Blendnar tilfinningar í lok mótmælaárs
31.12.2008 | 17:32
Eitt er víst, sjaldan í sögu lýðveldisins hefur verið eins mikil ástæða til þess að mótmæla. Og sem aðgerð var sú framvinda sem varð í dag mjög eftirminnileg. Þótt ég sé argasti friðarsinni er samúð mín meiri með mótmælendum en Stöð 2 að þessu sinni. Sé það líka rétt að frumkvæði óeirðalögreglu (er það ekki sérsveitin?) hafi verið jafn mikið og þessi frétt gefur til kynna þá er ábyrgðin auðvitað þar að hluta. Lögreglunni hefur lánast að gera margt vel á viðkvæmum tímum og ég tel að Stefán Eiríksson og Geir Jón reyni sitt besta og leiði þar hóp lögreglumanna sem væru meðal mótmælenda eða eru það kannski, ef þeir eru ekki að sinna skyldustörfum.
Á þessu ári hef ég tekið þátt í fjölmörgum mótmælum, öllum friðsömum. Jafnframt hafa mér ekki komið þessar róstur sem orðið hafa neitt ýkja mikið á óvart. Stór hluti þjóðarinnar er búinn að fá nóg af andvaraleysi stjórnvalda, lítilsvirðingu við þjóðina og þjónkum við útrásarvíkingana sem allt settu á höfuðið.
Ég hef líka setið í pallborði Kryddsíldarinnar og reynt mitt besta að koma stefnu minna ágætu stjórnmálahreyfingar sem ekki er lengur við lýði, Kvennalistans, á framfæri. En í grunninn er ég ekkert rosalega hrifin af stjórnmálaforingjaþáttum. Þótt þetta sé auðvitað rosalega vinsæll vettvangur til þess að gera upp árið, þá var þess ekki að vænta að þöglir og afskiptalausir stjórnmálamenn (flestir hverjir, ég undanskil Steingrím J. ennþá) myndu segja mikið meira en þeir hafa verið krafðir um að undanförnu og þagað þunnu hljóði. Geir komst ekki inn, en átti einhver von á að hann færi allt í einu núna að segja þjóðinni það sem hún vill heyra: Já, við ætlum að efna til kosninga!
Hörður Torfa kjörinn maður ársins á Stöð 2 - ákveðin skilaboð þar, ekki þó þau sem mér heyrist að Sigmundur Ernir er borinn fyrir (vonandi ranglega) að halda að mótmælin séu að undirlagi samkeppnisstöðvarinnar - kommon, sjálfhverfa fjölmiðla er mikil en er þetta ekki einum of!
Gleðilegt ár og vonandi gefast færri ástæður til þess að mótmæla á nýju ári, heldur verður boðað til kosninga.
Mótmælin áttu að vera friðsamleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ertu semsagt að leggja blessun þína yfir skemmdarverk?
Þorsteinn Þormóðsson, 31.12.2008 kl. 17:59
Nei.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 31.12.2008 kl. 18:17
Sæl Anna. Mér þætti gaman að vita afstöðu þína til ISG, fyrrum samherja þíns í Kvennalístanum. Til gamans má geta þess að ég kaus Kvennalistann þegar hann bauð fram síðast. Ekki gat ég kosið kratakvikindin í Alþyðubandalaginu.
Þorsteinn, skemmdarverkin voru í boði lögreglunnar. Mótmælendur sátu og sungu baráttusöngva þegar gasið fór að streyma.
Björgvin R. Leifsson, 31.12.2008 kl. 18:18
"Þjóðin" vill ekkert öll kosningar strax. Ég vil það alla vega ekki og veit um marga fleiri, sem eru sama sinnis.
Ef eitthvað er, draga þessi mótmæli úr stuðningi við málstaðinn.
Svala Jónsdóttir, 31.12.2008 kl. 19:08
Svala, hvaða málstað? Ég get ekki séð að það séu margir málstaðir í dæminu. Það er allt í kaldakoli, stjórnvöld ráða enganveginn við vandan, allt sem þeir hafa gert hingað til er klúður. Ef það eru einhverjir sem draga úr stuðningi við málstaðinn þá eru það þeir sem ekkert gera, láta óréttlætið yfir sig ganga af þjónkun við gamlan og gerpilltan Sjálfstæðisflokk sem hefði gott af því að þekkja sinn vitjunartíma.
Guðmundur Gunnarsson, 31.12.2008 kl. 19:26
Líklega á Guðmundur kollgátuna, málstaðirnir eru margir. Varðandi Ingibjörgu Sólrúnu þá finnst mér miður að við eigum ekki samleið lengur í ýmsum málum. Hefði sannarlega ekki á móti því en ég get ekki annað en verið trú minni sannfæringu.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 31.12.2008 kl. 20:52
Gleðilegt árið hér. Hvað ætli það kosti að kalla út sérsveitina á gamlársdag? Við hvað eru ráðamenn hræddir? Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá þessum mótmælum var fólk til friðs og vildi trufla útsendingu með söng en fékk í staðinn gas frá Sérsveitinni! Mín samúð er með mótmlendum. Skyldi nú engan undra eftir það sem á undan er gengið.
ISG og ég eigum heldur ekki lengur saman. Var þó Kvennalistakona á meðan hann lifði. Enda búin að segja mig úr Sf.
P.s. Þetta er fullt nafn og ég á enga alnöfnu á landinu. Bara svo það sé á hreinu.
Rut Sumarliðadóttir, 1.1.2009 kl. 09:28
Þakka ykkur umræðuna, mér þykir vænt um að þessi mál brenna á svo mörgum.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.1.2009 kl. 16:21
Gleðilegt ár Anna mín og ég tek heilshugar undir hvert orð hjá þér.
Hlakka til að lesa pistlana þína á nýja árinu.
Jenný Anna Baldursdóttir, 1.1.2009 kl. 18:02
Ég tek undir hvert orð hjá Þresti...ég er yfirlýstur friðarsinni og andofbeldiskona...en ég veit ekki hvort það er hreinlega réttlætanlegt að sitja friðsöm undir þessu geggjað ofbeldi sem þjóðin er beitt og verður áfram beitt ef ekkert breytist. Þetta er eiginlega orðið upp á líf eða dauða...þessi hugmyndafræði sem hefur tröllriðið þessari þjóð er að ganga af henni dauðri. Og það ætlar enginn að hjálpa okkur ..við verðum að gera það sjálf. Og líklega með látum þar sem friðsamlegu mótmælin virðast ekki ná eyrum né augum ráðamanna. Eins sorglegt og það nú er.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.1.2009 kl. 00:52