávegis (þó þetta hafi verið árið 2005 þá er fátt af forsendunum sem mælir gegn því að tilboðið sé snjallt) og þótt aðeins helmingur gengi eftir væri það býsna stórt skref. Fáránlegt af því að vita að talað skuli hafa verið að allt of miklu leyti fyrir daufum eyrum - þótt á einhverjar hugmyndir hafi verið hlustað er meginniðurstaðan sú að þessu ,,tilboði SUT" eins og það var kallað - hefur enn ekki verið tekið.

  • Að tífalda gjaldeyristekjur í upplýsingatækni frá 4 milljónum í 40 milljarða
  • Að fjölga starfsmönnum um 3000 og þar af 2000 ný störf 
  • Að auka hlutfall staðlaðs hugbúnaðar sem þróaður væri af íslenskum fyrirtækjum
  • Að stórauka hýsingu á Íslandi fyrir erlend fyrirtæki   

Ef við lítum lengra inn í framtíðina og reynum að sjá fyrir þróun tölvuumhverfis þá erum við komin inn á fræðasvið sem var efni í minni meistaraprófsritgerð - þar var ekki hægt að styðjast við reynslu en hins vegar eru frjóar og freskar hugmyndir um þróun mála á kreiki og þær þurfum við að þekkja. Hér og nú eru hugmyndir SUT þær sem þarf að bregðast við. Síðan tökum við næstu skref og byggjum upp alvöru nýsköpun, ef við berum gæfu til að leita að hugmyndum og þora að framkvæma þær. Til þess þurfum við stjórnvöld sem þora, vilja og geta!


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband