Hugur og hjarta í Evrópusambandsmálum
7.1.2009 | 01:12
Greinilegt að Evrópusambandsumræðan er að leika Sjálfstæðismenn grátt, sífellt fleiri framámenn í flokknum eru að missa tengslin við grasrótina og henda sér um borð í Evrópusambandslestina. Skilaboð um að grasrótin sé ekki sama sinnis koma úr ýmsum áttum, en eins og oft vill verða hættir sumum til þess að rugla saman því að vera kjörnir fulltrúar fólksins og því að eiga að ,,hafa vit fyrir lýðnum". Fréttir af nýliðnum fundi í Valhöll, þar sem einn af áhrifameiri þingmönnum flokksins bar fyrir sig kalda skynsemi í afstöðubreytingu sinni gagnvart sambandinu staðfestir þetta. Frásögn um fundinn frá gamalreyndum fjölmiðlamanni er áhugaverð. Köld skynsemi getur fengið marga til þess að gera heimskulega hluti og margir hafa einmitt flaskað á slíku, bæði prívat og í opinberu lífi. Skyldi það ekki hafa verið undir yfirskyni kaldrar skynsemi sem margar af þeim viðskiptaákvörðunum voru teknar sem komu okkur á kaldan klaka þannig að ekki varð aftur snúið? Við ESB aðild verður heldur ekki snúið.
Matthías Jóhannessen fjallar um hug og hjarta í Evrópumálum á síðu sinni: www.matthias.is með þessum hætti:
Ég hef verið að hugsa um Evrópusambandið og aðildina að því,Hef ekki enn gert upp hug minn, en mun gera það fyrir landsfund.
Hjarta mitt segir nei,heilinn já.
Ég ætla að sjá til,hvort hefur betur.
En áhyggjur af þessu eru litlar,því hér mun þróun ráða hvað sem okkur líður.
En mér stendur ógn af regluveldi.
Vonandi lætur Matthías og fleira gott fólk hjartað ráða ef upp kemur ágreiningur milli hugar og hjarta af þessu tagi. Regluverkið sem honum stendur ógn af er raunverulegt og verst er að þessar reglur eru flestar samdar af mönnum sem við þekkjum ekki deili á, fáum aldrei að vita hverjir eru og eru andlitslausir en áhrifamiklir embættismenn í flóknu skrifræði Evrópusambandsins. Vonandi man hann hvað flokksbróðirinn, Björn Bjarnason, sem ég er reyndar ekki oft sammála, sagði fyrir allmörgum árum (efislega): Það þarf kannski ekki nema eitt atriði til þess að vera andvígur aðild að ESB, ef þetta eina atriði er nógu mikilvægt.
Þetta eina atriði, sem myndi duga mér, er fjarlægðin frá valdinu og ákvarðanatökunni í ESB. Ég verð alltaf jafn undrandi þegar ég heyri íslenska verkalýðsforingja (úr takti við fólkið sem þeir eiga að vera fulltrúar fyrir) lýsa því hversu gríðarleg áhrif við ættum að geta haft innan sambandsins. Og sem kvenfrelsiskona sem þekkir söguna, þá veit ég líka að völd og áhrif kvenna fara dvínandi eftir því sem fjær dregur valdi og ákvarðanatöku. Tölfræðin um þetta breytist lítið. Fleiri ástæður valda því að ég hafna aðild, en þessi vegur þungt.
Ég á fjölmarga vini meðal Evrópusambandsandstæðinga í löndum innan ESB og það er átakanlegt að heyra ástæður þess að þeir hafa kosið að lýsa andstöðu sinni í garð sambandsins, þrátt fyrir að þeir viti að það skapar þeim óvinsældir áhrifamikilla manna. Kosningaþátttaka í kosningum til þings Evrópusambandsins er hrikalega léleg, gjarnan í kringum 50% og jafnvel lægri, og það er þó eina leiðin til að velja sér fulltrúa sem hefur einhver áhrif á stefnu ESB, ekki þó eins mikil og flestir hinna andlitslausu áhrifamanna sem í raun taka ákvarðanirnar.