Betware beauties og fleiri dísir
29.8.2008 | 20:04
Er í merkilegum félagsskap sem kallast Betware Beauties, sem eru konur sem vinna hjá Betware eða hafa unnið þar, aðallega um 2004-5. Við hittumst í rokinu í dag uppi á 19. hæð í nýbyggða turninum í Kópavogi. Þrátt fyrir takmarkað útsýni var gaman að koma þangað og enn meira gaman að hitta gömlu vinnufélagana sem eru einstakar manneskjur, allar saman. Það næst auðvitað aldrei full mæting, ég missti af endurfundi í fyrra af því ég var í Cambridge að hitta enn aðra gamla vinkonu frá Betware, sem er sest þar að, alla vega í bili. Sumir vinnustaðir eru þannig, alla vega á sumum tímabilum, að þeir verða sérstaklega minnisstæðir og Betware árin mín (næstum fimm) í aldarbyrjun voru einmitt svoleiðis tími, yndislegir félagar og gaman að fá fréttir af gömlu vinunum, sem eru sem óðast að festa sitt ráð og fjölga mannkyninu.
Svo hitti ég enn aðra vinkonu mína seinna í dag, við reynum að hittast helst ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði, en raunin er líklega svona á fimm til sex vikna fresti, sem er mikið skárra en ekki neitt. Vinahóparnir okkar skarast lítið og þess vegna er bara að skipuleggja það að hittast, og mér finnst það alltaf jafn æðislegt.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Það er alltaf gaman að hitta gamla vinnufélaga, skólafélaga, vini,. ég var einmitt á endurhitting í gærkvöldi með vinum mínum,það var æðislegt. ;)
Aprílrós, 29.8.2008 kl. 20:09
Aldrei of mikið af góðum vinum.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 29.8.2008 kl. 21:39
Stundum er maður dáltið lesblindur. Það var ekki fyrr en í þriðju rennu að það rann upp fyrir mér að fyrirsögnin var Betware Beauties -- ekki Beware Beauties!
Sigurður Hreiðar, 30.8.2008 kl. 11:36
Já, ég kannast við það, báðar útgáfurnar eiga hér ágætlega við!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 30.8.2008 kl. 12:38
Þetta er eitthvað sem að maður á að gera, plana reglulegan hitting, Þar sem að ég geri lítið að því að fara út. Sumar vinkonur mínar hef ég ekki séð í marga mánuði allt að ár. Fór að heimsækja eina á miðvikudaginn sem ég hef ekki hitt í á annað ár og við ætlum sko að breyta þessu og láta þetta ekki koma fyrir aftur.,
Linda litla, 30.8.2008 kl. 14:44
Þessi gamla vinkona mín er einmitt ein af mínum allra bestu vinkonum, en við gerðum ekkert í því að hittast í lengri tíma, en fyrir sex árum fórum við að hittast skipulega alla vega á nokkurra vikna fresti, svo kom smá hlé og núna erum við aftur farnar að gera eitthvað í þessu. Ef við gerðum það ekki myndum við aldrei hittast.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 30.8.2008 kl. 18:00