Hækkandi sól, jól, og bráðum koma áramót, en undirliggjandi hótun um að árið 2009 verði það versta. Listi yfir góðu árin og vondu árin, mátulega óvísindalegur.
23.12.2008 | 01:29
Eins og ég elska skammdegið, að því tilskyldu að færðin sé fólki bjóðandi, þá finnst mér alltaf svolítill áfangi í því fólginn að sólin taki að hækka á lofti. Sérstaklega þegar ég er stödd á þeim stað í lífinu að ég fari til vinnu á sama tíma á morgni, þá er svo mikill munur á seinustu dögunum fyrir jól og fyrstu dögum næsta árs.
Ég veit ekki hvort ég er beinlínis komin í jólaskap, en lífið er komið í allt aðrar skorður en venjulega, eins og oftast fyrir jól, og venjulega endar sú törn á því að jólaskapið hellist yfir mig eins og ég veit ekki hvað!
Margir hafa haft á orði að þeir verði þeirri stund fegnastir þegar þetta furðulega ár verður um garð gengið. Veit ekki alveg hvða mér finnst um það, en það pirrar mig svolítið hvað það er greinilega verið að reyna að búa mann undir frekari kjaraskerðingu og gjaldtöku með því að minna á að árið 2009 verði verra, en svo segja sumir að þetta fari nú að skána. Það á sannarlega eftir að fara ofan í saumana á ýmissi ákvarðanatöku á næstunni, ekkert síður en að rannsaka þau afglöp og hugsanleg afbrot sem framin hafa verið.
Þótt ég viti að talnaspeki byggi á öðrum útreikningum hef ég oft skoðað í huganum hvernig árin hafa verið, persónulega, á áratugar fresti. Og samkvæmt því eru árin sem enda á 8 ekki alveg þau bestu, stundum heldur vond, þótt á því hafi verið undantekningar. Árið þegar tímabili lýkur, stundum með meiri trega en á öðrum tímum.
- 1958: Foreldrar mínir skildu.
- 1968: Pabbi dó.
- 1978: Hef ekkert upp á það ár að klaga en var smábarnamamma og ólétt meira en hálft árið - tímabil klárast og ég lauk BA-prófi á árinu.
- 1988: Free-lance vinnan mín í harðri baráttu við félagsmálin og fjárhagurinn leið fyrir það
- 1998: Aftur free-lance og á milli verkefna, óvenju rýrt ár fjárhagslega.
- 2008: Andlát Ása vinar okkar. Mikill dráttur á að verkefni sem ég átti að fara að vinna í færi af stað, með tilheyrandi óvissu og óþægingum - tímabil klárast (eins og 1978) og ég klára M.Sc. prófið mitt í tölvunarfræði.
Árin sem enda á 9 hafa hins vegar verið með betri árum í lífi mínu og ég treysti því að svo verði einnig núna. Oft ár nýs upphafs.
- 1959: Eyddi hálfu árinu með mömmu og ömmu á Spáni, heimsókn frá tilvonandi fóstra mínum þangað var líka góð. Byrjaði í barnaskóla, sem var bara gaman.
- 1969: Byrjaði að eyða sumrum í sveitinni minni, Sámsstöðum í Fljótshlíð, en þaðan á ég alveg yndislegar minningar.
- 1979: Strákurinn minn fæddist og ég átti góða tíma með krökkunum, tókst að skrifa stutta skáldsögu sem ég las í útvarp ári síðar. Var með útvarpsþætti um bókmennir allan veturinn, missti ekki úr þátt þrátt fyrir barnsfæðingu.
- 1989: Hélt út í það ævintýri að verða þingkona fyrir Kvennalistann og fór (fyrr á árinu) í hnattferð með mömmu að heimsækja Möggu frænku á Nýja-Sjálandi.
- 1999: Var að vinna fyrir Sandgerðisbæ og skrifaði í kjölfarið sögu Miðneshrepps og Sandgerðisbæjar frá 1907, sem kemur vonandi út (loksins) á næsta ári. Fórum til Las Vegas um veturinn og það varð fyrsta skrefið í átt að nýjum siðum, sumarfríum á veturna, snilldarfyrirkomulag.
- 2009: Vona að þetta verði skemmtilegt ár ...
Hvernig er þetta hjá ykkur? Eigið þið ykkar uppáhalds-ár? Eða eruð þið dottin í jólastressið og lesið ekki blogg.
Athugasemdir
Ekki er ég nú sammála þér um árin sem enda á 9.
1949 kom vorið ekki fyrr en um miðjan júní hér í Húnavatnssýslum
1959 Gerði stórhríð á 17.júní ,fennti fé eina skiptið sem ég man eftir að fé fennti.
1969 Mesta óþurrka sumar sem ég man eftir.
1979 Þá kom sumarið ekki fyrr en um 20.sept. Fádæma kalt vor og sumar.
1989 Allt í lagi.
1999 Var bara gott ár, ég hætti að búa og flutti frá mínum fæðinga stað en mjög sáttur,vegna þess að dóttir og tengdasonur tóku við búskapnum.
2009 Verður sennilega mjög gott ár fyrir þá sem hafa ekki látið græðgina hlaupa með sig í gönur.
Ragnar Gunnlaugsson, 23.12.2008 kl. 04:59
Ekki man ég neitt sérstakt við ár sem enda á 9 - umfram önnur. Reyndar tók ég stúdentspróf, byrjaði að búa og gifti mig 1979. En 89 og 99 var ekkert sérstakt að gerast. Og ekki man ég heldur til þess að 69 hafi neitt sérstakt gerst heldur. Atburðir í lífi mínu fylgja sem sagt engum sérstökum tölum.
, 23.12.2008 kl. 07:08
Ég hef ekki pælt í þessu neitt.
Óska þér gleðilegra jóla elskuleg
Aprílrós, 23.12.2008 kl. 10:40
Takk, gleðileg jól öll saman!
Man óþurrkasumarið 1969 auðvitað alveg rosalega vel, við komumst í heyskap eina helgi í lok júní og síðan ekkert fyrr en um verslunarmannahelgina, en þá komumst við ekki í Galtalæk fyrr en á laugardagskvöldinu! sem var auðvitað erfitt þegar maður er 17 ára.Baggarnir voru hrikalega þungir og blásturskerfi var komið fyrir í hlöðunni til þess að þurrka þá betur. Virkaði reyndar ekkert of vel og það hitnaði duglega í heyinu. En samt var þetta dásemdarsumar, fyrsta sumarið á Sámsstöðum af sjö, næstum íslitið til 1975 þegar ég var orðin virðulegur trúlofaður hippi.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.12.2008 kl. 11:40
Vá, hvað þið munið eitthvað mikið ... 1976 og 1986 voru spennandi ár, man þó ekki hvort 1996 eða 2006 hafi verið nokkuð sérstök. Treysti því bara að 2009 verði frábært! Knús í bæinn og takk fyrir síðast!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.12.2008 kl. 00:45
Ég sé að ég þar að fara að leggjast í rannsóknir. Það er örugglega eitthvert mynstur í þessu hjá mér líka ef vel er að gáð. Hafðu það sem best um hátíðarnar kæra nafna. Hlýjar kveðjur úr norðrinu.
Anna Ólafsdóttir (anno) 25.12.2008 kl. 14:23
Sæl Anna. Ég skrifa þér hér til að biðja þig um greiða. Þú skrifaðir grein um afa minn Guðbjörn E. Guðbjörnsson í Vikuna 1987. Ég hef alltaf átt þessa Viku upp í hillu en nú finn ég hana hvergi. Nú er afi minn dáin, dó 21. desember síðastliðinn og mig langaði að styðjast við staðreyndir í greininni í skrfium mínum um afa. Svo nú langar mig að biðja þig um, ef þú vilt og getur, að senda mér greinina í tölvupósti. Svo ég geri nú aðeins grein fyrir sjálfri mér þá ólst ég upp á Álftanesi, í Túngötu 22 en er nú bóndi á Sólheimum í Hrunamannahreppi og sit m.a. í hreppsenefnd. Vona að þú verðir við beiðni minni en Guðbjörn verður jarðaður 30 desember. Bestu kveðjur Esther Guðjónsdóttir
Esther Guðjónsdóttir 25.12.2008 kl. 14:57
Sæl Esther, fyrst vil ég votta þér samúð mína vegna afa þíns. Veit ekki hvað ég get gert mikið, ég var reyndar hætt á Vikunni þegar þetta var en gæti hafa skrifað eina og eina grein, því miður rennur saman það sem ég skrifaði sjálf og það sem ég hef lesið. Ég á ekki gamlar Vikur í fórum mínum en fljótlega þarf ég að fara í Þjóðarbókhlöðuna og finna gamla Viku fyrir vinkonu mína fyrir norðan. Ég get reynt að hafa upp á þessari grein í þeirri ferð, en í Þjóðarbókhlöðunni er reyndar fyrirkomulagið þannig að maður þarf að senda bókavörð niður eftir tilteknum tölublöðum og þeir koma upp með blöð sem flest eru ekki einu sinni upprifin. Líklega er hægt að fá þá til þess að koma með heila árganga, hef ekki reynt það. Þessi ferð mín í Þjóðarbókhlöðuna verður reyndar ekki fyrr en eftir áramót úr því sem komið er, þarf að taka svona 2-3 tíma í þetta allt saman, ef ég er heppin. Láttu mig endilega vita ef það dugar þér, get ekki bent á neitt skárra svona í svipinn, því það er ekki búið að flokka efni Vikunnar ennþá, nema eitthvað blað með sama nafni fra 1912. - Bestu kveðjur, Anna1
Og Gurrí mín og nafna, það er alltaf gaman að pæla í þessum árum, gleðileg jól
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.12.2008 kl. 22:25
Sæl Anna og þakka þér fyrir svarið. Það koma á daginn þegar við systur, ég og Elín, fórum að gramsa í gömlum blöðum upp í hillu hjá Elínu að ég hafði einhverntíman lánað systur minn þessa tilteknu Viku og hún ljósritað greinina og átti hana þar með. En blaðið sjálft finnst ekki enn, en málinu er bjargað fyrir horn.
Bestu kveðjur Esther.
Esther Guðjónsdóttir 27.12.2008 kl. 16:39
Þakka þér fyrir að láta mig vita Esther.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 27.12.2008 kl. 23:28