Skírn í fjölskyldunni og hátíðin læðist að, blessunarlega

Litli sonur hans Stebba bróðursonar míns og Margrétar var skírður í dag, Kári litli sem sagt kominn með nafn og Katla stóra systir hans stækkar bara og stækkar. Yndislegt að hitta svona marga úr nánustu föðurfjölskyldunni á einu bretti, tvíburarnir hennar Guðrúnar (systur Stebba) sem voru skírðir fyrir nánast réttu ári eru orðnir þvílíkt stórir að ég ætlaði ekki að trúa því, Emil ,,litli" líkist stóra bróður sínum sífellt meir. Gaman að taka frá dag til þess að spjalla við fjölskylduna og fá fréttir og sjá sprettuna í ungviðinu. Þarf að finna tíma til þess að setja inn myndirnar sem ég tók í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Það er að bresta á einhver hátíðartilfinning í kollinum á mér, verð bara að viðurkenna það. Hef verið veik fyrir jólaskrauti (auðvitað elt tilboðin í anda kreppunnar) allt frá því við Gunna vinkona fórum í leiðangur á milli funda á fyrsta des. Það er sem sagt slatti af nýju jólaskrauti komið á heimilið, enda setjum við stóra jólatréð okkar upp, væntanlega uppi, í fullum skrúða í þetta sinnið, vona ég. Og gamla búbbl sérían fær að komast upp við tækifæri vona ég, hún er sennilega næstum jafngömul og ég, sem sagt fifties framleiðsla og ótrúlegt að hún skuli enn vera við lýði, auðvitað líka með óvirðulegri perum í bland, því þessar búbbl perur eru enginn hægðarleikur að hafa upp á. Samt gerðist ég svo fræg að finna tvær á Ebay og kaupa þær. Held bara að það sé það eina sem ég hef keypt á Ebay, en margt hef ég nú skoðað þar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gaman að þú skulir enn eiga búblseríu. Einn vetrarpart vann ég á Reykjalundi við að steypa perustæðin. Vann á nóttunni, vaktin var frá 20 til 8 og mann var stundum farið að syfja þegar leið á vaktina; þá kom fyrir að botnarnir urðu tvöfaldir og þar með dæmdir ónýtir. Svo tóku vistmenn Reykjalundar við í dagvinnunni og héldu sumir áfram að steypa en aðrir að lóða í fattningarna og tengja á milli. Þetta var, eins og þú segir, in ðö fiftís. -- Mín búblsería leið undir lok fyrir aldamótin og varð löng leit að seríu sem gæti komið í staðinn en lánaðist að lokum, þó ekki búbli hún.

Sigurður Hreiðar, 22.12.2008 kl. 11:51

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Gaman að heyra ævisögu seríunnar sinnar, það jafnast ekkert á við búbblið, það er eitt sem víst er.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.12.2008 kl. 00:13

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband